Hamingjuhlaup á Hamingjudögum
Nú hefur verið staðfest að Hamingjuhlaupið verður haldið í þriðja skipti laugardaginn 2. júlí í sumar. Að vanda er það Stefán Gíslason, hamingjusamur bóndasonur frá Gröf í Bitrufirði, sem stendur fyrir hlaupinu. Hlaupaleiðin að þessu sinni er þannig að lagt verður upp frá Gröf í Bitrufirði, hlaupið norður yfir Bitruháls, fyrir botn Kollafjarðar, upp í Deildarskarð utan við Litla-Fjarðarhorn, yfir Hvalsárdal og að Heydalsá í Steingrímsfirði. Þessi leið er um það bil 32 km. að lengd.
Líklegt er að hlaupið hefjist seinnipart dags og ljúki á hátíðarsvæðinu á Hólmavík um kvöldið, þannig að koma hlauparanna marki opnun á hinu víðfræga tertuhlaðborði Hólmvíkinga á Hamingjudögum. Tímasetningar verða þó betur auglýstar þegar nær dregur.
Fræðast má um Hamingjuhlaupið og fleiri hlaup á hlaupadagskrá Stefáns Gíslasonar í sumar með því að smella hér. Einnig má skoða splunkunýjan vef Hamingjudaga á Hólmavík á slóðinni www.hamingjudagar.is.