Íþróttahátíð og 10 ára afmæli
| 15. janúar 2015
Í tilefni að því að Íþróttamiðstöðin á 10 ára vígsluafmæli í dag, 15. janúar, bauð sveitarfélagið upp á íþróttanammi og sunginn var afmælissöngur.
Hápunktur hátíðarinnar var engu að síður útnefning íþróttamanns ársins en Salbjörg Engilbertsdóttir sem situr í tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd kynnti verðlaunin. Að þessu sinni hlaut Ingibjörg Benediktsdóttir hvatningarverðlaun en hún hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreifingarinnar og íþróttaeflingar og hvetur alla aldurshópa til almennrar hreyfingar. Hún er dugleg, hvetjandi og jákvæð í íþróttastarfinu og hún hefur með styrktartímum sínum fengið breiðan aldurshóp til að stunda íþróttir.
Jamison Ólafur Johnson hlaut hins vegar valinn íþróttamaður Strandabyggðar árið 2014 þrátt fyrir að hafa ekki náð 16 ára aldri, enda framúrskarandi á sínu sviði. Hann hlaut hvatningarverðlaun Strandabyggðar árið 2012 og hafa þau greinilega hvatt hann til dáða. Jamison er sá Strandamaður sem náð hefur hvað lengst frjálsum íþróttum á undanförnum árum og hefur náð Strandametum í fjölda frjálsíþróttagreina og nú í sumar náði hann lágmarki fyrir úrvalslið Unglingalandsliðs Íslands sem veitir honum keppnisrétt á erlendri grund. Á árinu 2014 vann Jamison 15 gull, 9 silfur og 6 brons í ýmsum frjálsíþróttagreinum, þótt spretthlaupin séu hans sterkasta grein. Hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Til hamingju verðlaunahafar og til hamingju íbúar Strandabyggðar með 10 ára vígsluafmæli Íþróttamiðstöðvarinnar og allt það góða starf sem þar fer fram.