Íþróttalíf á Ströndum
Heilmikið er um að vera í íþróttalífi Strandamanna en Héraðssamband Strandamanna fagnaði einmitt 70 ára afmæli sínu 19. nóvember síðastliðinn. Hér er stiklað á stóru í nýliðnum stórviðburðum.
Fimm silfur HSS á Silfurleikum ÍR
Nítjándu Silfurleikar ÍR fóru fram laugardaginn 15. nóvember s.l. í laugardalshöllinni, en Silfurleikar ÍR eru til heiðurs Vilhjálmi Einarssyni sem fékk silfur í þrístökki á ólímpíuleikunum 1956. Rúmlega 600 keppendur hófu keppni og átti frjálsíþróttahópur HSS 5 keppendur. Sóldís Eva Baldursdóttir, Árný Helga Birkisdóttir og Stefán Þór Birkisson tóku þátt í fjölþraut 8 ára og yngri, sem er þrautabraut með 7 þrautum og stóðu þau sig einstaklega vel og fengu öll fyrir það silfurpening.
Viktor Elmar Gautason tók þátt í hástökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi, gekk honum vonum framar en hann náði 2. sæti í 600 m hlaupi. Jamison Ólafur Johnson tók þátt í kúluvarpi, þrístökki og 800 m hlaupi og náði hann einnig 2. sæti í 800 m hlaupi. Glæsilegur hópur.
Mögnuð þátttaka í æfingarbúðum SAM-Vest, 63 frjálsíþróttabörn
Um nýliðna helgi voru haldnar æfingabúðir á vegum SAM-Vest samstarfsins að Laugum í Sælingsdal. SAM-Vest er samstarfsverkefni nokkurra héraðssambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum sem hefur það markmið að efla frjálsíþróttir á litlu svæðunum þar sem frjálsar hafa verið í mikilli lægð. Frjálsar íþróttir hafa átt erfitt uppdráttar vegna smæðar samfélaga, en erfitt að halda uppi íþrótt fyrir 2-3 iðkendur og kosta til þess þjálfara, en nú fjölgar þátttakendum með tilkomu samstarfsins.
Hugmyndin að æfingabúðunum var að þjappa hópnum betur saman en hingað til hafa æfingarnar farið fram á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi. SAM-Vest hefur fengið góða gestaþjálfara á æfingar en Hlynur C. Guðmundsson hefur verið mikill stuðningur hvað þjálfun og leiðbeiningar varða.
Mæting var klukkan 17:00 á föstudeginum 21. nóv og var byrjað á að koma sér fyrir og fara í æfingagallana en fyrsta æfingin var stýrt af Kristínu Höllu Haraldsdóttur yfirþjálfara stýrði en Kristín og Hlynur C. Guðmundsson þjálfari í Mosfellsbæ sáu um æfingarnar.
Farið var í sund báða dagana, fjörug kvöldvaka var haldin á föstudagskvöldinu, og krakkarnir voru duglega að nýta sér frjálsa tíma til að kynnast betur.
Dagskrá og skipulagning voru til fyrirmyndar og gekk vonum framar, sérstaklega í ljósi þess að þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Alls mættu 63 krakkar í æfingabúðirnar og börnin fóru heim með bros á vör og spurðu ítrekað hvenær næstu æfingabúðir yrðu haldnar.
Frá Ströndum fóru 9 börn í æfingabúðirnar sem er talsverð aukning en í vetur hafa verið milli 20 og 30 börn að æfa frjálsar frá 5 ára aldri til 15 ára. Stærsti hópurinn er 8 ára og yngri. Auk þess hafa 4 börn frá Reykhólum komið á æfingar enda hefur veðurfar verið mjög gott það sem af er hausti.
Hólmadrangsmót í fótbolta
Fótboltamót HSS og Hóladrangs fór fram í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík 23. nóvember. Alls tóku 30 börn þátt og komu gestalið frá Dölum og Hvammstanga. Mótið fór að vanda vel fram og skemmtu allir sér konunglega.
Endilega fylgist með nánari fréttum af íþróttastarfinu á www.hss.123.is