Íþróttamaður ársins
Íþróttastarf hefur verið í blóma á árinu. Skíðafélagið er alltaf jafn kraftmikið og hefur að auki sett alla umframorkuna í byggingu skíðaskála í Selárdal. Taekwondodeildin hefur unnið öflugt starf og bætt við sig beltum og verðlaunum. Frjálsíþróttahópurinn stóð sig vel og keppendur hafa keppt á nokkrum mótum á árinu og Strandamet slegin. Hópur ungmenna keppti á Unglingalandsmóti með góðum árangri. Víðavangshlaup er vinsælt sem aldrei fyrr og Íþróttamiðstöðin vel nýtt til íþróttaiðkunar. Þetta er þó bara brot af því sem gert er í íþróttastarfi.
Vala Friðriksdóttir hlaut hvatningarverðlaun Strandabyggðar en hún hefur unnið mikilvægt starf í þágu íþróttahreifingarinnar og íþróttaeflingar. Hún er áberandi dugleg, hvetjandi og jákvæð í íþróttastarfi og sterkur íþróttamaður í skíðagöngu, hlaupi og taekwondo og hefur meðal annars hlaupið hálfmaraþon undanfarin ár í Reykjavíkurmaraþoni. Hún sér um Taekwondo deild Geislans, sinnir því af lífi og sál og sýnir mikinn metnað við kennslu og undirbúning nemenda sinna og hvetur þá áfram. Hún er fyrirmynd í heilbrigðum lífstíl og og hreyfingu.
Íþróttamaður ársins er Rósmundur Númason.
Rósmundur hefur í áraraðir stundað skíðagöngu og víðavangshlaup með góðum árangri. Hann hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoni síðasta sumar og keppti á flestum skíðagöngumótum með góðum árangri. Á síðasta ári varð hann síðan Landvættur en þann titil hlýtursá einstaklingur sem lýkur keppni í eftirtöldum greinum á 12 mánaða tímabili: Vesturhluti-50 km í Fossavatnsgöngu, Norðurhluti-Jökulsárhlaup 32.7 km hlaup, Austurhluti-Urriðavatnssundið 2,5 km og Suðurhluti-Blue Lagoon Challenge-60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði. Þetta tók Rósmund ekki nema 14 tíma. Rósmundur er jákvæður íþróttamaður, hvetjandi, mikil fyrirmynd og svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn.
Strandabyggð sendir verðlaunahöfum innilegar hamingjuóskir.