Íþróttaverðlaun Strandabyggðar 2022
Í gær voru afhent íþróttaverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2022 en þau eru valin af Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd eftir innsendum tillögum og mati nefndarinnar.
Hvatningarverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2022, sem veitt eru fyrir aldurshópinn 12 til 15 ára, hlaut Árný Helga Birkisdóttir fyrir góða ástundun, framfarir og árangur í skíðagöngu. Sem og þátttöku sína í frjálsum íþróttum.
Tilnefning barst nefndinni og var hún einhuga um að Árný Helga væri vel að þessum verðlaunum komin.
Árný tók miklum framförum í skíðagöngu á síðasta ári, fór ásamt 2 öðrum iðkendum frá SFS í æfingabúðir Skíðasambands Íslands í Beitostolen í Noregi í um áramótin 2021-2022 og fór aftur nú um síðustu áramót.
Árný tók þátt í öllum 3 bikarmótum SKÍ á síðasta ári og uppskar þar 1 gull, 5 silfur og 1 brons, hún tók einnig þátt í skíðamóti Íslands á Ólafsfirði og varð þar Unglingameistari í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og í 3. sæti í göngu með frjálsri aðferð, í liðakeppni í sprettgöngu var hún í liði með Stefáni bróður sínum og voru þau í 4. sæti.
Á Andrésarandarleikunum á Akureyri sigraði Árný í göngu með hefðbundinni aðferð og var í 2. sæti í skicrossi með frjálsri aðferð. Þá tók Árný einnig þátt í Íslandsgöngum, var í 3. sæti í 12 km í Hermannsgöngunni á Akureyri, í 2. sæti í 10 km í Strandagöngunni og í 2. sæti í 12.5 km í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði.
Unnar Vilhjálmsson frjálsíþróttaþjálfari hjá UFA, Ungmennafélagi Akureyrar lýsir Árnýju Helgu svona:
Árný hefur frá fyrstu æfingu verið mjög dugleg og áhugasöm. Hún er alltaf jákvæð og hefur mjög góð áhrif á liðsandann. Hún er alltaf til í að aðstoða aðra og til í nýjar áskoranir. Árný er því sannarlega vel að þessum hvatningarverðlaunum komin.
Íþróttamaður Strandabyggðar árið 2022 er Jóhanna Rannveig Jánsdóttir fyrir knattspyrnuiðkun.
Nefndarmaður TÍM nefndar lagði til tilnefningu Jóhönnu Rannveigar og var nefndin einnig einhuga um að hún væri vel að þessum verðlaunum komin.
Jóhanna Rannveig byrjaði að æfa knattspyrnu eftir að hún flutti til Hólmavíkur 7 ára gömul. Hún hafði þá stundað fimleika frá 4 ára aldri hjá Fjölni í Grafarvogi og hefði sennilega haldið því áfram ef hún hefði ekki flutt til Hólmavíkur.
Jóhanna Rannveig keppti með Kormáki á Hvammstanga og Vestra á Ísafirði á sumarmótum framan af, því Geislinn nær ekki í heilt lið. 10 ára flutti hún í Garðabæ og hóf að æfa knattspyrnu þar með Stjörnunni þar sem hún er ennþá iðkandi. Þrátt fyrir að hafa flutt til baka til Hólmavíkur 2018, þá 12 ára, hélt hún áfram að æfa og keppa með Stjörnunni þegar nokkur möguleiki var á, hélt sínum stað í liðinu og hefur undanfarið bæði keppt með A og B liði Stjörnunnar á Faxaflóamótum, Íslandsmótum og tvö sumur á Gothia Cup í Svíþjóð.
Síðastliðið ár hefur henni gengið afar vel, skorað fjölda marka, átt margar stoðsendingar sem hafa orðið að mörkum og stundum verið lykilleikmaður í sigri. Hún skoraði meðal annars fyrsta mark sem skorað var í keppnisleik í Miðgarði, nýju knattspyrnuhúsi Garðbæinga, strax eftir að það var tekið í notkun. RÚV vildi fá hana af velli í viðtal fyrir sjónvarpsfréttirnar af því tilefni en hún sá enga ástæðu til að yfirgefa leikinn og liðið sitt fyrir sjónvarpið.
Þjálfarinn hennar, Axel Örn Sæmundsson lýsir henni svona.
Jóhanna Rannveig er iðkandi hjá knattspyrnudeild Stjörnunnar. Jóhanna er ofboðslega metnaðarfull og viljug til að bæta sig í öllum þáttum greinarinnar. Jóhanna er gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem getur spilað nánast allar stöður á vellinum og leysir það eins og að drekka vatn. Hún er félagslega sterk og steig upp þegar á reyndi til að hvetja sína liðsfélaga áfram í blíðu og stríðu og gerði hún það alltaf á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Þrátt fyrir að eiga heima á Hólmavík og komast takmarkað á æfingar yfir vetrartímann hjá Stjörnunni þá var Jóhanna alltaf að biðja um aukaæfingar og sýndi það mér nákvæmlega hvaða persónuleika hún bjó yfir og hvað hún var tilbúin til að leggja mikið á sig til að ná árangri í sinni íþróttagrein. Jóhanna er að mínu mati vel að þessari tilnefningu komin og var það mín ánægja að fá að þjálfa svona metnaðarfullan leikmann.