Jafnrétti fyrir alla!
Hvað er verið að gera í jafnréttismálum í öðrum sveitarfélögum?
Fulltrúar frá jafnréttisnefndum frá nokkrum sveitarfélögum kynntu starfsemi nefnda sinna sem felst fyrst og fremst í gerð jafnréttisáætlana, eineltisstefnu og aðgerðaráætlana. Fjölmörg sveitarfélög veita jafnréttisverðlaun ár hvert til að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til dáða og vekja athygli á því sem vel er gert. Akureyrarbær vinnur nú að endurskoðun á jafnréttisstefnu bæjarins en þar gildir sú starfsregla að vinnustaður með fleiri en 25 starfsmenn þurfa að gera sérstaka áætlun.
Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, sem stofnað var árið 2007, hefur m.a. eftirlit með að allir þeir sem þiggja styrki á vegum borgarinnar fylgi mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Þá hefur starfshópur á vegum ráðsins skoðað kynbundinn launamun og hefur komist að þeirri niðurstöðu að starfsmatskerfið hefur ekki náð að hafa nógu mikil áhrif á launamun kynjanna. Ísafjarðarbær vinnur nú að gerð jafnréttisáætlunar og þess má geta að jafnréttisáætlun Strandabyggðar bíður umsagnar Jafnréttisstofu.
Ungt fólk og jafnrétti
Hvað er jafnrétti? Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri Mosfellsbæjar, sýndi skemmtilegt myndband sem unnið var í félagsmiðstöðinni Bólinu þar í bæ en í Mosfellsbæ og Reykjavík er verið að leggja áherslu á að fræða ungt fólk um jafnrétti bæði í félagsmiðstöðvum og skólum. Jafnréttisfræðsla er t.d. kennd í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Fjölmörg áhugaverð og mikilvæg verkefni er hægt að vinna með börnum og ungu fólki í tengslum við jafnréttismál, m.a. er víða skoðað hvað kynin eru að gera inn í félagsmiðstöðvum, hvað jafnrétti er í hugum ungs fólks o.s.frv. Í Mosfellsbæ er jafnréttisdagur haldinn árlega þann 18. september og í hvert sinn tileinkaður ákveðnu málefni. Árið 2008 var jafnréttisdagurinn tileinkaður Jafnrétti í skólum og árið 2009 bar jafnréttisdagurinn yfirskriftina Ungt fólk og jafnrétti.
Kynjuð hagstjórn
Á landsfundinum var rætt um kynjaða hagstjórn og hvaða áhrif ákvarðanir stjórnvalda, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, hafa á kynin. Andrea Hjálmsdóttir, félagsfræðingur við Háskólann á Akureyri er í þessu samhengi að skoða hvaða áhrif göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hafa á líf íbúa eftir kynferði þeirra. Í þeirri athugun kemur m.a. fram að karlar nota samgöngukerfi á annan hátt en konur. Við bættar samgöngur nýta karlar stærra atvinnusvæði meðan konur nýta stærra þjónustusvæði. Langtímaverkefni er að skoða hvaða áhrif þessar samgöngubætur hafa á lífskjör karla og kvenna í nýju og sameinuðu sveitarfélagi Fjallabyggð m.t.t. atvinnutækifæra, verslunar og þjónustu, félagslífs, tækifæri til að njóta afþreyingar og menningar og verkaskiptingu kynjanna. Þá velti Gyða Hjartardóttir, félagsþjónustufulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga upp áhrifum hrunsins á kynin en svo virðist vera sem fleiri einhleypir karlar þurfa á fjárhagsaðstoð að halda nú en áður og eru þeir orðnir stærsti hópurinn í einhverjum sveitarfélögum.
Mannréttindi í nýju ljósi
Helga Baldvins- og Bjargardóttir, verkefnisstjóri hjá rannsóknarsetri í fötlunarfræðum fjallaði um réttindi fatlaðs fólks -jafnréttishugtakið í nýju ljósi. Hún lagði áherslu á að áríðandi er að hverfa frá ölmusu og góðgerðarsjónarhorni yfir í réttindamiðað sjónarhorn. Mannleg reisn felst í sjálfræði, jafnrétti og samstöðu. Gamlar hugmyndir réttlæta hinsvegar forræðishyggju gagnvart einstaklingum.
Jafnréttisviðurkenning Kópavogsbæjar 2011
Við upphaf fundarins var Þórunni Björnsdóttur, kórstjóra skólakórs Kársnesskóla veitt jafnréttisviðurkenning jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar. Viðurkenninguna fær hún fyrir ötult starf sitt í yfir þrjá áratugi við að kenna börnum skólans að syngja í kór og stuðla með því að jafnrétti til tónlistariðkunar. Í rökstuðningi ráðsins segir m.a. að Þórunn hafi haft þá stefnu frá fyrstu tíð að öll börn í skólanum skyldu syngja í kór og er kórstarf hluti af námi barna í yngstu bekkjum skólans en valgrein í þeim eldri. Jafnréttisviðurkenning jafnréttis- og mannréttindaráðs er veitt árlega en í fyrra féll hún í skaut Knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Þá voru heiðraðar fjórar konur úr Kópavogi fyrir framlag sitt til jafnréttismála, þær Þórunn Björnsdóttir kórstjóri, Svandís Skúladóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, þingmaður og ráðherra og Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK.
Á fundinum kom fram að Hulda Jakobsdóttir, sem varð bæjarstjóri í Kópavogi árið 1957, hefði verið fyrst íslenskra kvenna til að gegna slíku embætti. Síðan þá hafa tvær konur verið bæjarstjórar í Kópavogi, Hansína Ásta Björgvinsdóttir frá 2004 til 2005 og Guðrún Pálsdóttir frá árinu 2010.