Jólakveðja
Jólatréð hjá Svönu og Nonna skartar sínu fegursta. Jólakortakassi Lions að fyllast í Kaupfélaginu. Spennan að magnast út af jólahappdrætti KSH. Dulúð og erill í kringum pakkana á pósthúsinu. Smáfuglarnir sitja á þakinu á Galdrasafninu. Þeir vita að þeir eiga von á góðgæti. Allt hvítt, nema bleiku skýin á himninum. Að keyra Hafnarbrautina og horfa á Hólmavíkurkirkju eins og að vera staddur inn í póstkorti. Jólabærinn Hólmavík. Fallega Hólmavík.
Það er Þorláksmessa og jólakveðjurnar eru lesnar í útvarpinu. Ég vona að jólasveinarnir gleymi ekki að bera út jólakortin. Ég vona að við gleymum ekki að njóta augnabliksins. Ég hlakka til að fara í messuna í Hólmavíkurkirkju kl. sex á morgun. Fyrir mér er hún hátíðleg hamingjustund. Innihaldsrík, friðsæl - og full af samkennd. Fyrir mér er jólamessan eins og jólatréð hjá Svönu og Nonna, jólakortakassinn hjá Lions, jólahappdrætti KSH, smáfuglarnir á þakinu á Galdrasafninu - og Strandirnar allar. Hún er það sem gerir okkur rík - í hjartanu.
Ég óska ykkur öllum innihaldsríkar jólahátíðar og farsæls komandi árs.
Með hlýjum þökkum fyrir vináttu og væntumþykju á árinu sem er að líða,
Ingibjörg