Kjörsókn í Strandabyggð rúm 50 prósent
| 22. október 2012
Á laugardaginn fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs varðandi nýja stjórnarskrá. Á kjörskrá í Strandabyggð voru 206 karlar og 184 konur, samtals 390 einstaklingar. Á kjörfundi í Hnyðju kusu 168 en utankjörfundaratkvæði voru 33. Samtals atkvæði voru því 201 sem þýðir að kosningaþátttaka í Strandabyggð var 51,5%. Kjörfundur hófst kl. 9:00, atkvæðagreiðsla hófst kl. 10:00 og lauk kjörfundi kl. 18:15.
Kjörstjórn gekk frá kjörgögnum eins og fyrir er mælt og var því lokið kl. 18:40. Lögreglan á Hólmavík sótti þau til formanns kjörstjórnar um kl. 19:15 og flutti þau til talningar hjá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi sem staðsett var í Borgarnesi.
Að sögn Guðmundar Björgvins Magnússonar, formanns kjörstjórnar, fór kjörfundur fram með ágætum, án vandræða eða athugasemda. Var það samdóma álit kjörstjórnar að Hnyðja væri mjög heppilegt húsnæði til kosninga af þessu tagi.