A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kökusala og mannlegt bókasafn

Salbjörg Engilbertsdóttir | 05. nóvember 2014

Félagsmiðstöðin Ozon verður með kökusölu og mannlegt bókasafn  í anddyri Kaupfélagsins í dag, miðvikudaginn 5. nóvember, milli klukkan 16 og 18. Tilefnið er félagsmiðstöðvardagurinn sem haldinn er hátíðlegur um land allt í dag. Markmið félagsmiðstöðvadagsins er að gefa áhugasömum færi á að kynnast því sem fer fram í félagsmiðstöðvum, unglingunum og þeim viðfangsefnum sem þeir fást við með stuðningi starfsfólks félagsmiðstöðvanna.


Í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar munu unglingar úr félagsmiðstöðinni Ozon standa fyrir lifandi bókasafni milli kl. 16 og 18 þar sem gestum og gangandi gefst færi á að fá lánaðan ungling „til aflestrar". Þannig geta áhugasamir komist að því með beinum hætti hvað unglingar eru með á heilanum. Hægt verður að fá lánað „íþróttafrík," „tónlistarséní," „jafnréttissinna," „félagsmálatröll" og fleiri áhugaverða unglinga til þess að spjalla við.


Lifandi bókasafn er í raun eins og önnur bókasöfn, nema bækurnar eru lifandi manneskjur sem má fá lánaða í ákveðinn tíma og spjalla við á staðnum. Á félagsmiðstöðvadaginn gefst því tækifæri fyrir áhugasama, sem undir öðrum kringumstæðum hefðu ekki tækifæri til þess, að eiga jákvætt og uppbyggilegt samtal við unglinga. Að samtalinu loknu skilar maður bókinni aftur eins og á öðrum bókasöfnum. Lifandi bókasafn skapar því vettvang fyrir uppbyggileg samskipti sem líklega eiga sér ekki stað að öðru jöfnu og hafa það að leiðarljósi að brjóta niður fordóma og eyða fáfræði.


Dagskrá félagsmiðstöðvadagsins verður breytileg á milli félagsmiðstöðva en á það sameiginlegt að þar fær unglingamenningin að njóta sín.
Allir eru velkomnir, sérstaklega foreldrar og „gamlir" unglingar sem vilja rifja upp kynnin við unglingamenninguna. Unglingarnir bera hitann og þungann af undirbúningi dagsins og verður ágóði kökusölunnar nýttur til a ðefla starf Ozon en unglingarnir safna sjálfir fyrir öllu starfi, verkefnum og innkaupum.​

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón