Kópnes – auglýst er eftir áhugasömum aðilum um endurbyggingu
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 13. Júní 2017 að auglýsa eftir áhugasömum aðilum um endurgerð og uppbyggingu á gamla Kópnesbænum á Hólmavík. Finnist slíkir aðilar ekki nú í sumar verður farið í niðurrif bæjarins fyrir veturinn, enda stafar hætta af honum vegna lélegs ástands.
Hér með er auglýst eftir áhugasömum aðilum um uppbyggingu og endurreisn gamla Kópnesbæjarins. Umsækjendur þurfa að skila inn áætlun um endurbyggingu og fyrirhugaða framtíðarnýtingu bæjarins. Bent er á að bærinn fellur undir skilgreiningu Minjastofnunar um friðuð hús og mannvirki og er því áskilið að allar framkvæmdir taki mið af því. Sá aðili sem fær bæinn til uppbyggingar þarf fyrir 1. október 2017, að ganga þannig frá byggingunum að ekki stafi af þeim fokhætta.
Fyrirliggjandi eru teikningar af bæjarhúsunum sem gerðar voru árið 2005 eftir uppmælingu á þeim. Teikningarnar liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn Strandabyggðar áskilur sér rétt til að velja úr hugmyndum eða hafna öllum.
Umsóknum skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins að Höfðagötu 3, 510 Hólmavík eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is fyrir 20. júlí 2017.