Kröfum fyrrverandi sveitarstjóra að miklu leyti hafnað
| 09. apríl 2022
Yfirlýsing frá sveitarstjórn Strandabyggðar:
Sveitarstjórn fagnar því eindregið að niðurstaða sé komin í málið. Óánægja er þó vissulega með dæmdar miskabætur, en af dómnum virðist mega ráða að þær séu tilkomnar vegna þess að aðferðin við uppsögnina hafi ekki verið nægilega nærgætin. Þegar dómurinn er lesinn í heild kemur hvergi fram að uppsögnin hafi verið ólögleg eða óréttmæt. Sveitarstjórn var þvert á móti í fullum rétti við að segja starfsmanninum upp í samræmi við ráðningarsamning milli aðila. Eins minnir sveitarstjórn á að fullkomin samstaða var í sveitarstjórninni um að aðrar leiðir væru ekki færar og að uppsögnin væri óhjákvæmileg.
Á fimmtudaginn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Vestfjarða vegna málaferla fyrrverandi sveitarstjóra, Þorgeirs Pálssonar, gegn sveitarfélaginu Strandabyggð. Þorgeir gerði kröfu um biðlaun í þrjá mánuði vegna uppsagnar hans í apríl á síðasta ári, samtals að upphæð 4,4 milljónir auk dráttarvaxta. Einnig miskabætur að upphæð 1,5 milljón auk dráttarvaxta og loks gerði hann kröfu um að sveitarfélagið greiddi málskostnað hans. Sveitarstjórn samþykkti á sínum tíma að taka til varna í málinu og verja hagsmuni sveitarfélagsins og niðurstaða Héraðsdóms liggur nú fyrir. Kröfum um biðlaun er hafnað með öllu, en Þorgeiri dæmd hálf milljón í miskabætur. Aðilar málsins eiga sjálfir að greiða sinn málskostnað.
Dómurinn sjálfur verður birtur á vef Héraðsdóms Vestfjarða.