Kveðja frá sveitarstjóra
Sæl öll,
Það er nokkuð liðið síðan ég sendi frá mér eins konar vinnuskýrslu og þykir mér það miður. Hér koma því nokkrir punktar yfir nokkur verkefni sem ég hef unnið að síðustu vikurnar.
Hitaveitumál
Nú er að komast skriður á þessi mál. Búið er að hitamæla holurnar eins og sagt var frá hér fyrir nokkru. Næsta skref er álagsprófun, til að komast að því hvort þarna sé nægjanlegt vatn og af þeim hita sem við þurfum. Við vinnum nú með ISOR, Verkfræðiskrifstofunni Stoð á Sauðárkróki og Íslenskri Jarðhitatækni ehf, að undirbúningi og vonumst til að álagsprófun hefjist í byrjun maí.
Umhverfisátak
Undirbúningur fyrir umhverfisátak er hafinn, eins og sagt hefur verið frá á heimasíðunni okkar. Það er að ýmsu að hyggja þegar svona átaki er ýtt af stað, og núna er unnið að því að tryggja að öll geymsluaðstaða innan Strandabyggðar sé til staðar og standist allar kröfur. Þetta verkefni verður unnið með rekstraraðilum, verktökum og íbúum Strandabyggðar, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Áhaldahúsinu, Sorpsamlaginu og eins er Lögreglan upplýst framkvæmd átaksins. Það næsta í þessu ferli er að boða rekstraraðila á Skeiði til samráðsfundar, því það er ljóst að svona verkefni vinnst ekki nema í góðri samvinnu þeirra sem hlut eiga að máli. Það verður gert á næstunni.
Styrktarsamningar
Strandabyggð styrkir árlega ýmsa starfsemi í sveitarfélaginu og núna er unnið að því að klára þessa samninga og skrifa undir. Það sem er sérstaklega ánægjulegt við þessa vinnu er að þá kemur í ljós hversu fjölbreytt starfsemi er í sveitarfélaginu okkar. Við getum verið stolt af því.
Ýmis önnur verkefni
Það er af nógu að taka, enda starf sveitarstjóra sérlega lifandi og með mikla snertifleti. Hér má nefna: Hönnun leikskólalóðar ofl, sem við vinnum með VERKÍS og kyntum nýlega á íbúafundi, starfsmannamál; sérstaklega tengd Leik- og Grunnskóla auk þess að vinna með nemendum Grunnskólans að þróun nýrra hugmynda varðandi Hamingjudaga, mótun Byggðasamlags um slökkviliðsstjóra í samstarfi við Dalabyggð og Reykhólahrepp. Þessu tengt má nefna að nýr slökkviliðsbíll kemur til Hólmavíkur á næstu dögum og verður það auglýst síðar. Þá hefur verið unnið að því að ráða Byggingarfulltrúa til sveitarfélagsins, undirbúningur að húsnæðisverkefni í samvinnu við Íbúðalánasjóð er hafinn, haldnir hafa verið fundir með Vegagerðinni vegna þjónustu á vegum Strandabyggðar, fundur var í Byggðastofnun um málefni Strandabyggðar og Hólmadrangs, sveitarstjóri sótti Landsþing Sambands íslenskra Sveitarfélaga og vann að frágangi á yfirfærslu Flugstöðvarinnar til okkar frá ISAVIA. Þá höfum við komið að umræðu um Strandakjarnann sem gæti orðið styrking á þeim þjónustukjarna sem Strandabyggð er nú þegar. Í gangi er svo undirbúningur ferðaþjónustu sumarsins, ofl ofl.
Verkefni eru mörg og þessi listi langt frá því tæmandi, sem betur fer, því tækifærin eru til staðar í Strandabyggð; við þurfum bara að sækja þau og auka þannig enn frekar lífsgæðin okkar.