Langar þig í leitir?
Framundan eru spennandi og erilsamir tímar hjá fjárbændum en formlegar fjárleitir hefjast í Strandabyggð föstudaginn 11. september og munu standa yfir með reglulegu millibili fram í október. Mikið er um að vera og mörg handtökin sem þarf að vinna en um leið er alltaf gaman að heimta fé af fjalli og sjá afrakstur sumarsins koma í ljós.
Leitar- og réttardagar eru skemmtilegir samkomudagar í sveitunum okkar þar sem saman kemur fjöldi fólks, jafnt heimamenn og gestir. Börnum jafnt sem fullorðnum þykir spennandi að mæta í réttir til að fylgjast með og hjálpa til. Gott er að allir hafi það í huga að spenningur er mikill hjá öllum, jafnt ungum sem öldnum og vönum sem óvönum og því mikilvægt að við tökum tillit til hvers annars. Það er í okkar eigin höndum að skapa góða stemningu og góðar minningar.
Þeir sem eru áhugasamir um að komast í smalamannskur geta haft samband við leitarstjóra/fjallkóng og boðið fram aðstoð sína, sjá upplýsingar í Fjallskilaseðli Strandabyggðar um leitarsvæði, leitarstjóra og tíma.
Réttað verður í Strandabyggð sem hér segir:
- Skeljavíkurrétt laugardaginn 12. september kl. 16:00
- Staðarrétt sunnudaginn 13. september kl. 14:00
- Krikjubólsrétt sunnudaginn 20. september kl. 14:00
- Réttað er í Broddanesi sunnudaginn 20. september kl. 16:00