Norrænir samspilsdagar á Hólmavík.
Í dag hófust norrænir samspilsdagar hér á Hólmavík á vegum Tónskólans en 11 nemendur frá vinabæjum okkar í Hole í Noregi og Aarslev í Danmörku taka þátt í samspilinu ásamt 19 börnum frá Hólmavík. Munu börnin æfa saman næstu tvo daga vítt og breitt um bæinn en búið er að leggja Café Riis, Braggann, Félagsheimilið og Grunnskólann undir spilverkið. Næstkomandi laugardag munu síðan þessir ungu tónlistarmenn bjóða upp á tónleika í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefjast þeir kl. 17:00. Verður ókeypis aðgangur fyrir alla þá sem áhuga hafa á að njóta afraksturs samspilsins. Með börnunum í för eru 6 fullorðnir sem dvelja hér á meðan og ekki ætti veðráttan að spilla fyrir hópnum, sumarblíða eins og hún gerist best. Það er Bjarni Ó. Haraldsson tónlistarkennari sem hefur haft veg og vanda við undirbúning og framkvæmd daganna en fjölmargir aðrir hafa lagt hönd á plóginn til að gera samspilsdagana skemmtilega og lærdómsríka. Í Tónskólanum á Hólmavík eru nú 57 nemendur á grunnskólaaldri í tónlistarnámi eða nærri 80% allra grunnskólanema í Strandabyggð.