Nýr skólastjóri við Grunn- og tónskóla Hólmavíkur
Sveitarstjóra Strandabyggðar hefur verið falið að ganga frá ráðningarsamningi við Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur vegna starfs skólastjóra við Grunn- og tónskóla Hólmavíkur.
Hrafnhildur er íbúum sveitarfélagsins að góðu kunn, uppalin í Steinadal í Kollafirði og hefur búið á Hólmavík um langt árabil. Hrafnhildur er grunnskólakennari að mennt og er að ljúka meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún hóf störf við grunnskólann á Hólmavík árið 1985 og hefur starfað þar allar götur síðan en auk þess og samhliða hefur hún m.a. starfað hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þar sem hún leiddi dreifnám FNV á Hólmavík síðastliðinn vetur og jafnframt fyrsta ár þess.
Hrafnhildur mun hefja störf við Grunn- og tónskóla Hólmavíkur síðar í sumar.