Sameining leik-, grunn- og tónskóla Strandabyggðar - staða mála
Núna frá og með 1. janúar, getum við í raun byrjað að tala um sameinaðan leik-, grunn- og tónskóla Strandabyggðar í eina rekstrareiningu. Þetta er hins vegar stórt verefni og flókið á vissan hátt og því mun innleiðing sameiningarinnar gerast í skrefum. Vinna við innleiðingu sameiningarinnar er í höndum sérstaks vinnuhóps auk verkefnastjóra frá Tröppu ehf.
Kennsla í báðum skólum verður með óbreyttu sniði fram á vor, en í haust fer kennsla fram í fyrsta sinn undir formerkjum sameinaðs skóla, og verður þá búið að skilgreina og skipuleggja hvernig kennslan og skólastarfið mun tvinnast saman. Þegar er hafin vinna í sérkennsluteymi út frá hagsmunum og forsendum sameinaðs skóla.
Núna í janúar verður unnið að skipulagsbreytingum og gerð skipurits fyrir sameinaðan skóla. Þegar er búið að ganga frá breytingum varðandi yfirstjórn. Frá 1. janúar 2020 er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir ráðinn skólastjóri sameinaðs skólaog Alma Benjamínsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri.
Samhliða vinnu við skipulagsmál og skipuritsgerð núna í janúar, verður byrjað að skoða réttindamál, leyfisbréf og fyrirkomulag ráðninga til sameinaðs skóla. Verið er að vinna að sameiginlegri fjárhagsáætlun og hófst sú vinna s.l. haust, í tengslum við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélagsins.
Þá þarf að hugleiða hvort sameinaður skóli þurfi ekki nýtt nafn og verður nánar sagt frá því síðar.
Það er gjarnan svo, að góðar hugmyndir og áætlanir standa og falla með innleiðingunni. Það er því mikið í húfi að okkur takist að ná saman um þann ramma og þær áherslur sem nýr, sameinaður skóli mun vinna eftir. Allar ábendingar eru því vel þegnar því allar raddir þurfa að heyrast.