A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Samningum um hitaveitu hætt

| 19. nóvember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Hitaveita hefur lengi verið í umræðunni í Strandabyggð af augljósum og skiljanlegum ástæðum.  Það væru aukin lífsgæði ef við gætum fengið heitt vatn til húshitunar, í pottinn í garðinum og jafnvel til að bræða snjó í innkeyrslunni.  En þetta er ekki sjálfgefið.  Búið er að kanna nokkra kosti í Steingrímsfirði, en undanfarin ár hefur sveitarstjórn Strandabyggðar horft til samstarfs við landeigendur í Hveravík um kaup á heitu vatni þaðan. Umræðan hefur staðið lengi sem og undirbúningur af hálfu sveitarfélagsins og landeigenda.  Margar rannsóknir hafa verið unnar á svæðinu, á vatninu og þeim borholum sem til staðar eru.  Búið er að skoða og reikna fjárhagslegar forsendur þess að kaupa heitt vatn í Hveravík og leiða það til Hólmavíkur, bæði landleiðina og svo yfir fjörðinn með lögn í sjó.  Síðastliðin 1-2 ár hefur verið unnið að samningagerð við landeigendur, sem byggði á niðurstöðu álagsprófunar á þeirri holu sem horft er til í Hveravík.  Öll þessi vinna hefur skilað miklu magni af verðmætum og gagnlegum upplýsingum, bæði fyrir sveitarfélagið en einnig landeigendur, en líka kostað tíma og fjármuni.

 

Þrátt fyrir að hugur sveitarstjórnar hafi sannarlega staðið til þess að kanna til hlítar möguleika þess að setja upp hitaveitu, hafa forsendur í samfélaginu breyst til hins verra undanfarið, eins og allir vita.  Covid-19 hefur víðtæk áhrif og auk þess má nefna að líklegt er að kostnaður vegna hitaveituframkvæmda sé mun meiri nú en áætlað var í byrjun, vegna breytinga á gengi krónunnar.  Þá hefur Strandabyggð einnig orðið mjög illa úti vegna skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs, sem að jafnaði eru 45-50% af tekjum sveitarfélagsins.  Skerðingin á þessu ári er um 70 milljónir, sem setur rekstrarforsendur sveitarfélagsins augljóslega í uppnám.  Ekki er útlit fyrir að þessi skerðing gangi tilbaka fyrr en amk eftir 2023, samkvæmt upplýsingum frá Jöfnunarsjóði.

 

Samningaviðræður við landeigendur hafa tekið tíma, sem fyrr segir, en oftast gengið vel,  þó hafa þar alltaf verið vissar forsendur sem ekki hefur náðst full sátt um.  Þær forsendur snúast um verðlagningu á svokölluðu nýtingargjaldi, sem er það gjald sem landeigendur fá fyrir það vatn sem keypt er.  Þar ber einfaldlega talsvert í milli.  Við þessar aðstæður metur sveitarstjórn Strandabyggðar það svo, að óábyrgt sé og í raun ekki fjárhagslega gerlegt að halda áfram með málið og hefur því ákveðið að stöðva af sinni hálfu frekari samningaviðræður og undirbúning, amk þar til forsendur breytast. 

 

Samningsaðilar eru nú óbundnir frekari samningaumleitunum, nema þeir kjósi annað.

Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón