Skjalavarsla á Ströndum og Reykhólahreppi
Nú stendur yfir námskeið um skjalavörslu á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (ÞÍ) í Félagsheimilinu á Hólmavík fyrir sveitarfélög á Ströndum og Reykhólahreppi. Á námskeiðinu er meðal annars verið að fara yfir afhendingarskyldu á gögnum og frágang skjalasafna. Sveitarfélög og stofnunum þeirra ber skylda til að afhenda skjöl sín Þjóðskjalasafni Íslands ef þau eru ekki aðilar að héraðsskjalasafni. Aðeins 22 sveitarfélög á Íslandi eru ekki aðilar að héraðsskjalasöfnum og eru sveitarfélögin á Ströndum og Reykhólahreppur meðal þeirra.
Nýjar reglur hafa verið settar um frágang og skráningu pappírsskjala og gerð geymsluskrár fyrir skilaskylda aðila og er hægt að nálgast þær á www.skjalasafn.is. Sveitarfélagið Strandabyggð er að innleiða erindakerfið One Systems sem er liður í að efla skjalavörslu og utanumhald um erindi og mál sem tekin eru fyrir í sveitarfélaginu. Mikil vinna er framundan við skráningu gagna.
Eftirfarandi aðilar eru einnig skyldir að afhenda skjöl sín til Þjóðskjalasafns skv. 5. gr. laga um ÞÍ: ,,Embætti forseta Íslands, Alþingi, Hæstiréttur, Stjórnarráðið og þær stofnanir sem undir það heyra, svo og aðrar stofnanir ríkisins, fyrirtæki í eigu ríkisins, félagasamtök sem fá meirihluta rekstrarfjár síns með framlagi á fjárlögum og félög sem njóta verulega styrks af opinberu fé". Þjóðskjalasafni Íslands er einnig heimilt að taka við gögnum annarra en afhendingarskyldra aðila.