Spurningar og svör - sveitarstjórn Strandabyggðar
Hér eru svör við spurningum frá íbúum sem hafa borist síðustu vikur, eftir að sveitarstjórn opnaði aftur fyrir spurningagátt á vefnum þar sem hægt væri væri að spyrja hana um margvísleg mál sem brenna á íbúum. Í kynningu kom fram að svörin og spurningarnar yrðu svo aðgengilegar áhugasömum hér á vef Strandabyggðar. Aðeins bárust þrjár fyrirspurnir að þessu sinni og eru spurningarnar og svör sveitarstjórnar birt hér að neðan.
Fyrirspurn 1.
Hverju svarar sveitarstjórn þeim ásökunum um spillingu og misferli sem Þorgeir Pálsson fyrrverandi sveitarstjóri ber á hana í viðtalinu við Stundina?
Svar sveitarstjórnar:
Strax eftir að fyrrverandi sveitarstjóra var sagt upp störfum skrifaði hann pistil sem birtur var á Strandir.is, þar sem hann ásakaði sveitarstjórnina um að hafa tekið ákvarðanir sem stangist á við “sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar“. Í sama pistli ýjar hann að “hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna, óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns eða eigna sveitarfélagsins”. Engir sérstök dæmi um slíkt voru þó nefnd í pistlinum.
Sveitarstjórn Strandabyggðar var ekki langorð um þessar ásakanir Þorgeirs en hafnaði þeim samt eindregið: „Sveitarstjórn hafnar því alfarið að hafa brotið sveitarstjórnarlög, samþykktir og siðareglur Strandabyggðar eins og ýjað er að í yfirlýsingu frá fyrrum sveitarstjóra.“
Fyrrverandi sveitarstjóri er síðan enn við sama heygarðshornið í viðtalinu sem birtist við hann í Stundinni, nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en gengur þó lengra en áður. Hann segist hafa verið “rekinn hér sem sveitarstjóri vegna þess að ég gagnrýndi sérhagsmunagæslu sveitarstjórnarinnar” og að gagnrýni sín hafi snúist um: „Alls kyns styrkúthlutanir til safna og fyrirtækja sem tengjast sveitarstjórnarfulltrúunum. Líka meðhöndlun eigna og ákvörðun um að gefa þær einstaklingum sem tengjast fulltrúum í sveitarstjórn beint.” Einnig endurtekur Þorgeir fyrri fullyrðingu um að sveitarstjórnarlögum, samþykktum og siðareglum hafi ekki verið fylgt, en nefnir engin sérstök dæmi um slíkt frekar en áður.
Sveitarstjórnin hafnar alfarið þessari söguskýringu sveitarstjórans fyrrverandi, enda var ástæða uppsagnarinnar fyrst og fremst langvarandi samstarfsörðugleikar. Annað eru eftiráskýringar. Jafnframt harmar sveitarstjórn dylgjur Þorgeirs um söfn og fyrirtæki í sveitarfélaginu og fullyrðir jafnframt að enginn fótur er fyrir ásökunum um gjafir á eignum til einstaklinga.
Fyrirspurn 2.
Hver er staðan varðandi útgáfu Byggðasögu Stranda?
Svar sveitarstjórnar:
Ekkert hefur verið unnið í þessu verkefni á kjörtímabilinu, en gögnin eru varðveitt hjá sveitarfélaginu. Gaman væri að ljúka þessu verkefni með myndarlegum hætti, þegar aðstæður leyfa.
Forsaga málsins er að árið 2014 keyptu sveitarfélögin á Ströndum gögn og vinnu við byggðasögu Strandasýslu, sem upphaflega var unnið að á vegum Sögunefndar Búnaðarsambands Strandamanna. Búnaðarsambandið var ekki lengur starfandi á þessum tíma og taldi sig af þeim sökum ekki í stakk búið til að ljúka verkinu. Hlutur Strandabyggðar í kaupunum var að upphæð kr. 8.020.800.- og var ákvörðun tekin um málið á sveitarstjórnarfundi 15. apríl 2014.
Kaupin voru ákveðin með það í huga að ljúka verkinu og gefa bókina út. Á kjörtímabilinu á eftir var leitað til bókaútgáfunnar Opnu um að ljúka við útgáfuverkefnið, en Sigurður Svavarsson eigandi fyrirtækisins og framkvæmdastjóri sem tók verkefnið að sér lést því miður árið 2018, langt fyrir aldur fram. Síðan þá hefur útgáfa Byggðasögu Stranda verið í biðstöðu.
Fyrirspurn 3.
Hefur verið sótt um leyfi til nýbyggingar á íbúðarhúsnæði á þessu ári? Og einnig, eru einhver áform um nýbyggingar á iðnaðarhúsnæði á vegum sveitarfélagsins á þessu ári?
Svör sveitarstjórnar:
Ekki hefur verið sótt um leyfi til nýbyggingar á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á þessu ári. Sótt var um leyfi fyrir nýreist íbúðarhús á Hólmavík á síðasta ári.
Sveitarfélagið hefur engin áform um nýbyggingu á iðnaðarhúsnæði á vegum sveitarfélagsins á þessu ári og ekki er gert ráð fyrir neinum slíkum framkvæmdum í fjárhagsáætlun 2022.