Strandabyggð gerir samning við Umf. Geisla
| 28. febrúar 2012
Sveitarfélagið Strandabyggð hefur undanfarin misseri gert styrktarsamninga við félög og samtök í sveitarfélaginu. Á dögunum var skrifað undir samning við Ungmennafélagið Geislann á Hólmavík, en félagið hefur staðið fyrir öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi á starfssvæði sínu í marga áratugi með ræktun lýðs og lands að leiðarljósi. Félagið hefur á sínum snærum öfluga þjálfara og stendur fyrir æfingum í hinum ýmsu íþróttagreinum allt árið. Samningurinn milli Geislans og Strandabyggðar er til þriggja næstu ára og þar er kveðið á um rekstrarframlag til félagsins auk endurgjaldslausra afnota af húsnæði og íþróttavöllum í eigu sveitarfélagsins. Þá mun Umf. Geislinn taka að sér skipulagningu og framkvæmd á hátíðahöldöm á 17. júní út samningstímabilið, en því hlutverki hefur félagið einmitt sinnt undanfarin ár.
Undir samninginn skrifuðu Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Jóhann Áskell Gunnarsson úr stjórn Umf. Geislans. Einnig var Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi viðstaddur, en hann sá um samningsgerðina fyrir hönd sveitarfélagsins.