Strandakrakkar gera það gott í Vasa-göngunni
| 28. febrúar 2012
Ungir skíðamenn úr Strandabyggð gerðu það aldeilis gott í Svíþjóð nú fyrr í vikunni, en þar er staddur dágóður hópur úr Skíðafélagi Strandamanna sem hyggur á margvíslegar Vasa-skíðagöngur í þessari viku. Þau Númi Leó Rósmundsson, Branddís Ösp Ragnarsdóttir og Stefán Snær Ragnarsson kepptu í UngdomsVasa síðasta sunnudag og stóðu sig öll frábærlega. Branddís og Númi kepptu í flokki 13-14 ára, en sá aldurshópur gengur 7 km. Branddís endaði í 24. sæti af 73 keppendum í flokki stúlkna, en Númi lenti í 18. sæti af 82 keppendum í sínum flokki. Stefán Snær keppti í flokki 11-12 ára og lauk keppni í 89. sæti af 170 keppendum.
Þess má geta að krakkarnir af Ströndum voru einu íslensku keppendurnir í UngdomsVasa. Á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna kemur fram að þau hafi öll verið mjög ánægð með daginn, veðrið hafi leikið við þau og göngufæri hafi verið afar gott. Sveitarfélagið Strandabyggð sendir krökkunum og öðrum keppendum í Vasagöngunni góða strauma og hamingjuóskir.