Strandamenn og Húnvetningar funda um Byggðasafnið á Reykjum
| 04. mars 2011
Dr. Lára Magnúsardóttir forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu safnsins og svæðisins í kring. Hún hefur ásamt Sigríði Hjaltadóttur stjórnarmanni og starfandi safnstjóra farið yfir rekstrarmöguleika og framtíðarsýn safnsins. Ljóst er að þörf er á viðhaldi á húsnæði byggðasafnsins, aukna þjónustu fyrir gesti og öfluga markaðssetningu.
Fundurinn var haldinn að frumkvæði Héraðsnefndar Strandasýslu sem um þessar mundir fer yfir framtíð nefndarinnar og þau verkefni sem heyra undir hana. Meðal annarra verkefna má nefna Héraðsbókasafn Strandasýslu, barnaverndarnefnd, almannavarnarnefnd auk hópa og styrktarsjóða. Matthías Lýðsson bóndi og frumkvöðull í Húsavík er fulltrúi Héraðsnefndar Strandasýslu í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum.