| 13. mars 2012
F.v. Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúi sem vann að samningagerðinni, Kristín Sigurrós Einarsdóttir, formaður Leikfélags Hólmavíkur og Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð.
Á dögunum var skrifað undir styrktarsamning milli sveitarfélagsins Strandabyggðar og Leikfélags Hólmavíkur, en slíkir samningar hafa verið gerðir við nokkur félög og samtök í sveitarfélaginu undanfarnar vikur. Samningurinn kveður á um árlegt fjárframlag sveitarfélagsins til leikfélagsins sem hefur verið mjög öflugt undanfarin ár og lagt æ ríkari áherslu á starf fyrir yngri kynslóðina ásamt því að setja upp stór leikrit á hverju ári. Þá hefur félagið einnig átt í góðu samstarfi við Grunnskólann á Hólmavík um uppfærslur á söngleikjum með þátttöku ungra leikara. Einnig fjallar samningurinn um afnot félagsins af aðstöðu í kjallara félagsheimilisins á Hólmavík og framlag félagsins til uppbyggingar á búnaði og aðstöðu í félagsheimilinu.
Undir samninginn skrifuðu Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar og Kristín Sigurrós Einarsdóttir, formaður Leikfélags Hólmavíkur. Einnig var Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi viðstaddur, en hann sá um samningsgerðina fyrir hönd sveitarfélagsins.