Svar við bókun á sveitarstjórnarfundi 1360
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Á síðasta sveitarstjórnarfundi veittist Matthías Sævar Lýðsson harkalega að oddvita og meirihluta sveitarstjórnar. Lagði hann fram bókun í nafni A lista og síðan aðra bókun í eigin nafni. Umræðu og bókanir um þennan lið í dagskránni má lesa í fundargerð fundarins, sem nú er á heimasíðu sveitarfélagsins: http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/sveitastjorn/Sveitarstjornarfundur_nr_1360_9_april_2024/
Tildrög þessarar umræðu eru þau að á vinnufundi sveitarstjórnar í febrúar, þar sem umræða um úthlutun byggðakvótans fór fram, lýstu Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir því skýrt yfir, að þau væru vanhæf til að koma að gerð umsagnar sveitarstjórnar um úthlutun kvótans, vegna persónulegra tengsla við umsækjendur sem tengjast Vissu útgerð ehf og eignatengsla Matthíasar í Fiskvinnslunni Drangi ehf á Drangsnesi. Í því ljósi, boðaði ég varamenn þeirra á aukafund sveitarstjórnar, þar sem sveitarstjórn skyldi veita umsögn við ákvörðun Byggðastofnunar um úthlutun á 500 tonna sértækum byggðakvóta. Var haft samráð við lögfræðing sveitarfélagsins um þessa fundarboðun. Matthías Sævar Lýðsson, sem þó hafði rækilega lýst sig vanhæfan, bregst illa við, sendir inn kvörtun til innviðaráðuneytisns og leggur fram ábendingu um meinta ólöglega stjórnsýslu. Ráðuneytið bregst hratt við, skrifar til oddvita og veitir 24 tíma frest til að útskýra lagalegar forsendur fundarboðunarinnar. Oddviti frestaði umræddum aukafundi, sendi ráðuneytinu greinargerð og boðaði nýjan fund, þar sem aðal- og varamenn í sveitarstjórn fá allir fundarboð og fundargögn. Þar með var Matthías Sævar Lýðsson, sem rækilega hafði undirstrikað vanhæfi sitt, vegna tengsla við tvo af þremur umsækjendum, kominn með ákvörðun Byggðastofnunar í hendur. Ráðuneytið telur, að réttur kjörinna fulltrúa til aðgengis að fundargögnum, vegi þarna meira en augljóst vanhæfi þeirra til að fjalla um málið. Um þetta má sjáfsagt deila. Fulltrúar A lista, véku síðan báðir af fundi og inn kom einn varamaður A lista.
Ráðuneytið svarar síðan greinargerð oddvita og er ljóst að innviðaráðuneytið setur út á stjórnsýslu oddvita hvað boðun sveitarstjórnarfundar nr. 1359 varðar. En, jafnframt er ljóst að ráðuneytið sér ekki ástæðu til að skoða neitt frekar stjórnsýslu sveitarfélagsins vegna þessa, þar sem nýr fundur hafi verið boðaður. Síðan vill ráðuneytið þó vita, af hverju fundurinn hafi verið boðaður sem lokaður fundur. Það hefur verið gert áður í sveitarstjórn Strandabyggðar, að þar sem aðeins eitt mál er á dagskrá fundar og það mál er trúnaðarmál, er fundurinn auglýstur sem lokaður. Á umræddum fundi, bókaði sveitarstjórn síðan að fundurinn væri lokaður, eins og lög gera ráð fyrir. Verður ráðuneytinu svarað formlega hvað þetta varðar.
Þetta eru í raun tildrög þessa máls. Vegna umræðu í samfélaginu er síðan rétt að undirstrika, að Strandabandalagið hefur ávallt óskað Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum til hamingju með kvótann, og hefur oddviti með skrifum sínum á heimasíðu sveitarfélagsins, að auki hvatt til samstöðu og stuðnings þeim til handa, þannig að þau nái að veiða og vinna þennan kvóta. Enginn vill að þetta mistakist, amk ekki innan Strandabandalagsins.
Það, að Strandabandalagið hafi bókað vonbrigði með að ekki hafi náðst saman með heimamönnum og Stakkavík, er alls ekki það sama og að Strandabandalagið sé ósátt við að Vissa útgerð ehf og samstarfsaðilar hafi fengið kvótann. Þeir sem halda slíku fram, hafa annað hvort ekki lesið bókun Strandabandalagsins og pistil oddvita, eða kosið að snúa þar út úr og skrumskæla sannleikann.
Og þá að bókun Matthíasar. Á síðasta sveitarstjórnarfundi lagði Matthías sem sagt fram bókun og kallaði eftir svari mínu við henni. Við þeirri ósk mun ég ekki verða. Nú er komið nóg af deilum og ósætti úr fortíðinni og Matthías og A listinn og þeirra bakland, verða einfaldlega að lifa við það að þessi dans er á enda. Það hefur allt of mikil orka, tími og fjármagn íbúa Strandabyggðar, farið í þessar deilur. Nú, bráðum tveimur árum eftir kosningar, er mál að linni. Þetta hefur tekið sinn toll af mörgum, andlegan og líkamlegan, skaðað ímynd okkar og lífsgleði og ég segi stopp hér og nú.
Ég vil frekar nýta minn tíma í uppbyggilega umræðu, t.d. með Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum um það, hvernig fiskvinnsla muni rísa á Hólmavík, hvað mörg störf hún muni skapa, skoða aukin umsvif hafnarinnar í kjölfarið o.s.frv. Ég vil einnig nýta minn tíma í umræður og samskipti um það hvernig við getum eflt annað atvinnulíf, rætt það t.d. hversu mikil margfeldisáhrif nýtt hótel á Hólmavík muni hafa o.s.frv. Ég vil ræða uppbyggingu grunnskólans, nýja skólastefnu, eflingu dreifnáms og markmiðasetningu í okkar kennsluháttum. Við getum rætt um nýsköpun í menningu, ferðaþjónustu, almennum iðnaði. Við getum rætt um þau miklu tækifæri sem felast í eflingu Sorpsamlags Strandasýslu. Við þurfum að ræða það hvernig getum við haldið í og tryggt viðunandi heilbrigðisþjónustu, samgönguúrbætur, fjarskiptamál og við þurfum að ræða þau tækifæri sem Strandabyggð hefur í orkuframleiðlsu, ofl ofl.
Við vorum kosin til þess að sinna þessum verkefnum, skapa ný tækifæri og efla Strandabyggð. Og það er sú vinna sem við eigum að einblína á og verja okkar tíma, orku og fjármunum í.
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti