Umsókn um útvíkkun og stækkun á eldisleyfi í Ísafjarðardjúpi
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., í Hnífsdal hefur staðið að uppbyggingu fiskeldis á starfssvæði sínu í Ísafjarðardjúpi allt frá árinu 2002. Í dag er fyrirtækið með sjókvíaeldi í Álftafirði og Seyðisfirði og eina tilraunakví í Skötufirði ásamt seiðaeldisstöð á Nauteyri í Ísafirði. Í Súðavík er miðstöð sjókvíaeldisstarfseminnar með sláturhúsi, fóðurgeymslu og þjónustuaðstöðu á hafnarsvæðinu. Þar er einnig heimahöfn þjónustubáta starfseminnar sem eru sérhæfðir fyrir flutning á lifandi fiski, fóðrun og veiða til áframeldis á þorski. Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri HG segir að áætlanir um þorskeldi, bæði hér og í Noregi, hafi ekki gengið eftir eins hratt eins áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Við höfum því sótt um leyfi til Skipulagsstofnunar um útvíkkun á 2.000 tonna þorskeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi til framleiðslu á laxi og regnbogasilungi til viðbótar við þorskeldið. Samkvæmt umsókninni er óskað eftir leyfi til eldis á samtals 7.000 tonnum af fiski. Laxeldi hefur gengið vel í nágrannalöndunum og verið arðsamt. Sjókvíaeldi á þorski og laxfiskum er í grundvallaratriðum eins, aðstæður til eldisins með hlýnandi veðurfari undanfarna tvo áratugi hafa einnig styrkt það eldisform," segir Einar Valur.
Einar Valur segir að HG hafi í áratug lagt ríka áherslu á að byggja upp þekkingu og reynslu meðal starfsfólks fyrirtækisins í fiskeldi, sem og þekkingu á umhverfi Ísafjarðardjúps með fiskeldi í huga. „Markmiðið er að byggja upp fiskeldi sem getur tryggt örugg störf til framtíðar í sátt við náttúruna og með virðingu fyrir henni."
Vestfirðir er eitt af þremur svæðum við Íslandi þar sem stunda má laxeldi, ásamt Austfjörðum og Eyjafirði. Einar Valur segir að einörð stefna fyrirtækisins sé að fara varlega í uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi, áfram verði lögð rík áhersla á rannsóknir til að fyrirbyggja hugsanlega röskun umhverfisins. Uppbygging væntanlegs fiskeldis verði unnin í sátt við aðra atvinnustarfsemi á svæðinu.
„Stefna HG við uppbyggingu fiskeldis á starfssvæði sínu við Ísafjarðardjúp er að unnið skuli í samræmi við sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun í okkar huga stendur á þremur stoðum; hagrænum, félagslegum og umhverfislegum." Verði umsókn HG samþykkt er ljóst að ný störf skapast á Vestfjörðum.
„Oft reikna menn með að um 15 bein störf skapist við hver 1000 tonn sem framleidd eru og á þá eftir að telja afleidd störf því til viðbótar. Því gæti veruleg aukning í fiskeldi á svæðinu fljótt skapað tugi nýrra starfa eins og reyndin virðist ætla að verða á suðurfjörðum Vestfjarða. Okkar eigin reynsla af þorskeldi staðfestir einnig þessa sýn um atvinnusköpun," segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG.
Frétt af www.bb.is