Upplýsingar til íbúa Strandabyggðar vegna stöðu atvinnumála
„Skammt er stórra högga á milli“ segir máltækið og á það vel við í Strandabyggð um þessar mundir. Skemmst er frá því að segja að embætti sýslumanns á Hólmavík verður lagt niður nú um áramót og við tekur nýtt embætti sýslumanns Vestfjarða. Arionbanki lokaði útibúi bankans á Hólmavík þann 5. nóvember síðastliðinn eftir yfir 30 ára starfsemi á Hólmavík. Blikur eru á lofti í smábátaútgerð þar sem gríðarlegar skerðingar hafa orðið í almennum aflaheimildum og línuívilnun í ýsu, byggðakvóti hefur verið skertur stórlega milli ára og sett hafa verið á sérstök veiðgjöld og önnur hækkuð. Lítill sem enginn ýsukvóti er fáanlegur á sama tíma og stærsti hluti afla úr sjó er ýsa. Þetta hefur gert það að verkum að útgerðir draga saman seglin og hafa gripið til uppsagna.
Sveitarstjórn hefur brugðist við aðstæðum með ýmsum hætti, má þar nefna að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur verið fengið til að gera stöðugreiningu eða samantekt um stöðu smábátaútgerðar í Strandabyggð. Sveitarstjórn heftur ályktað um öll málefnin, upplýst ráðherra og þingmenn um stöðuna, upplýst Byggðastofnun um stöðu mála og sóst eftir aðstoð þaðan, fundað með sjávarútvegsráðherra og setið fyrir svörum hjá Atvinnuveganefnd Alþingis. Allsstaðar hefur á okkur verið hlustað og okkur sýndur skilningur. Atvinnuveganefnd mun taka mál Strandabyggðar upp við ráðherra sem ætlar að fylgja málum eftir inn í Byggðastofnun, en stofnunin hyggst taka málefni Strandabyggðar fyrir á fundi þann 21. nóvember.
Framundan er að fylgja málum eftir og leita lausna í stöðunni auk þess að finna og vinna að nýjum tækifærum fyrir atvinnulíf á Ströndum í bráð og lengd.