Útför Sverris Guðbrandssonar heiðursborgara Strandabyggðar fer fram í dag
Sverrir Guðbrandsson heiðursborgari Strandabyggðar lést sunnudaginn 22. júlí 2012. Útför hans fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag kl. 11:00.
Sverrir var valinn heiðursborgari Strandabyggðar á hátíðarfundi sveitarstjórnar sem haldinn var á Klifstúni föstudaginn 1. júlí 2011 ásamt Ólafíu Jónsdóttur. Veittu þau viðurkenningu þess efnis móttöku við hátíðlega setningarathöfn Hamingjudaga 2011. Í umsögn um Sverri kom eftirfarandi fram:
Sverrir Guðbrandsson fæddist árið 1921 á Heydalsá í Steingrímsfirði á Ströndum og ólst þar upp. Hann var síðan bóndi á Klúku í Miðdal í 25 ár, en flutti þá með fjölskyldu sinni til Hólmavíkur. Þar starfaði Sverrir lengi sem pakkhúsmaður hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Sverrir og Sigurrós Þórðardóttir kona hans áttu sjö börn og fjölda afkomenda. Á fullorðinsárum ritaði Sverrir æfiminningar sínar og komu þær út í bókinni Ekkert að frétta... sem Vestfirska forlagið gaf út árið 2004. Bókin er sannkallaður gullmoli, jafnt fyrir afkomendur Sverris og aðra Strandamenn. Hún einkennist af persónulegri frásögn og hlýju. Gamansemi fær að njóta sín um leið og brugðið er upp ómetanlegum svipmyndum af mannlífi á Ströndum á 20. öldinni.
Strandabyggð kveður Sverri Guðbrandsson með hlýju þakklæti og virðingu og sendir fjölskyldu og vinum samúðarkveðjur.