Vegna Covid-19 - almennt yfirlit
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Við þær aðstæður sem uppi eru, er mikið magn upplýsinga á ferð og flugi um samfélagið. Það er því tilefni til að draga saman það helsta og gefa almennt yfirlit yfir stöðu mála. Við munum gera það eins oft og við teljum þörf á.
Grunn-, leik- og tónskóli
Nú er unnið samkvæmt áætlun frá skólastjóra og starfsfólki skólanna og eiga foreldrar að hafa fengið ítarlegar upplýsingar um það fyrirkomulag sem er í gangi. Skólahald er verulega breytt og mikilvægt að foreldrar og forráðamenn vinni með skólayfirvöldum að því að gera skóladaginn innihaldsríkan og uppbyggilegan þrátt fyrir takmarkaða skólasókn. Heimalærdómur, fjarkennsla og eigin hugmyndaauðgi kemur nú til og fyllir í það bil sem myndast við skerta skólasókn.
Íþrótta- og tómstundastarf
Skert skólahald og þær nýju áherslur sem nú gilda, hafa bein áhrif á íþrótta- og tómstundastarf. Öll íþrótta- og sundkennsla liggur því niðri, sem og starfsemi Geislans. Forsvarsmenn Geislans munu tilkynna um breytingar á þeirra áætlun þegar þess gerist þörf. Frístundastarf liggur niðri, Ozon er því lokað þennan tíma. Starfsemi eldri borgara liggur einnig niðri.
Aðgengi að stofnunum sveitarfélagsins
Almennt ætti að gilda sú regla, að ef íbúar eiga erindi við starfsmenn sveitarfélagsins, er rétt að hringja á undan sér og fá tíma fyrir fund, eða símtal. Stofnanir sveitarfélagsins eru sem stendur ekki opnar fyrir almennar heimsóknir.
Skrifstofa Strandabyggðar er alfarið lokuð en símsvörun er frá kl 10 til 14, líkt og verið hefur. Starfsmenn á skrifstofu skiptast á um að vinna heima og takmarka þannig viðveru allra í húsinu á sama tíma.
Íþróttamiðstöðin er opin, en líkt og tilkynnt hefur verið á heimasíðu íþróttamiðstöðvarinnar, eru búningsskápar lokaðir og strangari reglur gilda um hreinlæti, bil á milli einstaklinga og almenna umgengni.
Áhaldahúsið er almennt ekki opið þessa dagana, nema viðkomandi hafi boðað komu sína. Starfsmenn Áhaldahúss skiptast á viðveru til að takmarka návígi.
Allt eru þetta aðgerðir til að lágmarka viðveru og návígi margra á sama tíma á sama stað.
Höfum í huga að þetta er tímabundið ástand. Við tökum þetta ástand hins vegar alvarlega og það er margt sem við getum gert sjálf til að draga úr áhættu á smiti. Það er líka margt sem við getum gert til að styðja við hvert annað. Sumir eiga erfitt með að fara í búð, aðrir eru einmana og jafnvel óttaslegnir. Börn og unglingar spyrja margra spurninga um ástandið og við þurfum að hlusta og svara eftir bestu getu. Umfram allt gildir að vera jákvæð og róleg og styðja við hvert annað. Þetta líður hjá.
Að lokum eru hér nokkrar ganglegar heimasíður fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur.
https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19
http://www.strandabyggd.is/grunnskolinn/
http://www.strandabyggd.is/leikskolinn/
https://www.facebook.com/Jakobinutuni/