A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Verkefnið Brothættar byggðir í Strandabyggð

| 22. apríl 2020


Verkefnið Brothættar byggðir í Strandabyggð er komið af stað og búið að skipa verkefnastjórn fyrir það. Í henni eru Eva Pandora Baldursdóttir og Kristján Þ. Halldórsson fyrir hönd Byggðastofnunar og Lína Björg Tryggvadóttir og Aðalsteinn Óskarsson fyrir hönd Vestfjarðastofu. Frá Strandabyggð eru Angantýr Ernir Guðmundsson og Esther Ösp Valdimarsdóttir fulltrúar íbúa og Jón Jónsson situr í stjórninni fyrir hönd sveitarstjórnar. Unnið er að ráðningu verkefnastjóra sem verður starfsmaður Vestfjarðastofu og ættu þau mál að skýrast á næstunni.

 

Nú eru sjö byggðalög þátttakendur í Brothættum byggðum, en fræðast má betur um verkefnið á vef Byggðastofnunar. Á Vestfjörðum eru tvö verkefni í gangi, verkefnið í Árneshreppi, Áfram Árneshreppur og verkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar á Þingeyri, auk Strandabyggðar sem bættist í hópinn um síðustu áramót. Í upphafi þessara verkefna er jafnan haldið veglegt íbúaþing sem leggur línurnar um áherslur og framkvæmdir innan vébanda verkefnisins. Þingið markar upphaf að samtali við íbúa og byggir stefnumótun verkefnisins að stórum hluta á skilaboðum íbúaþingsins.

 

Nú eru vissulega erfiðir tímar fyrir slíkar samkomur, en verkefnastjórn hefur þó tekið stefnuna á að bjóða íbúum og öðrum hagsmunaaðilum samfélagsins Strandabyggðar til íbúaþings helgina 13.-14. júní. Þetta byggist að sjálfsögðu á því að slík samkoma verði þá möguleg og í takt við leiðbeiningar og tilmæli heilbrigðisyfirvalda um samkomutakmarkanir og varúðarráðstafanir. Það væri ánægjulegt að sem flestir íbúar sæju sér fært að taka þátt, þegar íbúaþingið verður, en það verður auglýst betur er nær dregur og mál skýrast.

 

Í framhaldi af íbúaþingi verða auglýstir verkefnastyrkir sem standa fólki og félögum, fyrirtækjum og stofnunum í Strandabyggð til boða innan vébanda verkefnisins. Hvert byggðarlag hefur u.þ.b. 5 milljónir í slíka styrki árlega, en þetta árið verður meira til ráðstöfunar. Viðbótarframlag að upphæð 8,5 millj. kemur í hverja byggð í tengslum við sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í brothættum byggðum vegna atvinnuástands í skugga veirufaraldurs. Markmið fjárfestingarátaksins er að styðja við atvinnuskapandi frumkvæðisverkefni íbúa. Verkefnin þurfa að hefjast fyrir 1. september 2020 og vera lokið fyrir 1. apríl 2021. Þessu til viðbótar verða 40 milljónir lagðar í samkeppnissjóð sem verður sameiginlegur fyrir öll byggðarlögin. Allt þetta verður kynnt betur síðar, en það er full ástæða fyrir íbúa Strandabyggðar til að kafa í hugmyndabankann og vinna í áætlunum og plönum um verkefni sem snúast um nýsköpun og uppbyggingu, framkvæmdir og fjárfestingar.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón