Vikan að baki
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Síðastliðin vika einkenndist af vinnu við fjárhagsáætlanagerð. Sveitarstjórn sat nokkra fundi í vikunni, og var byrjað á fundi með Haraldi Líndal Haraldssyni ráðgjafa, sem fór yfir mikilvægi fjárhagslegrar markmiðasetningar. Þetta var í senn fræðandi og hvetjandi fundur fyrir okkur í sveitarstjórn og mun efni hans nýtast okkar við á næstu dögum og vikum.
Ferlið við fjárhagsáætlanagerðina er þannig að sveitarstjórn heldur nokkra vinnufundi ásamt skrifstofustjóra, þar sem áherslur næsta árs hvað verkefni og fjárfestingar varðar, eru ræddar og ákveðnar. Til hliðsjónar í þessari vinnu styðst sveitarstjórn við upplýsingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem helstu breytur í íslensku efnahagslífi eru tilteknar. Einnig erum við með áætlanir forstöðumanna þar sem tillögur að verkefnum/fjárfestingum innan þeirra deilda eru lagðar fram. Síðan tínum við til ýmis önnur gögn og auðvitað fjárhagsáætlun síðasta árs.
Sveitarstjórn fundar síðan með forstöðumönnum og heimsækir gjarnan viðkomandi vinnustaði. Við áttum t.d. fund í vikunni í áhaldahúsinu o.s.frv. Þetta er í grunninn skemmtileg vinna þó svo staða okkar sé þannig, eins og flestir ættu að vita, að við verðum að forgangsraða mjög ákveðið okkar fjármagni. Á þessu ári og síðan í nóvember í fyrra, hefur megináherslan eðlilega verið endurgerð grunnskólans.
Fjárhagsáætlun næsta árs og næstu þriggja ára þar á eftir, fer síðan í fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi í nóvember og síðari umræða er í desember.
Grunnskólinn
Vinnu við grunnskólann miðar vel. Nú er verið að setja upp nýja glugga og hurðir í yngri hlutann. Á myndinni sem fylgir þessum pistli, sést þvílík breyting verður á þeirri hlið skólans sem snýr upp í Borgirnar. Þarna verða kennarar með sitt vinnurými og voru því allir gluggar á þessum vegg síkkaðir, til að skapa meiri birtu og betra vinnuumhverfi. Þetta kemur sérlega vel út að okkar mati. Stefnt er að því að þessum verkætti ljúki um eða upp úr mánaðarmótun. Þá tekur við málun og frágangur á lofti og gólfum.
Starfsmannamál
Í vikunni voru tekin starfsmannaviðtöl vegna tveggja starfa sem vð auglýstum í gegnum Hagvang. Ekki hefur gengið að manna nokkrar stöður hjá sveitarfélaginu á undanförnum vikum og er það miður og gerir auðvitað meiri kröfur til þeirra starfsmanna sem fyrir eru, t.d. á leikskólanum. Við sjáum þó fram á lausn þar að hluta til, sem nánar verður sagt frá síðar.
Skortur á starfsfólki gerir það að verkum að erfiðara verður að halda uppi því þjónustustigi sem við erum vön. Og á endanum er það þannig, að þjónustu sem ekki er hægt að manna, er heldur ekki hægt að bjóða. En við höldum áfram að leita og reyna að leysa vandann. Mannfæðin kemur oft í bakið á okkur, þó svo fámennið hafi líka sína kosti.
Mörg önnur spennandi mál og verkefni eru á okkar borðum þessa dagana og má þar nefna; réttarsmíði í Kollafirði, sem kemur til framkvæmda á næsta ári, en fyrst munum við kalla eftir tillögum bænda hvað varðar stærð, fyrirkomulag og staðsetningu réttarinnar. Eins erum við í viðræðum við ISAVIA um uppsetningu jarðstöðvar við flugvöllinn, við erum að undirbúa íbúafund vegna breytinga á sorphirðu og starfsemi Sorpsamlagsins, samskipti við matvælaráðuneytið varðandi frumvarp um stefnumótun í lagareldi (fiskeldi), framundan eru fundir sveitarstjóra með heilbrgðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra um m.a. mögulegan þjónustukjarna fyrir aldraða á Hólmavík ofl ofl.
Áfram Strandabyggð!
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti.