Vikan að baki
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Þjónustukjarni fyrir aldraða
Í síðustu viku átti ég fund með fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis vegna hugmynda um þjónustukjarna fyrir eldri borgara á Hólmavík. Áður hafði ég hitt heilbrigðisráðherra vegna þessa máls. Hugmyndinni er vel tekið og er okkur bent á að þróa hana áfram og leita eftir upplýsingum og stuðningi í tengslum við verkefnið „Gott að eldast“ sem er í gangi. Hér má sjá nánari upplýsingar um það verkefni.
https://www.stjornarradid.is/verkefni/lif-og-heilsa/oldrunarmal/gott-ad-eldast/
Hér á Hólmavík er sterkur grunnur hvað alla grunnþjónustu og afþreyingu varðar, sem styður við svona verkefni. Hér er góð heilsugæsla og heilbrigðisstofnun, góð íþróttamiðstöð og sundlaug og fjöldi gönguleiða. Eins er hér öll önnur grunnþjónusta, verslun, afþreying o.s.frv. Og ofan á allt, er hér frábær hópur eldri borgara sem er mjög virkur og skapandi. Allt þetta styður við verkefnið. Við munum þróa það áfram og er gert ráð fyrir þessum þjónustukjarnan í endurgerðu aðalskipulagi.
Innviðaráðuneytið
Ekkert ráðuneyti skiptir okkur meira máli en innviðaráðuneytið, að öllum öðrum ráðuneytum ólöstuðum. Við eigum mikil samskipti við innviðaráðuneytið, vegna Jöfnunarsjóðs, en framlög sjóðsins hafa verið um 40% af tekjum sveitarfélagsins undanfarin ár. Eins eigum við mikil samskipti við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, sem kemur að samningi milli innviðaráðherra og Strandabyggðar frá 2020, vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Í liðinni viku átti ég fund með fultrúum yfirstjórnar ráðuneytisins, Jöfnunarsjóðs og Eftirlitsnefndarinnar og var þar rætt um ósk sveitarstjórnar um áframhald samningsins. Verður lögð fram formleg ósk þess efnis og stefnt er að fundi með Eftirlitsnefndinni um miðjan desember.
Gott samband hefur skapast við ráðuneytið og starfsmenn þeirra og leggjum við áherslu á að svo verði áfram.
Önnur verkefni
Fulltrúar Vestfjarðastofu heimsóttu okkur og var umræðuefnið m.a. úrgangsmál, auk þess sem þau deildu upplýsingum um stöðu Earth Check, loftslagsmála og Evrópuverkefnisins RECET (orkuskiptaverkefni). Það er alltaf gott að fá heimsóknir og sjá andlitin sem maður ræðir við í síma. Þetta var góður og upplýsandi fundur.
Þá var ég í sambandi við UNICEF, vegna verkefnisins „Barnvænt sveitarfélag“ en Strandabyggð er þar þátttakandi. Á næstunni munum við koma því verkefni í farveg, skipa stýrihóp og hefja innleiðingu. Hér má finna nánari upplýsingar um verkefnið. https://barnvaensveitarfelog.is/
Til viðbótar þessu eru samskipti við verktaka í grunnskólanum, starfsmenn sveitarfélagsins og samstarfsaðila hjá öðrum sveitarfélögum, auk vinnu við undirbúning seinni umræðu um fjárhagsáætlun 2024-2027.
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti