Vikan að baki
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Þetta er fjórði pistillinn með þessu heiti; „vikan að baki“; þar sem ég dreg fram nokkur af þeim fjölmörgu málum sem einkenna dagana hjá starfsmönnum sveitarfélagsins. Það er von mín að þessir pistlar gefi innsýn í starfsemi sveitarfélagsins og séu upplýsandi og fræðandi fyrir íbúa. Að auki má benda á forstöðumannaskýrslur og vinnuskýrslu sveitarstjóra, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Strandabyggðar. Starf sveitarstjóra er fjölbreytt og lifandi og snertir ótrúlega marga fleti sveitarfélagsins. Skrifstofan er fámenn og því er óhjákvæmilegt annað en að fjölbreytileiki verkefna sé mikill, enda fer maður bara í þau verk sam þarf að vinna.
Stjórnsýsluréttur
Tvo morgna í þessari viku, sat ég fjarnámskeið á vegum Háskóla Íslands sem kallast, „Hraðferð um stjórnsýsluréttinn“ og það var bæði áhugavert og gagnlegt. Lagalegt umhverfi sveitarfélaga er þannig að margar ákvarðanir, sem í daglegu starfi gætu virkað einfaldar, verða að fylgja ströngum reglum, t.d. um tilkynningarskyldu, andmælarétt, hæfi ofl.
Hringrásarhagkerfið
Á sama tíma sátu aðrir starfsmenn fjarfund á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir yfirskriftinni „Kröfur til hins byggða umhverfis vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis“. Tilefni fundarins eru breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og fleiri lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis sem innleiddar voru í íslenskt regluverk í júní 2021 og komu til framkvæmda um síðustu áramót. Með breytingunum eru gerðar frekari kröfur til flokkunar úrgangs á upprunastað og sérstakrar söfnunar ákveðinna úrgangsflokka á lóðum íbúa og lögaðila. Einnig eru gerðar kröfur til sveitarfélaga um rekstur grenndar- og söfnunarstöðva þar sem almenningur og fyrirtæki geta skilað úrgangi sem til fellur, eins og segir í fundarboðinu. Sorpsamlag Strandasýslu undirbýr nú íbúafund þar sem lagðar verða fram tillögur að framkvæmd sorphirðu og aðgengi að starfsemi Sorpsamlagsins á Skeiði verður kynnt.
Málefni Grunnskólans
Framundan er sótthreinsun á skólahúsnæðinu og er verið skoða verðhugmyndir verktaka í það verk. Haldinn var mjög góður samráðsfundur sveitarstjórnar og VERKÍS, sem heldur utan um verkefnið með okkur. Verða slíkir fundir haldnir vikulega, auk allra annara samskipta þessara aðila. Við erum á réttri leið og samstaða er í sveitarstjórn um aðgerðir.
Leikskólalóðin
Í uphafi vikunnr var auglýst eftir verðhugmyndum í jarðvegsvinnu á leikskólalóðinni. Landmótun hefur unnið teikningar og skissur með hæðarmælingum, sem stuðst verður við. Það er mikið gleðiefni að geta nú loksins hafist handa við að endurgera lóðina. Áherslan í sumar verður á jarðvegsvinnu, drenlögn og uppsetningu veggja og grindverks til að afmarka lóðina og um leið verja hana.
Náttúrustofa Vestfjarða
Í lok vikunnar var ársfundur Náttúrustofu Vestfjarða. Það var sérlega ánægjulegt að heyra af fjárhagslegum viðsnúningi og hagnaði af rekstri stofunnar. Unnið er að því að skilgreina nýtt stöðugild á Ströndum, með aðsetur á Hólmavík.
Margt annað gerðist í vikunni; mannaráðningar sumarsins eru að skýrast, Tónskólinn lauk sínu starfi þennan veturinn með mjög flottri athöfn í Kirkjunni ofl ofl.
Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti