Vitabraut 21 best skreytta húsið
| 13. desember 2011
Í desembermánuði setja margskonar ljósaseríur og jólaljós mikinn svip á Strandir. Í Strandabyggð eru hús og híbýli skreytt á margvíslegan máta og víða má sjá ljósum prýdd hús sem mikil vinna hefur verið lögð í að skreyta. Það var því ekki auðvelt verk sem elstu krakkarnir á leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík stóðu frammi fyrir í morgun, en þau hafa það fyrir venju að velja best skreytta húsið á Hólmavík ár hvert. Í þessum tilgangi var farinn sérstakur skoðunarúntur um bæinn í morgun.
Eftir lýðræðislegar umræður komust börnin að niðurstöðu og bönkuðu upp á hjá Stellu Magnúsdóttur og Arijus Dirmeikis sem búa í húsinu að Vitabraut 21. Þar var húsfreyjunni afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn.
Eftir lýðræðislegar umræður komust börnin að niðurstöðu og bönkuðu upp á hjá Stellu Magnúsdóttur og Arijus Dirmeikis sem búa í húsinu að Vitabraut 21. Þar var húsfreyjunni afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn.
Íbúar í Strandabyggð eru hvattir til að halda áfram að lýsa upp skammdegið með jólaljósum og seríum, jafnt úti sem inni, enda eru þau vel til þess fallin að hlýja hjörtum og búa til góða stemmningu fyrir jólahátíðinni sem nálgast óðfluga.