Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd, 08, mars 2021
Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd – 8. mars 2021
Fundur var haldinn í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd Strandabyggðar mánudagur 8. mars 2021, kl. 17:00, í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík.
Til fundarins voru boðaðir fulltrúar ADH nefndar.
Mættir fundarmenn: Pétur Matthíasson, Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hlíf Hrólfsdóttir, Jón Jónsson og Barbara Guðbjartsdóttir. Viktoría Rán ritar fundargerð í tölvu.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
- Minnisblað sveitarstjóra um atvinnumál
- Bréf frá Magnúsi Steingrímssyni og Mörtu Sigvaldadóttur
- Bréf frá Sigríði Drífu Þórólfsdóttur og Birki Þór Stefánssyni
- Verðlagning vegna refa-og minkaveiða
- Önnur mál
Fundargerð:
- Minnisblað sveitarstjóra um atvinnumál
ADH-nefndin þakkar sveitarstjóra fyrir minnisblaðið, sem innihélt margar góðar hugmyndir sem má vinna áfram. Hugmyndirnar tengjast að nokkru leyti stefnumótun nefndarinnar frá haustinu 2018, sem var þá skilað inn til sveitarstjórnar. Nefndin ákvað að taka upp vinnuskjalið frá haustinu 2018, uppfæra það og leggja aftur fyrir sveitarstjórn áður en vetri lýkur. Nefndin vísar minnisblaðinu til sveitarstjórnar til umræðu. - Bréf frá Magnúsi Steingrímssyni og Mörtu Sigvaldadóttur
ADH-nefndin þakkar fyrir ágætt erindi og tekur undir mikilvægi þess að rétt sé smíðuð sem fyrst. Umræða fór fram um réttarteikningu og nefndin styður hugmyndir um byggingu réttar með flokkunargangi. Endanlegri ákvörðun er vísað til sveitarstjórnar.
Fyrirkomulag fjallskila var rædd og tekið verður tillit til athugasemda við gerð fjallskilaseðils og þakkar fyrir ábendingar. Stefnt er að því að leggja fram fjallskilaseðil fyrir sveitarstjórnarfund í maí. - Bréf frá Sigríði Drífu Þórólfsdóttur og Birki Þór Stefánssyni
ADH-nefndin þakkar erindið. Ábendingar varðandi fjallskilaseðil verða teknar til athugunar við gerð hans.
Ekki er starfandi sérstök sauðfjárveikivarnanefnd á vegum sveitarfélagsins.
Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að koma upp íláti fyrir dýrahræ og leiðbeiningum um förgun þeirra í samræmi við lög og reglur og upplýsa íbúa um þær. Útburður dýrahræja er óheimill nema með sérstöku leyfi.
Nefndin tekur undir áhyggjur fyrirspyrjanda um sótthreinsun aðkeyptra tækja og hvar megi nálgast leiðbeiningar um það. Sama gildir um fjárflutninga. Leggja þarf áherslu á að halda hólfinu hreinu. - Verðlagning vegna refa-og minkaveiða
PM víkur af fundi.
Umræða fór fram um laun og verðlaun vegna refa- og minkaveiða. ADH-nefndin leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið fari eftir viðmiðunartaxta Umhverfisstofnunar frá og með næsta veiðitímabili, sem er eftirfarandi:
Fyrir refi - hámarksviðmið og hámarksverðlaun:
Refir kr. 7.000 á dýr.
Yrðlingar kr. 1.600 á dýr.
Tímakaup ráðinna veiðimanna kr. 1.615 kr/klst.
Akstur 110 kr/km.
Fyrir minka - hámarksviðmið og hámarksverðlaun:
Verðlaun fyrir unninn mink kr. 3.000 á dýr.
Verðlaun fyrir hvolpafulla læðu kr. 15.000 á dýr.
Tímakaup ráðinna veiðimanna kr. 1.615 kr./klst.
Akstur 110 kr/km.
PM snýr aftur til fundar.
5. Önnur mál
Skýrslan Sterkar Strandir – framtíðarsýn og markmið
a) ADH-nefndin fjallar um skýrsluna Sterkar Strandir. Í skýrslunni koma fram margir gagnlegir punktar og fögnum við framtakinu. Samhliða hvetur nefndin íbúa, fyrirtæki og stofnanir til að nýta þetta verkefni sem best til góðra verka. Í tengslum við skýrsluna leggur nefndin fram eftirfarandi tillögur og fyrirspurnir:
i. ADH-nefnd leggur til við sveitarstjórn Strandabyggðar að ráðist verði í athugun á hvort aðrir valkostir við lagningu hitaveitu til Hólmavíkur komi til greina, í ljósi þess að slitnað hefur upp úr samningum um hitaveitu frá Hveravík. Mikilvægt er að upplýsingamiðlun fari fram til íbúa. (Tengt starfsmarkmiði Sterkra Stranda 1.12.)
ii. ADH-nefnd óskar eftir því að sveitarstjórn Strandabyggðar leiti eftir svörum frá Vegagerðinni um hvaða öryggisumbætur og vegabætur eru fyrirhugaðar á árinu 2021 á vegum í dreifbýli í sveitarfélaginu. Sérstaklega verði spurt um Innstrandaveg; blindhæðina og einbreiðu brúna við Hrófá, framhald á uppsetningu á vegriði í Kollafirði, jarðsig við Forvaða, vegrið í Slitrunum í Bitru og hvort til standi að setja bundið slitlag á nýja vegarkaflann á Brekkurekanum frá Ennisá að Brekku. Eins verði kannað hvort enn standi til af hálfu Vegagerðarinnar að skera niður vetrarþjónustu á Innstrandavegi eða á öðrum vegum í sveitarfélaginu og ef svo er skorum við á sveitarstjórn að hefja baráttu gegn þeim áformum tafarlaust. Þegar upplýsingar um þessi atriði (og önnur álíka um framkvæmdir) liggja fyrir hjá sveitarfélaginu, þarf að miðla þeim til íbúa sveitarfélagsins. (Tengt starfsmarkmiði Sterkra Stranda 1.4.)
iii. ADH-nefnd óskar eftir því að sveitarstjórn Strandabyggðar upplýsi um stöðu mála og næstu skref við vinnu og hagsmunagæslu sveitarfélagsins um umferðaröryggi, á grundvelli þeirra gagna sem safnað var við öryggisúttekt sem gerð var síðastliðið sumar á Vestfjarðaleiðinni (hringveginum um Vestfirði). Vestfjarðarstofa stóð fyrir verkefninu. (Tengt starfsmarkmiði Sterkra Stranda 1.4.)
iv. ADH-nefnd beinir því til sveitarstjórnar að hafa frumkvæði að því að kanna hvort hægt sé að flýta því að öflugt háhraðanet (ljósleiðari eða 5G) verði tengt í öll hús á Hólmavík. Gerð verði greining á hvað slík framkvæmd myndi kosta, hvaða hindranir séu í vegi og hvaða aðila þyrfti að fá til samstarfs við slíkt verkefni. Íbúar verði upplýstir um valkosti og gang mála. (Tengt Starfsmarkmiði 1.5.)
v. ADH-nefnd skorar á sveitarstjórn Strandabyggðar að beita sér af krafti fyrir því að sauðfjárveikivarnagirðingu úr Bitru í Gilsfjörð sé haldið við með sómasamlegum hætti. (Tengt Framtíðarsýn: Strandabyggð 2025, atriði um trausta grunnatvinnuvegi).
vi. ADH-nefnd leggur til við sveitarstjórn Strandabyggðar að hún hafi frumkvæði að því að ráðast í sérstaka kortlagningu á þörfum og möguleikum íbúa og atvinnulífs dreifbýlis í sveitarfélaginu. (Starfsmarkmið 3.17.)
vii. ADH-nefnd óskar eftir að nefndin og íbúar sveitarfélagsins verði upplýst um stöðu vinnu við þau verkefni sem sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti að ráðast í á fundi sínum þann 11. júní 2019, undir liðnum Viðbrögð við fólksfækkun – aðgerðir. Einnig hvernig fjármagn til þessara verkefna sem ráðstafað var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 var nýtt. Hér er átt við verkefnin: Aukið framboð og kynning á lóðum, Ferðamála- og kynningarfulltrúi, Íbúahandbók, Markaðs- og ímyndarátak unga fólksins, Vinnuhópur um styrkumsóknir, Vinnuhópur um Hólmavík sem ferðamannastað og íbúabyggð og Aukin upplýsingamiðlun og umræða. (Tengt starfsmarkmiðum 1.2, 1.3, 1.7, 2.4., 2.12, 3.7.)
viii. ADH-nefnd leggur til að sveitarstjórn Strandabyggðar vinni að því, í samvinnu við verkefnastjórn Sterkra Stranda, að koma á samstarfi við Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytið og Orkusetur um styrki til húseigenda í Strandabyggð til bættrar einangrunar íbúðarhúsnæðis. Byggðalögum sem taka þátt í verkefninu Brothættar byggðar hefur áður gefist kostur á þátttöku í slíku verkefni og miðaðist upphæða styrkja þá við 50% af efniskostnaði að hámarki 500.000 kr.
b) Óvissuástand um hrognkelsaveiðar 2021
- Nefndin lýsir áhyggjum sínum um að enn sé ekki komin reglugerð um fyrirkomulag hrognkelsaveiða, þar sem veiðarnar hafa undanfarin ár hafist 20. mars. Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að þrýsta á sjávarútvegsráðuneytið um að upplýsa um málið, því það eru miklir hagsmunir í húfi.
Fleira ekki tekið fyrir.
Fundi slitið 19:25.