Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd, 18.05.20
Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd – 18. maí 2020
Fundur var haldinn í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd Strandabyggðar mánudagur 18. maí 2020, kl. 18:00, í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík.
Til fundarins voru boðaðir fulltrúar ADH nefndar. Mættir fundarmenn: Pétur, Viktoría, Jón Gísli og Hlíf. Fundarritari Viktoría.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
- Atvinnumálastefna Strandabyggðar
- Stöðvun grásleppuveiða – viðbrögð sveitarfélaga á Vestfjörðum
- Samráðsfundur með bændum í Strandabyggð
- Réttarsmíði 2020
- Reglur og refaveiðar og grenjavinnslu
- Önnur mál.
Fundargerð:
1. Atvinnumálastefna Strandabyggðar:
Nefndin hélt marga vinnufundi haustið 2018 og vann svokallað matsblað sem innihélt forgangsröðun verkefna á sviði atvinnumála. Matsblaðið fjallaði um helstu atvinnugreinar, hugsanleg verkefni, tíma og kostnaðarramma. Samhliða var unnið erindi til sveitarstjórar sem listaði helstu áherslur nefndarinnar haustið 2018.
Mikilvægt er að miðla niðurstöðu matsblaðsins til nýrra nefndarmanna og endurskoða erindið sem ætlað var sveitarstjórn. Þar sem innranet sveitarfélagsins liggur niðri í augnablikinu, þá var ákveðið að taka málið fyrir á næsta fundi
2. Stöðvun grásleppuveiða – viðbrögð sveitarfélaga á Vestfjörðum
Nefndin leggur til að sveitarstjórn skrifi erindi til stjórnvalda þar sem þau eru hvött til að endurskoða útreikninga á stofnstærð grásleppu. Mikilvægt er að jafnræði sé gætt á milli landshluta og því þarf að taka fyrirkomulag grásleppuveiða til gagngerðar endurskoðunar. Jafnframt harmar nefndin skyndilega stöðvun grásleppuveiða í ár, sem hafi komið fram með of skömmum fyrirvara. Slík aðgerð kemur afar illa við smáar útgerðir og verkanir á viðkvæmum jaðarsvæðum.
3. Samráðsfundur með bændum í Strandabyggð
Nefndin leggur til að samráðfundur með bændum verði haldinn 22. júní og feli sveitarstjórn að boða til fundar og kynna þegar nær dregur
4. Réttarsmíði 2020
Umræða fór fram um kostnað verkefnisins um smíði nýrrar fjárréttar á Stað samhliða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Mikil efnahagsleg óvissa er og hefur verið síðustu mánuði. Það þarf því að endurmeta getu sveitarfélagsins til að ráðast framkvæmdina. Eins þarf að tryggja að réttir geti farið fram í Bitru og Kollafirði 2020 áður en endanleg ákvörðun er tekin um réttarsmíði á Stað. Sveitarstjórn þarf þó að tryggja að Staðarrétt geti annað því hlutverki sem henni er ætlað að gera.
5. Reglur um refaveiðar og grenjavinnslu
Nefndin hefur engin formleg rök fyrir því að breyta reglum um núverandi svæðaskiptingu.
Nefndin leggur til breytingu á reglu 1.3 á veiðitímabili hlaupadýra og að það verði frá 1.ágúst til 30. apríl ár hvert.
Nefndin leggur til breytingu á reglu 1.4 þar sem verðlaun fyrir refi hækkar í kr. 8000 á dýr án vsk, yrðlingar kr. 2000 á dýr án vsk og að tímakaup grenjavinnslu verði hækkað í kr.1200 per klst. án vsk. Aksturinn verður óbreyttur.
Nefndin leggur til breytingu á reglu 1.5 um skil og skiladaga þar sem tekinn er út textinn „Einungis verður tekið á móti skottum og skýrslum á áður auglýstum dögum“ og í staðinn komi textinn „Veiðimenn skuli skila skottum og skýrslum fyrir 15. ágúst ár hvert“.
Nefndin leggur til breytingu á reglu 2 um skil og skiladaga á hlaupadýrum og að veiðimenn skili upplýsingum um veiði á hlaupadýrum í síðasta lagi 1. júlí ár hvert. Tilgangur þessara breytinga er að gefa sveitarfélaginu færi á að reikna verðlaun fyrir hvert dýr samanber reglu 2.
Jafnframt leggur nefndin til að verðlaun fyrir hlaupadýr verði hækkuð í hámarksupphæð kr. 8000 án vsk.
6. Önnur mál
a) Fyrirspurn kom fram um stöðu á atvinnumálum ungs fólks og sumarstörfum. Strandabyggð sótti um kostun þriggja starfa hjá Vinnumálastofnun. Vilyrði fékkst fyrir einu starfi, sem verður auglýst.
b) Nefndin samþykki mikilvægi þess að yfirfara reglur um minkaveiðar.
Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl: 20:14.