A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd - 13. sept. 2010

Fundur haldinn í Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd Strandabyggðar mánudaginn 13. september kl. 18:00 á skrifstofu sveitarfélagsins. Mættir eru: Valgeir Örn Valgeirsson, Ingibjörg Sigurðardóttir varamaður, Ingibjörg Emilsdóttir, Þorsteinn Paul Newton og Rósmundur Númason varamaður. Einnig sat fundinn Einar Indriðason slökkviliðsstjóri.

 

Fundarefni: 

  • 1. Athugasemdir við Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022
  • 2. Deiliskipulag fyrir urðunarstað í landi Skeljavíkur ásamt athugasemdum Skipulagsstofnunar og Umhverfis- og náttúruverndarnefndar Strandabyggðar.
  • 3. Erindi frá Útgerð Hlakkar ehf. dags. 7. sept 2010.
  • 4. Umsókn um stofnun nýrrar fasteignar að Aratungu.
  • 5. Samráðsfundur sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar.
  • 6. Önnur mál.

Þá var gengið til dagskrár:

1. Athugasemdir við Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022.

16 athugasemdir/umsagnir bárust vegna aðalskipulags. Í eftirfarandi samantekt er gerð grein fyrir þeim 16 athugasemdum/umsögnum sem bárust vegna aðalskipulagsins og er þeim raðað upp eftir dagsetningum. 

Mikilvægt er að lesa umsagnirnar með hliðsjón af innsendum bréfum því hér er stuttlega gerð grein fyrir þeim:


1. Orkustofnun, dags. 29. mars 2010

Orkustofnun gerði engar athugasemdir við tillöguna.


2. Skógrækt ríkisins, dags. 13. apríl 2010

„Skógrækt ríkisins hefur skoðað stefnumörkun og umhverfisskýrslu skipulagstillögunnar. Stefnumörkunin í heild er hvetjandi og skógrækt til framdráttar. Skógrækt ríkisins leyfir sér þó að vekja athygli á nokkrum þáttum skógræktar sem ástæða væri til að fjalla um í Aðalskipulagi Strandabyggðar 2008-2020 og gætu haft áhrif á þróun byggðar þegar horft er til framtíðar.

  • Skógrækt skapar skjól og dregur úr rykmengun
  • Skógrækt bætir hljóðvist við umferðaræðar
  • Skógrækt getur dregið úr neikvæðum áhrifum mannvirkja á umhverfi
  • Skógrækt bætir aðstæður til útivistar
  • Með skógrækt má stýra snjóalögum og vindi
  • Skógur skapar efnisauðlind til framtíðar
  • Skógur bindur CO² (að meðaltali 4,5 tonn á ári á ha)

Þau atriði sem hér eru upp talin fá ekki sérstaka umfjöllun í tillögum að Aðalskipulagi fyrir Strandabyggð. Færa má rök fyrir því að hvert og eitt þessara atriða muni geta stuðlað að betra umhverfi og mannlífi í sveitarfélaginu á skipulagstímabilinu.


Umsögn: Sveitarfélagið þakkar góðar ábendingar.

 

3. Flugstoðir, dags. 30. apríl 2010

„Ekki eru gerðar athugasemdir við það aðrar en að bæta þarf inn á uppdráttinn, hindranflötum flugbrautarinnar, sem liggja bæði út frá flugbrautarendum og einnig til hliða en eru með mismunandi halla"


Umsögn: Gögn voru leiðrétt áður en tillagan var auglýst.
 
4. Siglingastofnun, dags. 3. maí 2010

Gerðar voru eftirfarandi athugasemdir við aðalskipulagið:

„Efnistökusvæði.

Bent er á að í kafla 7.1.7 og uppdrætti vantar að gera grein fyrir opinni bergnámu við Víðidalsá. Þar hefur verið unnið grjót til hafnargerðar og sjóvarna í sveitarfélaginu og einnig mun Vegagerðin hafa notað námuna töluvert. Mikilvægt er að hafa aðgengi að þessari námu vegna hafnar- og sjóvarnarframkvæmda í framtíðinni."


Umsögn: Tekið var tillit til athugasemdar og námu var bætt við á uppdrátt og upptalningu efnistökusvæða í greinargerð áður en tillagan var auglýst.


"Svæði undir náttúruvá.

Í kafla 7.3.7 er þess getið að ekki liggi fyrir upplýsingar um hættu af völdum sjávarflóða í sveitarfélaginu. Bent er á að þó úthafsöldu gæti ekki að neinu marki við Hólmavík getur orðið talsverður sjógangur í suð- og austlægum áttum. Sjávarrof er við strönd á nokkrum stöðum og í þéttbýlinu í Hólmavík hafa verið byggðir sjóvarnargarðar á um 350 m kafla meðfram Kópnesbraut og Höfðagötu og einnig við Hólmavíkurveg við fiskmarkaðshús. Í drögum að samgönguáætlun 2009-2012 er gert ráð fyrir nýjum sjóvarnargarði á 105 m kafla austan við Rifshausinn frá enda sjóvarnar sem komin er við Höfðagötu. Þá má reikna með að núverandi varnir þarfnist endurbyggingar í framtíðinni. Í skipulagi þarf að taka tillit til sjóvarnarmannvirkja samanber 5. gr. laga nr. 281/1997 um sjóvarnir. Bent er á að skipuleggja ekki nýja byggð nær sjávarkambi en 50-100 m þar sem líkur eru á sjávarflóðum og að kveðið verði á um lágmarks gólfhæðir húsa með hliðsjón af hæstu mögulegu sjávarstöðu og spár um sjávarborðshækkun."


Umsögn: Gögn voru lagfærð m.t.t. til athugasemda og umfjöllun um sjávarflóð bætt við í greinargerð áður en tillagan var auglýst.


„Hafnarsvæði.

Á þéttbýlisuppdrætti er hafnarsvæði sýnt töluvert frábrugðið því sem er í dag. Samkvæmt því yrði uppfylling innan á eystri hafnargarðinum og eins norðan við Rifið þar sem gerð hefur verið sjóvörn. Bent er að flotbryggjur fyrir smábáta eru nú staðsettar innan á eystri hafnargarðinum og þyrfti að finna þeim annan stað ef fyllt yrði upp innan garðsins og jafnframt byggja nýjan grjóðgarð til að veita þeim skjól. Uppfylling norðan við Rifið er raunhæfur kostur ef þörf verður á auknu landrými en bent er á að hana yrði grjótverja. Það er skoðun Siglingastofnunar að komi til þess að gerð verði uppfyllingin ásamt grjótvörn verði það alfarið á kostnað sveitarfélagsins. Engar heimildir eru í hafnarlögum fyrir rikisstyrk til slíkra framkvæmda og sú vinnuregla gildir að grjótvarnir á uppfyllingar eru ekki styrktar af sjóvarnafé."

Umsögn: Nefndin vill ekki að uppfylling sé á eystri hafnargarðinum, þ.e. við smábátahöfn. Varðandi hina landfyllinguna telur nefndin nauðsynlegt að nægt landrými sé til staðar fyrir framtíðar hafnsækna starfsemi.

 

5. Ísafjarðarbær, dags. 3. maí 2010

„Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við aðalskipulagið enda fellur aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vel að Aðalskipulagi Strandabyggðar 2010-2022."


6. Fornleifavernd ríkisins, dags. 11. maí 2010

Gerð er athugasemd þess efnis að ekki hafi verið gerð fornleifaskráning fyrir sveitarfélagið í heild sinni og bent á 11. gr. þjóðminjalaga þar sem kveðið er á um að skylt sé að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá aðalskipulagi.


Umsögn: Sveitarfélagið Strandabyggð hefur fengið samþykki fyrir því hjá Fornleifavernd ríkisins að fornleifaskráning fari fram eftir staðfestingu aðalskipulags.

 

7. Vegagerðin, dags. 19. maí 2010

Bent var á röng vegnúmer og vegflokka greinargerð.


Umsögn: Númer og vegflokkar voru lagfærð í greinargerð og á uppdrætti.


8. Hólmadrangur, Gunnlaugur Sighvatsson dags. 9. júlí 2010

Undirritaður gerir athugasemd við hafnarsvæði H1.


„Fyrir hönd Hólmadrangs ehf geri ég athugasemd við þá tilögu að aðalskipulagi Strandabyggðar sem tilkynningar hefur verið og gilda á tímabilið 2010 - 2022. Samkvæmt skipulagsuppdrætti og greinargerð með nýju skipulagi er lóð sú er húseign fyrirtækisins, Hlein í Norðurfjöru, stendur á, skilgreind sem athafnasvæði. Eldra aðalskipulag var unnið samkvæmt eldri skipulagslögum þar sem allar atvinnulóðir voru skilgreindar sern iðnaðarsæði. Samkvæmt nýjum skipulagslögum, sem þessi tillaga er unnin eftir, eru atvinnulóðir flokkaðar nánar í hafnarsæði, iðnaðarsvæði eða athafnasvæði. Það er mitt mat að flokkun á lóðinni sern athafnasvæði séu röng, þar sem húseignin sem um ræðir var upphaflega byggð sem fiskvinnsluhús og fyrirtækið Hólmadrangur ehf nýtir það í tengslum við sína starfsemi, rækjuvinnslu. Skilgreining Ióðarinnar sem hafnarsvæði sé því réttari og óskast þetta hér með leiðrétt á þann veg.

     Vera kann að þessi tillaga um flokkun lóðarinnar byggist á þeim staðhæfingum í forsendum að samdráttur hafi verið í sjávarútvegi í sveitarfélaginu og rekstur Hólmadrangs ehf hafi gengið erfiðlega. Hvorugt getur talist rétt sé horft til landvinnslu Hólmadrangs ehf, þar sern bæði unnið magn og veltuaukning hefur verið umtalsverð frá gerð síðasta aðalskipulags, þrátt fyrir almenna erfiðleika í rækjuiðnaði hérlendis. Ein helsta forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu starfsseminnar er sú að ekki sé gengið á möguleika fyrirtækisins til að nýta núverandl starfssvæði sitt, heldur liðkað til við að það nýtist sem best. Í nýrri aðalskipulagstillögu er ekki lengur gert ráð fyrir götu sem fyrirhuguð var milli lóða fyrirtækisins við Hlein og Höfðagötu 3b. Hefur fyrirtækið í hyggju, að nýju aðalskipulagi samþykktu, að sækja urn stækkun þessara lóða þannig að þær verði samliggjandi og starfssemi fyrirtækisins því samfelld. Að framansögðu er ljóst að það er bæði rétt og afar mikilvægt fyrir fyrirtækið að báðar þessar Ióðir lúti áfram sömu skilgreiningu og þá sem hafnarsvæði."

Umsögn: Tekið verður tillit til athugasemdar og verður uppdráttur og greinargerð leiðrétt við endanlegan frágang aðalskipulagsins.

9. Þorsteinn Sigfússon og Sævar Benediktsson, dags. 20. júlí 2010

Gerð er breytingartillaga í tveimur liðum og fylgdi teikning með og ein athugasemd:


„1. Hafnarbraut sem verður stofnbraut, breytist neðan við kirkjuna (Klifið) og í stað þess að beygja inn á milli húsa fylgir hún sjónum á brún uppfyllingarinnar, beygir utan um Höfða (klettur við Höfðagötu 2) og heldur áfram á uppfyllingu neðan við gömlu fiskimjölsverksmiðjuna neðan við Hlein og síðan upp Bröttugötu innan við Kópnesbraut 6. Engar byggingar eru í veglínunni nema græni skúrinn og bráðbirgða beitningaaðstaða.

    Tenging Kópnesbrautar við Hafnarbrautina er fyrir neðan Kópnesbraut 6 en að öðru leyti breytist lega Kópnesbrautar ekki.

     Þar sem Hafnarbraut lokast fyrir neðan kirkjuna (Klifið) verður botnlangagata sem tengir gamla bæinn við Hafnarbrautina milli Höfðagötu 2 og 13.

     Kostir við þessa breytingu eru að losna við aðalumferðina í gegnum gamla bæinn. Þungaflutningar sem tilheyra rækjuvinnslunni fara þá beint inn á vinnslusvæði úr Norðurfjöru í stað þess að þræða þröngar götur á milli húsa í gamla bænum, sem er varla bjóðandi í dag með tilliti til öryggis."

Umsögn: Byggingarnefnd er sammála því að Hafnarbraut verði stofnbraut og breytist neðan við kirkjuna (Klifið) og í stað þess að beygja inn á milli húsa fylgir hún sjónum á brún uppfyllingarinnar, beygir utan um Höfða (klettur við Höfðagötu 2) og heldur áfram á uppfyllingu neðan við gömlu fiskimjölsverksmiðjuna neðan við Hlein og síðan upp Bröttugötu innan við Kópnesbraut 6. Engar byggingar eru í veglínunni nema græni skúrinn og beitningaaðstaða. Þar sem Hafnarbraut lokast fyrir neðan kirkjuna (Klifið) verður botnlangagata sem tengir gamla bæinn við Hafnarbrautina milli Höfðagötu 2 og 13.
     Nefndin vill hins vegar leggja fram þær breytingar við tillöguna að vegur verði frá "nýrri" Hafnarbraut beint inn á Kópnesbraut og vegur frá Hólmadrangi verði fyrir neðan Kópnesbraut 10, 12 og 14.

„2. Á aðalskipulagstillögunni eru svæði merkt H, svokölluð hafnarsvæði að kaffæra gamla tangann með uppfyllingum á allar hliðar. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að sleppa öllum frekari landfyllingum við gömlu byggðina og leyfa þeim skerjum og fjörubútum sem enn eru ekki komin undir mold og grjót að halda sér. Þess í stað er fylling við hafskipabryggjuna stækkuð og gerð samfelld út að Hafnarbraut 6. Á þeirri fyllingu sem komin er þar hefur nú risið fiskmarkaður og því er tilvalið að skipuleggja svæðið með framtíðarhúsnæði fyrir smábátaútgerðina í huga og annan hafnsækinn iðnað."

Umsögn: Vísað í umsögn við athugasemd 4.

 

„Rifshaus á aðalskipulagi nefndur H1 er á röngum stað, á þessari tillögu er hann settur aftur á réttan stað. Hann er litli kletturinn á milli Árnaklakks og Höfða (klettur við Höfðagötu 2).

     Vegslóði liggur að gamla vatnstankinum. Á aðalskipulagstillögunni hefur hann dottið út. Á þessari tillögu er hann settur á sinn stað."

Umsögn: Tekið verður tillit til athugasemdar og gögn lagfærð við endanlegan frágang aðalskipulagsins.
 
10. Drífa Hrólfsdóttir, Haraldur V.A. Jónsson, Guðjón Magnússon, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Þórólfur Guðjónsson, dags. 25. júlí 2010

Undirrituð gera eftirfarandi athugasemd og óska eftir afhendingu gagna:

 
Gerð er athugasemd við kafla 7.3.4 Verndarsvæði og kafla 7.4.4 Vatnsveita.

„Nokkuð ljóst má vera af greinargerð með aðalskipulagstillögunni hvernig mönnum ber að haga umferð sinni um brunnsvæði og grannsvæði að öðru leyti en því að talað er um að veglagning, áburðarnotkun og önnur starfsemi skuli vera undir ströngu eftirliti á grannsvæði vatnsveitunnar. Hér kemur hvorki fram hver sú önnur starfsemi er né hver skuli annast eftirlit með þessari annarri starfsemi.

     Okkur sýnist verulega óljóst og vanta nánari skilgreiningu á verndarsvæðum fjarsvæðis vatnsveitu Hólmavíkur á Ósáreyrum. Í kafla 7.4.4 Vatnsveita segir: „Verndarákvæði fjarsvæða eru:

     Þar sem vitað er um sprungur og misgengi skal gæta fyllstu varúðar í meðferð efna sem talin eru upp í II. flokki. Stærri geymslur fyrir slík efni eru bannaðar á svæðinu.

     Heilbrigðisnefnd getur gefið út frekari fyrirmæli varðandi umferð á svæðinu svo og um byggingu sumarhúsa og annarra mannvirkja.

     Í kafla 7.4.4 kemur einnig fram að: "Allt vatnasvið Ósár er skilgreint sem fjarsvæði vatnsverndar Ósárarveitu Hólmavíkur.  Allar framkvæmdir á þeim svæðum þurfa að bíða umsagnar og frekari fyrirmæla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða til þess að tryggja öryggi vatnsverndarsvæða Ósárarveitu ..."

     Vatnasvið Ósár er að stórum hluta í landi jarðanna Innri Óss og Ytri Óss og því skiptir það verulega máli fyrir okkur eigendur jarðanna að ákvæði í Aðalskipulagi Strandabyggðar séu skýr og greinargóð varðandi umferð um jarðirnar og framkvæmdir á þeim. Hér þykir okkur hins vegar margt óljóst og spurningar vakna svo sem um mannvirkjagerð, ræktun túna, húsbyggingar, umferð manna og véla vegna vinnu, einnig um það sem í greinargerðinni er kallað frekari fyrirmæli Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Verði kaflar 7.3.4 og 7.4.4 túlkaðir þröngt má telja að Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hafi allt vald til ákvarðana um umgengni á okkar landi og geti jafnframt sett frekari reglur og jafnvel aukið takmarkanir." 

 
Umsögn: Afmörkun vatnsverndarsvæðis vatnsbóls Hólmavíkur er unnin út frá skýrslu sem unnin var fyrir Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða árið 1998. (Halldór G. Pétursson 1998: Verndarsvæði vatnsbóls Hólmavíkur. Unnið fyrir Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-98010, Akureyri, nóvember 1998). Í þeirri skýrslu er svæðið afmarkað á uppdrætti og skýrt er frá ástandi vatnverndarsvæðisins og flokkun þess í brunn-, grann- og fjarsvæði vatnsverndar. Í þeirri skýrslu kemur fram: „að vernd á fjarsvæðum er ekki eins ströng og á grannsvæðinu, en þó er öll meiri háttar geymsla og meðferð mengandi efna óheimil. Umferð og öll starfsemi verða að vera undir ströngu eftirliti og byggingar, s.s. sumarbústaðir og þ.h. má aðeins leyfa í litlum mæli og að uppfylltum kröfum um mengunarvarnir. Skilgreining vatnsverndarsvæða eins og hún er sett fram í greinargerð aðalskipulags er sú sem sett er fram í reglugerð um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999 með síðari breytingum. Samkvæmt 22. gr. Heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 skal heilbrigðisnefnd fara með eftirlit vatnsbóla. Í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns kemur ennfremur eftirfarandi fram í 12. grein: „Sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skulu grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að gæði vatns sem tekið er til neyslu og vatns sem kann að verða tekið síðar sem neysluvatn geti hrakað eða spillst. Þessar ráðstafanir felast m.a. í ákvörðun um verndarsvæði og setningu heilbrigðissamþykkta, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem gerðar eru takmarkanir viðvíkjandi umferð, landnýtingu og meðferð og geymslu hættulegra efna innan verndarsvæðanna."

 
„Undirritaðir óska hér með eftir að skilgreint verði nákvæmlega á hvað hátt þessi skilgreining vatnsverndarsvæðis kemur til með að skerða nýtingu jarðanna sem og að gerður verði nákvæmur uppdráttur þar sem tilgreint er hvernig vatnsverndarsvæðið er afmarkað og hvernig því er skipt í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Þá óska undirritaðir eftir því að Strandabyggð afhendi undirrituðum öll gögn sem varða vatnsveituna í Ósá allt frá upphafi vatnstöku þar, sem skv. greinargerð með skipulagstillögu var árið 1988 og til dagsins í dag.  Er vísað til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hvað þessa beiðni varðar."

 
Umsögn: Bent er á fyrrgreinda skýrslu Náttúrfræðistofnunar Íslands um afmörkun verndarsvæðis Vatnsbóls Hólmavíkur sem sveitarstjórn getur afhent undirrituðum ásamt öðrum umbeðnum gögnum.

  
„Með vísan til framangreinds gera undirritaðir eigendur Ósjarðanna fyrirvara við Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022 og áskiljum okkur rétt til þess að setja fram frekari athugasemdir á síðari stigum. Áskiljum við okkur jafnframt rétt til málshöfðunar til að sækja um bætur vegna hugsanlegrar skerðingar á athafnafrelsi og möguleikum til uppbyggingar sem auk þess rýrir verðgildi jarðanna Innri Óss og Ytri Óss."

 
Umsögn: Sveitarstjórn þarf að svara þessu en bent er á 33. gr. Skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna en þar segir:

     „Nú veldur gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður og á þá sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín.

  • Við ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða skal taka tillit til þeirrar verðhækkunar sem þær kunna að hafa í för með sér á viðkomandi eign. Við ákvörðun bóta skal m.a. miða við hvort nýtt skipulag hefur þegar áhrif á verðmæti eignarinnar eða síðar, hvaða kröfur eru gerðar um nýtingarhlutfall, húsahæðir, bifreiðastæði, leiksvæði barna og opin svæði að því er snertir sambærilegar eignir, svo og hvort skipulagið gerir afstöðu fasteignarinnar gagnvart götu hagstæðari eða óhagstæðari en áður var. Þá ber og að miða við þann arð sem eðlileg notkun eignarinnar gefur af sér.
  • Sá sem telur sig eiga rétt á bótum eða krefst yfirtöku samkvæmt þessari grein skal senda kröfu sína til sveitarstjórnar. Viðurkenni sveitarstjórn bótaskyldu skal hún annast um að dómkvaddir verði matsmenn til að ákveða bætur. Fallist sveitarstjórn á kröfu um yfirtöku skal matsnefnd eignarnámsbóta falið að ákveða kaupverð."

 
11. Rut Bjarnadóttir, Magnús Ólafsson, Elsa B. Hanssen og Torsten Gunnarsson, dags. 27. júlí 2010

Tekið er undir tillögu Þorsteins Sigfússonar og Sævars Benediktssonar um breytingu á Hafnarbraut.

 
Umsögn: Vísað í umsögn við athugasemd 9.1.

 
12. Björn Arason og Jón Rúnar Arason, dags. 27. júlí 2010

Gerð er athugasemd við námu merkta E26.

 
„Við undirritaðir hlutaeigendur að jörðinni Kleppustaðir og Aratunga viljum koma þeim athugasemdum á framfæri að í kaflanum um „Efnistökusvæði" í yfirliti yfir núverandi efnistökuvæði í Strandarbyggð á bls. 36 er því stillt upp að „E26 Aratungumelar" tilheyri jörðinni Kirkjuból. Aratungumelar eru í landi Aratungu og óskast það leiðrétt. Þá er melnum lýst í greinargerð um aðalskipulag sem „núverandi efnistökusvæði. Við mótmælum því að hægt sé að líta á Aratungumel sem „núverandi efnistökusvæði". Vegagerðin hefur nú þegar nýtt svæðið til efnistöku eins og um var samið á sínum tíma. Ef Vegagerðin eða aðrir aðilar vill nýta Aratungumel til frekari efnistöku lítum við svo á að það þurfi að leita eftir samþykki landeigenda að nýju og semja um það upp á nýtt við landeigendur."


Umsögn: Tekið verður tillit til athugasemdar og náman tekin úr greinargerð og uppdrætti við endanlegan frágang aðalskipulagsins.

 
13. Umhverfisstofnun, dags. 27. júlí 2010

„Umhverfisstofnun gerir eftirfarandi athugasemdir og tekur undir eftirfarandi atriði:

Íbúðabyggð. Umhverfisstofnun tekur undir niðurstöðu mats um að uppbygging nýrra íbúðasvæða í Brandsskjóli hafi minni umhverfisáhrif en ný byggð á svæði norðan Skeiða."

Umsögn: Íbúðabyggð í Brandsskóli er fyrsti kostur varðandi uppbyggingu fyrir svæði fyrir íbúðarbyggð.


„Vernd og náttúruvá. Umhverfisstofnun tekur undir áform um hverfisverndun sem fram kemur í umhverfismati tillögunnar."

 
Umsögn: Sveitarfélagið fagnar undirtektum um aukna hverfisvernd í sveitarfélaginu.

 
„Sorpförgun. Í niðurstöðu samanburðar sorpförgunarkosta kemur fram að stefna sveitarfélagsins sé að framkvæmdir Skeljavík falli vel að landslagi og raski ekki votlendi. Síðan er farið yfir tillögur að mótvægisaðgerðum til að draga úr hættu á röskun á heildarásýnd lands í Skeljavík og neikvæðum áhrifum þess á umhverfið og er tillaga um að: „Stuðla að endurheimt votlendis annars staðar í sveitarfélaginu í stað þess sem raskast við framkvæmd." Að mati Umhverfisstofnunar þyrfti að koma betur fram hvar votlendi geti raskast vegna sorpförgunar og í grófum dráttum hvar möguleikar eru á endurheimt votlendis ef þörf krefur."

 
Umsögn: Í umhverfisskýrslu hefur votlendi verið fjarlægt úr umfjöllun um sorpförgunarsvæði þar sem ekki er um neitt votlendi að ræða á umræddu svæði.


"Stefna aðalskipulags um samgöngur. Í aðalskipulagstillögunni er lögð til færsla vegstæðis af Djúpvegi í botni Steingrímsfjarðar að Geirmundarstaðavegi í mynni Selárdals. Rökin fyrir færslunni eru að vegurinn sem er malarvegur, þyki brattur, blindur og snjóþungur. Tillaga um nýtt vegastæði felst í því að vegurinn verði fluttur á ósa Staðarár og liggi síðan nálægt sjónum að afleggjara til Geirmundsstaða. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki æskilegt að vegurinn fari yfir ósa Staðarár. Í Staðará er lax- og silungsveiði. Samkvæmt Ramsar samningnum sem Ísland er aðili að er votlendi skilgreint sem mýrar, fen, flóar og ferskvötn en einnig sjór við fjöru þar sem hann er innan við sex metra djúpur og sjávarfitjar og fellur ós Staðarár undir fyrrgreinda skilgreiningu. Ljóst er að röskun verður á árós Staðarár ef af framkvæmdinni verður. Að mati Umhverfisstofnunar er sú tilhneiging að fara með vegi því sem næst ofaní fjöru ekki æskileg þróun. Að mati Umhverfisstofnunar yrðu umhverfisáhrif vegna færslu Strandavegar meir en óverulegar enda felur áætlunin í sér að þvera ósa Staðarár. Umhverfisstofnun bendir á að eitt af leiðum í skipulagstillögunni til að ná markmiðum varðandi náttúruverndarsvæði er eftirfarandi: „Að því skal stefnt að friða árbakka, strendur vatna og sjávar svo sem fram kemur í lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingamál." Að mati Umhverfisstofnunar þarf að skoða hvort stefna um færslu Strandavegar samrýmist ofangreindu markmiði."
 

Umsögn: Að mati nefndarinnar þá er verið að bæta umferðaröryggi á svæðinu til muna með færslu vegarins. Sjósöfnun er mun minni á nýrri veglínu og sjónræn áhrif nýs vegar yrðu mun minni en uppbygging eldri vegar vegna skeringa og hærri vegkanta sem yrðu mun meira áberandi heldur en nýr vegur sem lagður er meira í landslagið. Samkvæmt úttekt Náttúrustofu Vestfjarða eru ekki neinar plöntur á válista innan nýrrar veglínu en vegurinn mun á stuttum kafla fara yfir sjávarfitjar og ósa Staðarár. Sveitarfélagið telur að með góðri útfærslu á framkvæmd verði hægt að takmarka eins og kostur er áhrif á ósinn en ljóst er að sjávarfitjar munu verða fyrir áhrifum en á mjög stuttum kafla.


„Efnistökusvæði. Alls er gert ráð fyrir efnistöku á 38 svæðum á skipulagstímabilinu. Umhverfisstofnun vekur athygli á því að ef að efnistökusvæði eru frágengin og ekki er áætluð efnistaka á svæðinu á skipulagstímabili aðalskipulagstillögunnar þá á svæðið ekki að vera á lista yfir efnistökusvæði. Stofnunin telur að fram þurfi að koma nánari upplýsingar um magn efnis sem áætlað er að taka á hverjum stað á skipulagstímabilinu. Einnig þyrfti að koma fram ef til stendur að ganga frá efnistökusvæðum á skipulagstímanum."
 
Umsögn: Upplýsingar um námur byggja á upplýsingum Vegagerðarinnar og þar á bæ liggja ekki fyrir upplýsingar um magn efnis á hverjum stað. Bætt hefur verið í greinargerð upplýsingum um hvaða námum eigi að ganga frá samkvæmt langtímaáætlun um námufrágang til ársins 2018 sem gefin var út af Vegagerðinni árið 2004.


"Landgræðsla og skógrækt. Umhverfisstofnun tekur undir umfjöllun um landgræðslu og skógrækt, en þar sem hálent er í sveitarfélaginu vill stofnun bæta því við að samkvæmt 10. gr. reglugerðar um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000 er: „Öll ræktun útlendra tegunda hér á landi er óheimil á friðlýstum svæðum, á landslagsgerðum er njóta sérstakrar verndar og alls staðar ofan 500 metra hæðar yfir sjó."

Umsögn: Upplýsingum þessum verður bætt við í greinargerð við endanlegan frágang skipulagstillögunnar.

14. Þorbjörg Stefánsdóttir og Unnar Ragnarsson, dags. 28. júlí 2010

Gerð er athugasemd við að hluti eignarlóðar að Borgabraut 2 sé skipulögð sem þjónustulóð. Gerð er athugasemd við að Brattabrekka, Læknishalli eða Samkomuhúsbrekka verði lokað fyrir umferð og komið er því á framfæri hvort ekki væri hugsandi að hafa einstefnuakstur um brekkuna, þ.e. ekið niður brekkuna.

Umsögn: Afmörkun lóðar verður leiðrétt m.t.t. athugasemdar. Nefndin mælir með að leikskólabrekka verði lokuð.


15. Hafdís Sturlaugsdóttir, dags. 28. júlí 2010

Gerð er athugasemd við hverfisverndarsvæði við Kálfanes.

„Hverfisverndarsvæðið við Kálfanes tekur ekki til fugla. Mikið og fjölbreytt fuglalíf er við Lómatjörn sem er við enda flugvallar. Þar hefur verið mikið hettmávsvarp eitt fyrsta í Strandasýslu (frá 1953, munnleg heimild frá Jóni Hall Jóhannssyni). Einnig eru fleiri fuglategundir sem verpa á svæðinu s.s. duggönd, toppönd, óðinshani, spói, stelkur, urtönd, stokkönd, jaðrakan og lómur hefur verpt þarna einnig. Svæðið er mjög fjölbreytt votlendisvæði (3,5 ha að stærð) sem vert væri að vernda með hverfisvernd, þ.e. stækka það hverfisverndarsvæði sem ráðgert er. Lómatjörn er ofan vegar (Staðsetning næst vegi GPS 376318 582122) og samanstendur af nokkrum tjörnum sem eru allar tengdar með vatnsvegum."


Umsögn: Afmörkun hverfisverndarsvæðis við Kálfanes nær yfir Lómatjörn og umhverfi og kemur það fram á sveitarfélagsuppdrætti en þéttbýlisuppdrátturinn nær einungis yfir skilgreint þéttbýlissvæði.


„Þar sem talað er um hverfisverndarsvæðið í Kálfanesi er ekki greint frá latneska nafni brenninetlunnar (Urtica dioeca).  Hún er stundum kölluð Stórnetla til aðgreiningar frá Smánetlu. Brenninetlan sem vex í Kálfanesi er aðallega þekkt vegna þess að hennar er getið í heimildum.  Björn Halldórsson í Sauðlauksdal getur um hana í riti sínu Grasnytjum og einnig er hennar getið í Ferðabók Eggerts og Bjarna."


Umsögn: Tekið verður tillit til athugasemdar við endanlegan frágang aðalskipulagsins.

 

16. Katrín Theódórsdóttir, dags. 28. júlí 2010

Gerð er athugasemd varðandi Hafnarbraut 7.             

 

„Beiðni um breytingu á aðalskipulagi miðar að því að fá leyfi fyrir rekstri kaffi- og veitingahúsi á svæði sem er skipulagt sem  íbúðabyggð."

 

Umsögn: Nefndin samþykkir breytingar á aðalskipulagi vegna Hafnarbrautar 7.

 

Nú hefur nefndin fjallað um framkomnar athugasemdir og leggur til að sveitarstjórn sendi tillöguna til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu.

 

2. Deiliskipulag fyrir urðunarstað í landi Skeljavíkur ásamt athugasemdum Skipulagsstofnunar og Umhverfis- og náttúruverndarnefndar Strandabyggðar.

Nefndin hefur farið yfir þessi atriði og vísar þeim áfram til sveitarstjórnar.

 

3. Erindi frá Útgerð Hlakkar ehf. dags. 7. sept 2010.
Í bréfinu kemur fram að fyrirtækið sé að færa starfsemi súna í nýtt hús. Nefndin fagnar erindinu en fer fram á formlegt erindi vegna breyttrar starfsemi í húsinu. Einnig bendir nefndin á að skila þurfi inn teikningum sem þurfa að sýna þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á húsinu.

4. Umsókn um stofnun nýrrar fasteignar að Aratungu.
Nefndin samþykkir erindið.

5. Samráðsfundur sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar.
Nefndin leggur það til að formaður nefndarinnar verði sendur á fundinn.

6. Önnur mál.
a. Sumarhús Eysteins Gunnarssonar. Eysteini er þakkað skjót viðbrögð og honum er gefið leyfi til að rífa húsið sitt og byggja þar nýtt.

b. Hólmadrangur, lokun á gluggum og klæðning frystiklefa. Erindi samþykkt.

c. Tillaga að stækkun lóðar við Kópnesbraut 4b. Nefndin telur að skoða þurfi lóðarmál eignanna í kring áður en breyting á núverandi lóð getur átt sér stað.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 20:07.

 

Valgeir Örn Kristjánsson (sign)

Ingibjörg Sigurðardóttir (sign)

Ingibjörg Emilsdóttir (sign)

Þorsteinn Paul Newton (sign)

Rósmundur Númason (sign)

Einar Indriðason (sign)


ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. sept. 2010.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón