A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd - 2. febrúar 2011

Fundur var haldinn í Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar miðvikudaginn 2. febrúar kl. 20:00. Fundarstaður er skrifstofa Strandabyggðar að Höfðagötu 3.

 

Mættir: Ásta Þórisdóttir, Lýður Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Sigurður Atlason, og Kristín Sigurrós Einarsdóttir

 

Á dagskrá fundarins var eftirfarandi:

 

1. Endurskoðun Staðardagskrár

2. Önnur mál.

 

Sigurður Atlason formaður setti fundinn og gengið var til dagskrár. Fyrst á dagskrá var framhaldsumræða um verkefni sem Umhverfis- og náttúruverndarnefnd bera ábyrgð á í Staðardagskrá 21.

 

Fráveitumál


Lagðar voru til fáeinar orðalagsbreytingar í textanum. Samþykkt var að stefnan sem fram kemur í kaflanum í fráveitumálum standi óbreyttur. Verkefni kaflans standa einnig óbreytt með örlitlum orðalagsbreytingum í öðrum og þriðja lið. Nefndarmönnum er ókunnugt um hvort  atriði 5. liðar hefur verið kannaður og stendur því óbreytt þar til upplýsingar um það fást.

 

Texti kaflans um Fráveitumál stendur því svona:


Staðan:

  • Ástand fráveitna til sveita er víðast hvar í nokkuð góðu lagi. Rotþrær eru komnar á alla bæi, en á nokkrum bæjum, einkum í Bitrunni, eru siturlagnir ekki frá rotþrónum.
  • Á Hólmavík er ástandið hins vegar lakara. Af 11 ræsum í bænum ná nokkur þeirra of stutt út í sjó, þar sem þau koma upp úr sjó á fjöru og reyndar oftar. Sérstaklega er það út frá Vesturtúni, sem lögnin er of stutt. Úti fyrir er þó viðtakinn almennt góður. Þynning frárennslis var mæld árið 2000 og var þá í mjög góðu lagi.
  • Helsta fráveituvandamálið er hið mikla magn rækjuskeljar sem fer í frárennsli. Um er að ræða mörg tonn á dag, þegar vinnslan er í fullum gangi og skapar það mikinn vanda. Bæði vegna mikils vatns sem þarf til að flytja skelina um kerfið, en jafnframt vegna áhrifa í viðtakanum.
  • Á Hólmavík eru ekki aðskilin kerfi fyrir húsaskolp og ofanvatn.
  • Ástand frárennslislagna er mjög misjafnt í þorpinu, en e.t.v. ekki að fullu ljóst.
  • Olíugildra er staðsett í iðnaðarhverfi en ekki eru til upplýsingar um hvaða fyrirtæki eru tengd henni, eða eru með eigin olíugildrur.
  • Gerður hefur verið samningur við fyrirtækið Hreinsitækni um losun rotþróa og verður sú losun gerð á tveggja ára fresti. Losunarsvæði fyrir seyru hafa verið skilgreind, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, bæði á urðunarsvæði og við Ennisá í Bitrufirði.

Stefna:


Að fráveitur í Strandabyggð uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru í lögum og reglugerðum um málaflokkinn.


Verkefni:


1. Útrásir í sjó verði lengdar til að tryggja að viðtaki sé nægilega góður.

2. Ástand olíugildra hjá fyrirtækjum (s.s. Hólmadrangur, N1, Vegagerðin, á Skeiði,) verði athugað og tryggt að þær virki sem skyldi.

3. Sliturlagnir verði útbúnar á þeim bæjum í sveitarfélaginu þar sem þær vantar.

4. Átak verði gert í að kortleggja lagnir í þorpinu og laga ástand þeirra.

5. Ástand frárennslislagna við íþróttahús verði kannað.

6. Sett verði rotþró við Vesturtún og afrennslið leitt í sjó fram.

7. Á þeim svæðum í þorpinu þar sem frárennsli fer í rotþró, verði tryggt að húsaskolp og ofanvatn sé aðskilið.


Úrgangsmál


Lagðar eru til talsverðar tillögur um breytingu á stöðutexta málaflokksins, þar sem talsvert hefur áunnist á málflokknum á skömmum tíma. Upplýsingar um stöðuna bárust frá framkvæmdastjóra Sorpsamlagsins í síðustu viku og Sigurður og Ásta settust niður þriðjudaginn 2. Febrúar og unnu vinnuskjal fyrir fundinn. Í upplýsingum framkvæmdastjóra kemur fram að svæðismat um meðhöndlun úrgangs hafi verið gerð af Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Nefndin veit ekki hvar það mat liggur og það hefur ekki borist henni og óskar nefndin eftir upplýsingum um það.

Fjögur atriði í verkefnalista úrgangsmála er lokið úr fyrstu útgáfu Staðardagskrár og falla því út. Þau eru.

 

  • Útbúin verði svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, samanber lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og landsáætlun um meðhöndlun úrgangs.
  • Útbúin verði áætlun um hvernig eigi að laga núverandi urðunarstað að hertum kröfum, sbr. reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs.
  • Urðunarstaðurinn verði skipulagður og lagaður (hvar á hvaða úrgangur að vera urðaður?) Skýrð verði verkaskipting milli sveitarfélags og sorpsamlags. Þetta tengist gerð aðlögunaráætlun fyrir urðunarstaðinn.
  • Skipulag yfir urðunarstað verði skýrt; hver beri ábyrgð á staðnum. Boðleiðir verði skýrðar (hvað á að gera, hver á að gera það og hvernig á að gera það?).

Eftir standa verkefni sem beinast sérstaklega að fræðslumálum í sorpmálum. Eftirfarandi ályktun er lögð fram til sveitarstjórnar. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd telur að það verkefni geti haft jákvæð áhrif á íbúa að huga enn betur að flokkun sorps.

 

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar leggur til að unnin verði fræðslumyndbönd um flokkun sorps í sveitarfélaginu í samstarfi við nemendur Grunnskólans á Hólmavík og tómstundafulltrúa. Það verði liður í fræðslu vegna umhverfismála og myndböndin muni birtast undir sérstökum umhverfisflokki á heimasíðu Strandabyggðar.

 

Einnig ályktar nefndin um að mögulega þurfi að huga að sérstakri gjaldtöku í framtíðinni hjá fyrirtækjum þar sem sýnt er að ásættanleg flokkun eigi sér ekki stað.

 

Lagt er til að fundin verði ásættanleg lausn á förgun rækjuskeljar og vörubretta sem safnast upp í miklum mæli og áhersla lögð á að huga að söfnun lífræns úrgangs frá heimilum.

 

Lagt er til að texti kaflans um úrgangsmál standi svona:

 

Staðan:


Öll sveitarfélögin í Strandasýslu standa sameiginlega að Sorpsamlagi Strandasýslu, sem fer með úrgangsmál á svæðinu.

  • Urðunarstaður sveitarfélagsins er í Skeljavík og er sorpsamlagið rekstraraðili þess svæðis. Þar er allur almennur úrgangur urðaður.
  • Urðunarstaðurinn hefur undanþágu frá starfsleyfi til 15. júní 2011. Umsókn um starfsleyfi er í ferli hjá Umhverfisstofnun og öll gögn til að veita leyfið eru komin til stofnunarinnar nema deiliskipulag sem er í höndum Strandabyggðar sem landeiganda. Urðunarstaðurinn hefur haft leyfi til að urða almennan heimilisúrgang og óvirkan úrgang, einnig er sótt um leyfi til geymslu á hjólbörðum og brotajárni í umsókninni sem er hjá Umhverfisstofnun. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar á urðunarstað Sorpsamlagsins þann 22. október 2010 sl., voru engar athugasemdir gerðar.
  • Sorp er losað frá heimilum og fyrirtækjum á Hólmavík og Drangsnesi á tveggja vikna fresti og einnig í sveitum á sumrin en á þriggja vikna fresti á veturna. Losað er úr tunnum við heimili á Hólmavík og viðeigandi ílát hjá fyrirtækjum. Verið er að gera tilraunir í dreifbýli Strandabyggðar með ný sorpílát fyrir urðanlegt sorp, en áður var notast við hefðbundna ruslagáma. Vonast er til að ná sparnaði og vinnuhagræði með þeim. Allir íbúar sveitarfélagsins þurfa að koma flokkuðum úrgangi til móttökustöðvarinnar á Hólmavík sem var opnuð 1. febrúar 2010.
  • Sorpsamlagið er með samning við Endurvinnsluna/Sagaplast á Akureyri um að hirða eftirfarandi úrgangsflokka: Pappír, sléttur pappi, bylgjupappi, rúlluplast, harðplast, lituð plastfilma, ólituð plastfilma, málmar, spilliefni og raftæki. Timburúrgangur er urðaður á urðunarstað Sorpsamlagsins.
  • Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs hefur verið gerð, sveitarstjórnum ber að gera slíka áætlun samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða útbjó áætlunina.
  • Ekki hefur enn verið útbúið lokað, afgirt gámasvæði.
  • Reglulega þarf að koma fram upplýsingum til íbúa um meðhöndlun og flokkun sorps.

Stefnan:


Ávallt sé leitað allra leiða til að draga úr myndun úrgangs og endurnýta hann eins og hægt er. Öll meðhöndlun úrgangs sé eins og best gerist á landinu.


Verkefni:


1. Útbúið verði lokað gámaplan með góðum flokkunarmöguleikum fyrir endurvinnanlegan úrgang.

2. Markviss fræðsla til almennings verði stöðugt í gangi í sorpmálum. Þessi fræðsla getur tengst verkefninu Vistvernd í verki.

3. Árlega verði komið á hreinsunarátaki bæði í þéttbýli og dreifbýli sem skilgreint skal hverju sinni.

4. Vinna skal að því að komið verði á samstarfi við Hólmadrang að finna leiðir til nýtingu eða förgunar rækjuskeljar og vörubretta sem til fellur innan fyrirtækisins. Framtíðarmarkmið hlýtur að vera að öll úrgangslosun á Hólmavík verði öðrum til fyrirmyndar.

5. Fyrirtæki og stofnanir verði hvött til að beina rekstri sínum til umhverfisvænni vegar. Sveitarfélagið skal hafa frumkvæði að námskeiðum og útgáfu fræðsluefnis.

6. Komið verði á jarðgerð og söfnun lífræns úrgangs frá heimilum.

 

Skógrækt


Engar athugasemdir eru gerðar við stöðu skógræktar í fyrstu útgáfu Staðardagskrár. Nefndin leggur til að allur texti standi áfram óbreyttur en þó verði kannað hversu margar jarðir hafa samning við Skjólskóga um skógrækt. Í skjalinu kemur fram að þær séu fimm en nefndinni er ókunnugt um hvort breyting hafi orðið á því.

 

Önnur mál.


Engin önnur mál lögð fram.


Fundi slitið kl 21:45

Ásta Þórisdóttir (sign),
Lýður Jónsson (sign),
Ingibjörg Benediktsdóttir (sign),
Sigurður Atlason (sign), 
Kristín Sigurrós Einarsdóttir (sign)

ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. febrúar 2011.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón