Fræðslunefnd - 7. júlí 2010
Fundur er haldinn í Fræðslunefnd Strandabyggðar miðvikudaginn 7. júlí á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19. Mættir eru eftirtaldir fulltrúar í Fræðslunefnd: Ingibjörg Sigurðardóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Jón Jónsson aðalmenn og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ragnar Bragason varamenn. Jón Jónsson setti og stjórnaði fundinum og Salbjörg Engilbertsdóttir skrifaði fundargerð.
Fundur er settur kl. 16:30.
Fundarefni:
1. Kosning formanns, varaformanns og ritara.
Tillaga var gerð um að Steinunn Þorsteinsdóttir taki að sér formennsku og var það samþykkt samhljóða og mælt er með Snorra Jónssyni sem varaformanni og voru allir samþykkir því. Samþykkt var að Salbjörg Engilbertsdóttir yrði ritari.
Þá mættu Guðrún Guðfinnsdóttir leikskólastjóri og Hlíf Hrólfsdóttir fulltrúi starfsmanna leikskólans á fundinn.
Leikskólamál:
2. Starfsáætlun leikskóla.
Guðrún Guðfinnsdóttir kynnti starfsáætlun leikskólans og skóladagatal. Stefnt er á að halda starfinu áfram að mestu óbreyttu næsta starfsár.
Hér mætti Sigurrós Þórðardóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna á fundinn.
Guðrún útskýrði nánar nokkur atriði, t.a.m. starfsdaga og aðrar lokanir. Það kemur fram í dagatalinu að sumarfrí er rétt að hefjast og er fyrsti starfsdagur eftir sumarleyfi þann 17. ágúst. Næsta sumar er áætlað sumarleyfi frá 14. júní og fram í seinnipart júlí.
Fram kom einnig í máli leikskólastjóra og fulltrúa fundarins að girðing leikskólans er í óviðunandi ástandi og var þrýst á það hjá fyrri leikskólanefnd að ljúka viðgerð sem fyrst en ekkert hefur verið gert í þeim efnum enn. Lagt var einnig til að farið yrði strax í lóðaframkvæmdir við lokun leikskóla. Skv. nýju leikskólalögunum skal fara fram innra mat í leikskólanum og verður unnið í því næsta vetur.
3. Starfsmannamál.
Í áætluninni kemur fram staða starfsmanna í dag og er reiknað með ca. 6,7 stöðugildum næsta vetur. Reikna má með að þurfa að auglýsa lausa 100% stöðu fljótlega þar sem starfsmannabreytingar eru fyrirsjáanlegar. Mælt er með því framvegis að samningar ófaglærðra starfsmanna verði miðaðir við 1. júní en ekki 1. maí þar sem það kemur betur út vegna sumarleyfa og til að ljúka vetrarstarfi.
Rætt var um skipulag mötuneytis og starf matráðs og hefur það verið þannig að matráður sér um morgunmat og hressingu, en einnig sækir starfsmaðurinn matarskammta á Café Riis. Fram kom að enginn biðlisti er í leikskólanum og búist er að 4 börn hafi náð aldri til að fá vistun eftir sumarleyfi. Næsta vetur er áætlað að 30 börn verði í leikskólanum.
Sameiginleg mál:
Nú mættu Bjarni Ómar Haraldsson skólastjóri og Hildur Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á fundinn.
4. Umræður um skólastarf og tengda þjónustu.
Jón útskýrði að samkvæmt nýlegum lögum um grunnskóla og leikskóla ber sveitarstjórn að koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla. Stofnun Fræðslunefndar er liður í því og einnig að starfsmönnum og fræðslunefnd sé gefinn kostur á að ræða sameigilega liði. Nokkrir liðir eru á dagskrá:
Hér mætir Sverrir Guðbrandsson á fundinn fyrir hönd foreldra barna við Grunnskólann.
a. Mötuneyti.
Fram kom að ekki hefur verið gerður skriflegur samningur um aðkeypta mötuneytisþjónustu. Rætt var fram og aftur um kosti og galla þess að kaupa matinn frá þjónustuaðila eða að reka eigið mötuneyti. Lagt er til að skoðaðir verði allir fletir varðandi þetta mál og að lokum borin undir atkvæði eftirfarandi tillaga sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum.
„Fræðslunefnd hvetur sveitarstjórn til að bjóða áfram upp á mötuneytisþjónustu í hádeginu fyrir leik- og grunnskólabörn. Bera þarf saman ólíkar leiðir hvað rekstrarkostnað varðar og mikilvægt er að halda kostnaði foreldra í lágmarki. Tryggja þarf að sá matur sem er í boði uppfylli skilyrði og staðla um næringargildi og hollustu. Bent er á Handbók um skólamötuneyti sem gefin er út af Lýðheilsustöð í þessu samhengi."
b. Skólaskjól og heimanám.
Bjarni Ómar útskýrði starfsemi skólaskjóls og þar kom fram að heimanám er frá kl. 13.00-14.00 fyrir 1.-4. bekk og nýttu um 20 nemendur þessa þjónustu síðasta vetur. Skólaskjól er starfrækt frá kl. 14.00-16.00 og hefur því verið sinnt af starfsmönnum Óskaþrifa. Fram kom hjá aðstoðarskólastjóra að gerður var ótímabundinn samningur við fyrirtækið þar sem starfsmenn þess hafa alfarið sjálfir séð um daglegan rekstur og afleysingar sín á milli. Það er hennar mat að stöðugleiki hafi einkennt starfið og að það hafi verið í góðum farvegi undanfarin 2 ár.
Varðandi heimanámið kom fram að einhver óánægja var með heimanámstíma og árangur kannski ekki alltaf fullnægjandi. Fram kom hjá skólastjórnendum að vilji er til að skoða það vel næsta haust.
c. Notkun íþróttahúss.
Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að gæsla verði efld í baðklefum íþróttahússins á meðan íþróttakennslu stendur og að gæslumenn af báðum kynjum séu til staðar eftir því sem þörf er á.
d. Skólaakstur.
Fram kom í máli starfsmanna leikskólans að boðleiðir þegar ferðir skólabíls falla niður, væru ekki í ásættanlegu formi og þyrfti að bæta það næsta vetur. Ljóst þarf að vera hvaða aðili beri ábyrgð á miðlun upplýsinganna og telur fræðslunefnd að það sé eðlilegt að það verði í framtíðinni á ábyrgð skólabílstjóra. Rætt var fram og aftur um skólaakstur og að lokum bar Jón upp eftirfarandi tillögu sem fræðslunefnd samþykkir samhljóða.
„Fræðslunefnd beinir þeirri tillögu til sveitarstjórnar að leita leiða til að bjóða nemendum á leikskólastigi í dreifbýli Strandabyggðar upp á að fá far með skólabíl til og frá skóla. Gæta þarf þess að sú lausn sem fundin verði takmarki ekki ferðalög í tengslum við skólastarfið eða starf félagsmiðstöðvar."
Nú kl. 18.10 viku Sigurrós, Guðrún og Hlíf, fulltrúar leikskólans, af fundi.
Grunnskólamál:
5. Ráðningar kennara við Grunnskólann, skólaárið 2010-2011.
Fram kom að Hildur og Bjarni fóru yfir umsóknirnar og tóku viðtöl við nokkra umsækjendur. Fram kom að mögulegt hefði verið að ráða kennara með menntun ef húsnæði hefði verið í boði. Bjarni lagði því fram eftirfarandi ályktun: „Leita þarf leiða til sjá til þess að húsnæði sé til staðar fyrir kennara, til að auðvelda kennararáðningar við skólann þar sem húsnæði er einn stærsti þátturinn í því að fá fólk til starfa."
Rætt var um að í lögum grunnskóla kemur fram að undanþágunefnd setji skilyrði um undanþágur ef ekki er auglýst endurtekið. Fræðslunefnd gerir sér grein fyrir þessari reglugerð en leggur þó til að sótt sé um undanþágu fyrir þá leiðbeinendur sem mælt er með í starfið. Þá var farið yfir umsóknir.
Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson hefur sótt um sem íþróttakennari. Þar sem staða íþróttakennara við skólann er hálf staða er mælt með að Kolbeinn taki að sér umsjónarkennslu í 5. og 6. bekk á móti og verði því ráðinn í 100% starf. Fram kom í máli skólastjóra að nú í fyrsta skipti í langan tíma sé íþróttamenntaður einstaklingur að sækja um starfið. Fræðslunefnd fagnar umsókninni og samþykkir að mæla með ráðningu Kolbeins.
Kristjana Eysteinsdóttir sækir um stöðu leiðbeinanda við skólann en hún lýkur námi um næstu áramót. Hún sækir um 77% stöðu vegna þessa og mun vera kennari inni í 1.-2. bekk. Samþykkt var að mæla með ráðningu Kristjönu.
Victor Örn Victorsson sækir um stundakennslu næsta vetur og mun hann kenna samfélagsfræðigreinar. Samþykkt var að mæla með ráðningu Victors.
Nú véku Jón Jónsson og Hildur Guðjónsdóttir af fundi.
Arnar S. Jónsson sækir um stundakennslu næsta vetur og er mælt með að ráða hann sem stundakennara í tjáningu, upplýsingatækni, tónmennt og lífsleikni á unglingastigi. Fram kemur að Arnar er að ljúka BA. prófi í tómstunda- og félagsmálafræðum á haustönn. Samþykkt var samhljóða að mæla með Arnari í starfið.
Jón og Hildur komu aftur inn á fundinn.
Fram kom að Therése Möller og Kristín S. Einarsdóttir grunnskólakennarar höfðu einnig sótt um kennarastöðu en þær drógu umsóknirnar til baka. Einnig sótti Sigurður Þorbjörn Magnússon diplóma í kennslufræðum um starf.
6. Ráðning kennara við Tónskólann á Hólmavík, skólaárið 2010-2011.
Fram kom í máli skólastjóra að Viðar Guðmundsson verður í fæðingarorlofi í september og kemur svo til starfa í október í lækkuðu starfshlutfalli. Einnig er Barbara Guðbjartsdóttir í fæðingarorlofi til nóvember. Auglýst var eftir tónlistakennara til afleysinga og barst ein umsókn frá Önnu Sólrúnu Kolbeinsdóttur. Rætt var við hana í vor og er mælt með að hún verði ráðin til starfa. Samþykkt samhljóða að ráða Önnu Sólrúnu í starfið.
7. Ráðningar stuðningsfulltrúa við Grunnskólann á Hólmavík, skólaárið 2010-2011.
Ragnar Bragason vék af fundi.
Þar bárust 4 umsóknir og mælt er með að ráða Sigríði Jónsdóttur sem stuðningsfulltrúa í 1.-2. bekk. Samþykkt samhljóða.
Ragnar kom aftur inn á fundinn.
Umsókn barst frá Marsibil Freymóðsdóttur sem stuðningsfulltrúa. Mælt er með að ráða hana í stuðning í 7. bekk. Ráðning hennar var samþykkt samhljóða.
Einnig barst umsókn Florian Beck sem dró umsóknina til baka og Söndru Rún Björnsdóttur sem er menntaður iðjuþjálfi og fer fram á ráðningu á samningi iðjuþjálfa. Ekki hafði verið auglýst eftir iðjuþjálfa við skólann að þessu sinni og er Söndru þakkað erindi sem fylgdi umsókn og því vísað til sveitarstjórnar sem innleggi í umræðu um flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót.
8. Drög að framkvæmdaáætlun vegna skólastarfsins 2010-2013. Kynning.
Hildur kynnti framkvæmdaáætlun vegna skólastarfsins 2010-2013 og þar kom ýmislegt áhugavert fram og þar á meðal má nefna að vinna er hafin við gerð innra mats og í tengslum við það munu skólastjórnendur sækja námskeið í Búðardal í haust. Einnig eru þeir að undirbúa faglegt starf fyrir komandi skólastarf og má þar nefna mótun skólastefnu og starfsmannastefnu í tengslum við hugmyndir um heildstætt nám og áherslur í skólastarfinu. Þessir þættir verða kynntir síðar og unnir í samráði við skólaumhverfið. Skólastjórar leggja til að Fræðslunefnd komi að gerð endurmenntunaráætlunar kennara og móti sér stefnu í þeim efnum.
9. Breytingar á skóladagatali 2010-2011.
Fram kom að skólasetning verður formlega í kirkjunni að þessu sinni og er færð fram til 20. ágúst þar sem hluti nemenda og kennara verða í skólaferðalagi í Danmörku frá sunnudeginum 22. ágúst. Einnig komu fram nokkrar breytingar á dagatalinu og samþykkir skólanefnd þær fyrir sitt leyti. Nákvæmt Skóladagatal Tónskólans verður lagt fram í ágúst þar sem mikilvægar dagsetningar í starfi hans eru skilgreindar nánar.
10. Skólaráð / Kynning.
Samantekt um verkefni og hlutverk skólaráðs lagt fram til kynningar.
Sverrir, Hildur og Bjarni, fulltrúar Grunnskólans, viku af fundi.
11. Önnur mál.
a. Trúnaðarmál fært í trúnaðarmálabók.
Ekki fleiri önnur mál. Fundi slitið kl. 20.20.
Jón Jónsson (sign)
Ragnar Bragason (sign)
Ingibjörg Sigurðardóttir (sign)
Ingibjörg Benediktsdóttir (sign)
Salbjörg Engilbertsdóttir (sign)
Guðrún Guðfinnsdóttir (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign)
Sigurrós Þórðardóttir (sign)
Hildur Guðjónsdóttir (sign)