Fræðslunefnd, fundargerð 6. júní 2024
Fundargerð
Fundur fræðslunefndar Strandabyggðar haldinn í Hnyðju fimmtudaginn 6. júní 2024. Fundur hófst 17:18. Mættir eru Þorgeir Pálsson, Júlíana Ágústsdóttir í fjarveru Vignis Rúnars Vignissonar, Heiðrún Harðardóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Steinunn Magney Eysteinsdóttir, sem ritaði fundargerð. Kristín Anna Oddsdóttir mætti sem fulltrúi foreldra og Berglind Maríusdóttir fulltrúi starfsmanna á leikskóla. Á fundinum eru einnig Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir Skólastjóri og Kristrún Lind Birgisdóttir (í fjarfundi).
Fundardagskrá:
- Drög að starfsáætlun fræðslunefndar
- Skýrslur um innra mat leik- og grunnskóla
- Mat á starfsáætlun
- Mat á starfsáætlun innra matsteymis
- Innleiðing skólastefnu
- Staða aðgerða
- Önnur mál:
- Drög að erindisbréfi fræðslunefndar.
Formaður bauð fundarmenn velkomna.
Umræða
1. Drög að starfsáætlun fræðslunefndar
Formaður rakti forsögu og sagði komið að því að staðfesta starfsáætlunina. Nefndin staðfestir og samþykkir starfsáætlunina. Gerð verður útlitsbreyting á áætluninni þar sem rauðum lit verður breytt í svartan.
2. Skýrslur um innra mat leik- og grunnskóla
a. Mat á starfsáætlun
Formaður gaf orðið til skólastjóra sem fór yfir starfsáætlunina. Ekki náðist að ráða þroskaþjálfa fyrir árið og fór því meira álag á aðra starfsmann. Áfram er auglýst eftir þroskaþjálfa og vonandi næst að ráða fyrir næsta starfsár. Þau námskeið sem ekki náðist að halda verða sett á starfsáætlun fyrir næsta ár. Ýmislegt sem þarf að fara í gegnum og er leitað ráða til Ásgarðs með það. Guðfinna Lára spurði um hvort það ætti að færa Vallarhúsið? Einhver óánægja er með að það sé á körfuboltavellinum. Hrafnhildur sagði frá því að óánægja með þetta mál hafi komið fram á nemendaþingi og það verður sent áfram til sveitarfélagsins. Formaður segir frá því að ekki verði tekin ákvörðun um þetta fyrr en búið er að raða inn í skólann, mögulega þarf það að vera en þá verður skoðuð önnur staðsetning. Berglind benti á orðalag og dagsetningu við útskrift leikskólans.
b. Mat á starfsáætlun innra matsteymis
Formaður gaf orðið til skólastjóra. Skólastjóri fór yfir starfsáætlunina. Ekki hafa náðst öll markmið ársins og eru ýmsar ástæður fyrir því en flest náðist. Þorgeir benti á að það vanti markmið á gæðaviðmiðin. Kristrún bendir á að ekki hafi náðst að meta nógu mikið til þess að gefa niðurstöður. Til þess að fá innramatið grænt þarf að fara yfir alla þætti og athuga hvort hlutirnir séu metnir. Þorgeir óskar eftir að þetta verði tekið fyrir á fundi sem verður í næstu viku með Ásgarði.
3. Innleiðing skólastefnu
a. Staða aðgerða
Formaður gaf orðið til Kristrúnar L. Birgisdóttur sem fór yfir stöðuna. Henni finnst að þessi liður eigi að vera fastur liður á fræðslunefndarfundum til að fara yfir hvort allt sé í virkri endurskoðun og til umbóta. Um er að ræða skólastefnu Strandabyggðar.
4. Önnur mál:
a. Drög að erindisbréfi fræðslunefndar. Þorgeir fer yfir bréfið. Góð umræða myndaðist um erindisbréf fræðslunefndar og skilgreiningar fræðslunefndar þar í. Guðfinna bendir á ósamræmi við fundafjölda á erindisbréfi fræðslunefndar og starfsáætlunar fræðslunefndar. Bent er á að í erindisbréfinu er ósamræmi í stjórnsýslu Strandabyggðar um mál félagsmiðstöðvar og verður það tekið út enda á vegum TÍM nefndarinnar. Bréfið verður endurbætt og sent á nefndarmenn fyrir næsta nefndarfund til samþykktar.
Formaður óskar eftir staðfestingu á eftirfarandi orðalagi í kaflanum um hlutverk: „Fræðslunefnd skal, eftir því sem við á, fylgjast með málefnum er varða frístund og frístundaaðstöðu grunnskólabarna. Hlutverk fræðslunefndar hvað þetta varðar, skal endurskoðað reglulega m.t.t. lagabreytinga.“ Þorgeir, Júlíana og Steinunn samþykktu. Heiðrún sat hjá og Guðfinna Lára greiddi atkvæði á móti. Formaður óskaði eftir að nefndarmenn kæmu með breytingartillögur og að erindisbréfið yrði samþykkt á næsta fundi. Samþykkt samhljóða.
Guðfinna Lára bókar að hún telur að frístund og frístundaraðstaða eigi betur heima hjá TÍM nefnd til að geta verið límið í samfelldum degi barns sem hún vill jafnframt hvetja sveitastjórn til að setja púður í að endurvekja.
Þorgeir bendir á að með þessu orðalagi er með engum hætti verið að breyta hlutverki og ábyrgð TÍM nefndar heldur eingöngu að benda á hvaða málefnum fræðslunefnd skal fylgjast með.
Tillaga Þorgeirs að umorðun í erindisbréfi: „Fræðslunefnd skal fylgjast með starfsemi frístundar sem heyrir undir starfsvið skólastjóra.“
Heiðrún kallaði eftir skýrum texta um það hvar frístund ætti heima og hvernig fræðslunefnd kæmi að þeirri umræðu.
B. Starfsmannamál. Guðfinna Lára kemur með bókun: „Í mati á starfsáætlun skólastjóra kemur skýrt fram að skólastjóri telur mönnun ekki hafa verið nægjanlega og því ekki náðst að uppfylla þarfir nemenda á síðastliðnu skólaári. Síendurteknar auglýsingar hafa ekki skilað ráðningum þrátt fyrir að störfum hafi verið sýndur áhugi í sumum tilfellum. Ástandið eykur álag og minnkar gæði náms/þjónustu. Starfandi er undanþágunefnd kennara og hefur grunnskólinn þurft að nýta sér þann farveg til að manna kennarastöður þar til haustið 2023. Nefndin fjallar eingöngu um grunn- og framhaldsskóla. Það vantar kennara með leyfisbréf um allt land. Mönnunarvandi sveitarfélagsins einskorðast ekki við skólasviðið. Ég vil hvetja sveitarstjórn til að gera heildstæða úttekt á mönnunarvanda sveitarfélagsins, til að greina orsakir í öllum deildum þess. Ég vil einnig hvetja til opnara hugarfars við mönnun t.d. að nýta í meira mæli fjarþjónustu, flæði starfsmanna og samstarf sveitarfélaga“.
Góð umræða var um bókunina. Fram kom ábending frá Heiðrúnu varðandi fjarþjónustu og benti hún á mikilvægi þess að skoða hvert tilfelli fyrir sig.
Fram kom ábending um að ráða í stöðu deildarstjóra leikskólans þrátt fyrir að umsækjendur uppfylli ekki menntunarkröfur.
Fram kom spurning um framkvæmdir á leikskólalóð og formaður svarar að framkvæmdir hefjist á næstu dögum.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl: 19:33. Fundargerð send til rafrænnar undirskriftar.
Steinunn Magney Eysteinsdóttir, ritari