Leikskólanefnd - 4. maí 2010
Fundargerð
Fimmtudaginn 4. maí 2010 var haldinn fundur í leikskólanefnd Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl 16:30. Mætt voru Sigurður Marinó Þorvaldsson, María Mjöll Guðmundsdóttir, Sigurrós Þórðardóttir fulltrúi foreldra, Kristín Sigurrós Einarsdóttir, Hlíf Hrólfsdóttir fulltrúi starfsmanna og Guðrún Guðfinnsdóttir leikskólastjóri. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. Sigurður setti fundinn og stjórnaði honum en fyrir lá eftirfarandi dagskrá:
- Erindi frá leikskólastjóra varðandi framkvæmdir á lóð.
- Önnur mál.
Þá var gengið til dagskrár.
- 1. Erindi frá leikskólastjóra varðandi framkvæmdir á lóð. Guðrún Guðfinnsdóttir leikskólastjóri greindi frá innsendu erindi sínu varðandi ástand lóðarinnar kringum leikskólann. Að sögn Guðrúnar gerir tíðarfarið undanfarna vetur það að verkum að ástand lóðarinnar er óvenju slæmt, ekki síst brekkan. Rætt var um að girða brekkuna af til bráðabirgða meðan gróðurinn jafnar sig, en ljóst er að það þarf að sá í eða þökuleggja þau svæði sem verst eru farin. Sigurður Marinó greindi frá því að hann og Snorri Jónsson hefðu skoða girðinguna kringum leikskólann og telur Sigurður að með því að nota núverandi staura og girða tvær hliðar með vírneti yrði kostnaðurinn kringum 150-200 þúsund. Núverandi girðing er orðin fúin og léleg. Ítrekað hefur verið bent á slæmt ástand girðingarinnar í úttekt BSI í aðalskoðun leiksvæða. Hlíf minnti á að áfram þyrfti að vera opnanlegur hleri á girðingunni til að koma þar inn tækjum. Rætt var um að slétta yfir kartöflugarð í leikskólanum en að leikskólinn gæti i staðinn nýtt sér t.d. skólagarða við grunnskólann eða í kartöflugarð í Skeljavík.
•2. Önnur mál.
- a. Innheimtumál voru til umræðu á síðasta fundi og í framhaldi af því greindi Guðrún frá uppfærslu á foreldrahandbók þar sem kveðið er á um eftirfarandi: „Leikskólagjöld eru á gjalddaga 1. hvers mánaðar fyrir líðandi mánuð og eindagi í lok mánaðar. Dragist greiðsla í tvo mánuði fá foreldrar viðvörun um að missa pláss frá og með næstu mánaðarmótum berist ekki greiðsla eða um hana hafi verið samið á skrifstofu Strandabyggðar."
- b. Brögð eru að því að fólk vilji breyta vistunartíma með litlum fyrirvara þrátt fyrir að kveðið hafi verið á um að það sé aðeins leyfilegt kringum áramót og strax eftir sumarfrí. Því hafa verið útbúin eyðublöð þar sem sækja þarf skriflega um breyttan vistunartíma með hálfsmánaðarfyrirvara, og einnig er settur sá fyrirvari að bið getur skapast eftir lengdum vistunartíma ef ekki er nægilegt starfsfólk til staðar. Þetta verður kynnt í nýrri útgáfu foreldrahandbókar.
- c. Einnig var rætt um að mikið væri um að börn komi í leikskólann löngu eftir að vistunartími þeirra hefst á morgnana. Þetta veldur óþægindum, til að mynda varðandi matartíma og vettvangsferðir, og verður því tilkynnt til foreldra að sé barnið ekki komið klukkutíma eftir að vistunartími þess hefst sé ekki gert ráð fyrir því þann dag, t.d. er ekki beðið með gönguferðir eða hægt að treysta á að nægur matur sé til staðar. Verður bent á þetta í foreldrahandbók.
- d. Þá má geta þess að ákvæði barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu hefur verið sett inn í foreldrahandbókina.
- e. Ásdís nefndi að ólíklegt væri að af yrði þeirri breytingu sem nefnd hefur verið að færa elstu leikskólabörnin upp í grunnskóla, það er að segja 5 ára börn, enda væri það öfugþróun miðað við það sem væri að gerast í öðrum sveitarfélögum.
- f. Nú eru fjögur leikskólabörn væntanleg í aðlögun í leikskólanum fram að sumarfríi og síðan fjögur fljótlega eftir sumarfrí. Þar með verður búið að taka inn öll börn sem eiga umsóknir og eru þetta einkum yngri börn en einnig börn sem eru að flytja á staðinn.
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:20.
Guðrún Guðfinnsdóttir (sign) Kristín Sigurrós Einarsdóttir (sign)
María Mjöll Guðmundsdóttir (sign) Sigurrós Þórðardóttir (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign) Sigurður Marinó Þorvaldsson (sign)
Ásdís Leifsdóttir (sign)