Sveitarstjórn - 19. feb. 2008
Ár 2008 þriðjudaginn 19. febrúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Daði Guðjónsson og Ingibjörg Emilsdóttir varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Varaoddviti flutti tillögu um afbrigði við boðaða dagskrá að 10. liður verði fundargerð menningarmálanefndar og var hún samþykkt samhljóða. Varaoddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 10 töluliðum, sem var eftirfarandi:
1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Erindi frá nýju fyrirtæki í Strandabyggð, Óskaþrifum ehf.
3. Erindi frá Matthíasi Lýðssyni um fyrirkomulag við gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði.
4. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 22. janúar 2008.
5. Styrkbeiðni frá björgunarsveitinni Dagrenningu.
6. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um XXII landsþing sambandsins sem haldið verður 4. apríl 2008.
7. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og tónskólans á Hólmavík.
8. Erindi frá Sauðfjársetri á Ströndum um fyrirhugaðar endurbætur á Sævangi.
9. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um boð á málþing.
10. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Skýrsla sveitarstjóra.
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá framkvæmdum á Höfðagötu 3 en þegar er ein skrifstofa komin í notkun og afar stutt þar til tvær til viðbótar verða tilbúnar. Alls koma til með að verða 7 skrifstofur á annarri og þriðju hæð ásamt kaffistofu, snyrtingum og fundarherbergi. Þegar hafa 8 aðilar lýst áhuga á að fá aðstöðu í þessu nýja húsnæði en eftir er að ákveða leiguverð fyrir skrifstofurnar. Er lagt til að það verði 2.200 kr. pr. fermeter og yrði þá minnsta skrifstofan, sem er tæpir 9 fm. leigð út fyrir 19.250 kr. en sú stærsta sem er tæpir 20 fm. á kr. 42.280 kr. á mánuði. Innifalið í leiguverði eru þrif, rafmagn og hiti ásamt salernis- og kaffi- og fundaraðstöðu. Tillaga kom um 3.200 kr. á fm. og greiddu tveir atkvæði með tillögunni en þrír greiddu atkvæði á móti. Þá bar varaoddviti upp tillögu um að verðið á hvern fm. verði 2.200 kr. og greiddu þrír atkvæði með tillögunni en tveir greiddu atkvæði á móti. Már Ólafsson vildi láta bóka þá skoðun að með svo lágri leigu væri verið að fara illa með fjármuni sveitarfélagsins þar sem ekki kæmi tekjur upp í fjárfestinguna.
Þá er sagt frá því að engin lögreglubifreið var til staðar á Hólmavík í rúma 10 daga á meðan bifreiðin var í viðgerð og er það algerlega óviðunandi. Er það óverjandi að jafn mikilvægt öryggistæki skuli ekki vera til staðar beri t.d. slys að höndum. Þá getur lögreglan ekki sinnt störfum sínum við umferðareftirlit sem eykur hættu á hraðakstri þar sem hún er ekki sýnileg. Er lagt til að ályktun vegna þessa verði send lögreglustjóranum á Vestfjörðum sem og dómsmálaráðherra. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Þá er að lokum greint frá því að Golfklúbburinn á Hólmavík hefur óskað eftir því að hitta sveitarstjórn til að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir og framtíðarhugmyndir þeirra fyrir golfvöllinn. Er lagt til að fundurinn verði 21. febrúar kl. 17: 00 á skrifstofu sveitarfélagsins.
2. Erindi frá nýju fyrirtæki í Strandabyggð, Óskaþrifum ehf.
Borist hefur erindi dags. 11. febrúar 2008 frá Óskaþrifum ehf. sem er nýstofnað fyrirtæki sem mun bjóða hreingerningaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Sveitarstjórn fagnar þessu framtaki og óskar þeim velfarnaðar í starfi.
3. Erindi frá Matthíasi Lýðssyni um fyrirkomulag við gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði.
Borist hefur erindi dags. 5. febrúar 2008 frá Matthíasi Lýðssyni ásamt afriti af bréfi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga vegna gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði. Þar sem Matthías var tilnefndur í undirbúningshóp f.h. Strandabyggðar óskar hann eftir skipunarbréfi ásamt nánari útlistun um framkvæmd verkefnisins.
Sveitarstjórn Strandabyggðar vísar erindinu til Fjórðungssambandsins þar sem umræddur hópur mun vinna undir stjórn þess og verður öll skipulagning og greiðsla kostnaðar í höndum þess. Þá er sveitarstjóra falið að svara spurningum um vilja sveitarstjórnar til að vinna sameiginlegt svæðisskipulag á Vestfjörðum og helstu áherslumál í því sambandi í samræmi við umræður.
4. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 22. janúar 2008.
Borist hefur erindi dags. 29. janúar 2008 ásamt fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 22. janúar 2008. Lagt fram til kynningar.
5. Styrkbeiðni frá björgunarsveitinni Dagrenningu.
Borist hefur styrkbeiðni dags. 13. febrúar 2008 frá björgunarsveitinni Dagrenningu þar sem greint er frá starfsemi sveitarinnar og tækjakaupum og þess farið á leit að sveitarfélagið veiti henni styrk. Samþykkt var samhljóða að veita styrk að fjárhæð 500.000 kr.
6. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um XXII landsþing sambandsins sem haldið verður 4. apríl 2008.
Borist hefur erindi dags. 6. febrúar 2008 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem kynnt er fyrirhugað landsþing sambandsins þann 4. apríl nk. Lagt fram til kynningar.
7. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og tónskólans á Hólmavík.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð skólanefndar Grunn- og tónskólans á Hólmavík frá 14. febrúar 2008. Undir liðnum önnur mál er komið með tillögu um vinnuhóp vegna fyrirhugaðra lagfæringa á skólalóð og bar varaoddviti upp tillögu um Jón Gísla Jónsson sem fulltrúa Strandabyggðar og var það samþykkt samhljóða. Var fundargerðin borin undir atkvæði og var hún samþykkt með 4 greiddum atkvæðum en einn sat hjá.
8. Erindi frá Sauðfjársetri á Ströndum um fyrirhugaðar endurbætur á Sævangi.
Borist hefur erindi frá Sauðfjársetri á Ströndum dags. 11. febrúar 2008 þar sem tilkynnt er um fyrirhugaðar endurbætur á Sævangi sem kosta munu meir en 1.500.000 kr. Verður send ítarleg kostnaðaráætlun og fyrirhuguð fjármögnun til verksins á næstu mánuðum. Lagt fram til kynningar.
9. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um boð á málþing.
Borist hefur erindi dags. 14. febrúar 2008 frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem vakin er athygli á málþingi um stóriðnað á Vestfjörðum. Verður það haldið dagana 23. og 24. febrúar nk. í félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal fyrri daginn en Edinborgarhúsinu á Ísafirði seinni daginn. Mun málþingið hefjast kl. 10:45 báða dagana og er opið öllum þeim er áhuga hafa. Lagt fram til kynningar.
10. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar.
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar frá 7. febrúar 2008. Áskorun nefndarinnar um að hækka fjárframlag upp í 1,5 millj. kr. var rædd og bar varaoddviti upp tillögu um að fjárframlagið hækki í 1,3 millj. kr. og var hún samþykkt með þremur greiddum atkvæðum en einn greiddi atkvæði á móti og einn sat hjá. Fundargerðin var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 19:10.