A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 20. maí 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 20. maí var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Jón Stefánsson, Ásta Þórisdóttir varamaður og Eysteinn Gunnarsson varamaður. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:


Varaoddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um að 11 liðurinn yrði tekinn á dagskrá og var það samþykkt.  Varaoddviti kynnti þá dagskrá fundarins í 11 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Tillaga um sameiginlegt eldvarnareftirlit sveitarfélaga í Strandasýslu og Reykhólahreppi.
3. Erindi frá Þórarni Magnússyni um stofnun Steinshúss ses.
4. Kaup á nýrri skólarútu fyrir Strandabyggð.
5. Erindi frá leigusölum leigulóðar grunnskólans á Broddanesi.
6. Tilhögun skólaaksturs í Ísafjarðardjúpi skólaárið 2008-2009.
7. Erindi frá Félags- og tryggingamálaráðuneyti um "dag barnsins".
8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 15. maí 2008.
9. Samþykkt Héraðsnefndar Strandasýslu á aðalfundi þann 28. apríl 2008.
10. Fundargerð Skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík dags. 23.04.2008.
11. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 19. maí 2008.


Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá því að Sigríður D. Þórólfsdóttir mun sjá um vinnuskólann sumarið 2008 en hún sá um skólann árið 2006. 

Þá er greint frá fundi sveitarstjóra og framkvæmdastjóra Hamingjudaga á óformlegum fundi þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er varða hátíðina. Var fundurinn mjög góður og tókst að leysa úr ýmsum málum sem upp hafa komið síðustu vikur. Er líklegt að framkvæmdastjórinn fái inni hjá Þróunarsetrinu til að undirbúa ljósmyndasýningu þar sem til sýnis verða gamlar ljósmyndir frá Hólmavík. 

Þá átti undirrituð samtal við Jón Hörð Elíasson um viðgerðir á götum hér í bæ og tók hann vel í þá beiðni. Var sérstaklega beðið um að athuga hvort hægt væri að lagfæra götuna í Austurtúninu þar sem djúpar dældir eru því þar myndast pollar. Ætlar Jón Hörður að athuga hvort einhverjar lausnir eru á því dæmi. 

Eins er sagt frá því að gera þarf upp hug sinn hvort bjóða eigi slátt út eða kaupa sláttuvélar og sjá um sláttinn sjálf líkt og undanfarin ár. Vandkvæði hefur verið með að fá mannskap í sláttinn undanfarin tvö ár og kom uppástunga um að kanna hjá Óskaþrifum hvort þeir taki garðslátt að sér í sumar. Er þá verið að tala um sér tilgreind svæði s.s. tjaldsvæði, Kirkjuhvamm, hjá Galdrasafni, hjá Íþróttamiðstöð, Stefáni frá Hvítadal o.fl. Talið er sjálfsagt að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka umrætt verk að sér.  

Þá er greint frá því að verið er að endurskoða bókhald þessa dagana og hafa Kristján Jónasson og Una Sigurðardóttir dvalið hér í síðustu viku  við endurskoðun. Er lögð mikil áhersla á að gerð ársreiknings verði lokið fyrir byrjun júní og hægt verði að afgreiða ársreikninga fyrir miðjan júní. 

Að endingu er sagt frá fundi sem haldinn var með stjórn mótorkrossfélags Geislans þar sem farið var yfir verkefnastöðuna, fjárþörf og verklok við gerð torfærubrautar. Er stjórnin mjög öflug og heldur vel utan um mál félagsmanna sem nú telja 24 einstaklinga. Fyrirhugað er að vera með lokað mót á Hamingjudögum og því stefnt á að ljúka brautinni fyrir þann tíma. Er áætlað að eftir sé að framkvæma fyrir tæpar 2,2 millj. kr. Telja þeir að um 1.000.000 kr. styrkur frá sveitarfélaginu hjálpi þeim til að ljúka framkvæmdum við brautina en inn í þeirri tölu er ekki húsnæði eða aðstaða undir starfsemina. Hafa þeir farið þess á leit við Flugstoðir að þeir selji þeim húsnæðið við flugvöllinn að undanskildum turninum. Hafa þeir enn ekki fengið svar við því.


2. Tillaga um sameiginlegt eldvarnareftirlit sveitarfélaga í Strandasýslu og Reykhólahreppi. 
Borist hefur erindi frá framkvæmdastjóra héraðsnefndar Strandasýslu dags. 29. apríl 2008 þar sem óskað er eftir afgreiðslu sveitarstjórnar á tillögu um sameiginlegt eldvarnareftirlit sveitarfélaga í Strandasýslu og Reykhólahreppi.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka þátt í verkefninu fyrir sitt leyti fáist nægjanleg þátttaka frá öðrum sveitarfélögum.


3. Erindi frá Þórarni Magnússyni um stofnun Steinshúss ses. 
Borist hefur tillaga frá Þórarni Magnússyni um samþykktir fyrir sjálfseignastofnunina Steinshús ses. þar sem gert er ráð fyrir að Strandabyggð verði einn af stofnendum og leggi fram sem stofnfé eignarhlut sinn í félagsheimilinu að Nauteyri sem nemur 70%, en Kvenfélag Nauteyrarhrepps og Ungmennafélagið Djúpverji leggi hvort um sig 15% eignarhlut sinn í félagsheimilinu. Tilgangur með stofnun Steinshúss er að annast uppbyggingu og rekstur minningar-, menningar- og fræðasetur skáldsins Steins Steinarrs og efla menningarviðburði í tengslum við starfsemi hússins. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu og verða stofnendur að Steinshúsi ses.


4. Kaup á nýrri skólarútu fyrir Strandabyggð. 

Búið er að skoða ýmsa kosti varðandi endurnýjun á skólarútu í stað þeirrar sem hefur verið í notkun frá árinu 2003. Sé Vario rútan skoðuð þá kostar hún 7 milljónir ef hún er ekki fjórhjóladrifin en 7,5 sé hún með fjórhjóladrifi.  Þá er eftir að setja sæti og brautir í rútuna og fullbúin kemur hún til með að kosta tæpar 12 millj. kr. með öllu.  Sprinter kostar 11,2 millj. kr. án virðisauka og er þá miðað við gengið 115 kr./€.  Hægt er að fá 18 sæta Ford Transit bifreið sem er til afgreiðslu strax og er kaupverð 5.178 þús. kr. en samkvæmt sölumanni er hægt að koma verðinu niður fyrir 5 millj.kr.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kaupa Ford Transit og setja núverandi skólarútu á sölu um leið og skóla lýkur.


5. Erindi frá leigusölum leigulóðar Grunnskólans á Broddanesi. 
Borist hefur bréf dags. 7. mars 2008 frá eigendum leigulóðar grunnskólans á Broddanesi þar sem þeir telja að lóðaleigusamningur, sem gerður var á sínum tíma, falli úr gildi eða verði riftanlegur verði skólabyggingin seld. Óska leigusalar eftir því að þeir fái upplýsingar um á öllum stigum máls hverjar fyrirætlanir sveitarfélagsins séu og unnið sé í samvinnu um lausn málsins. Telja þeir jafnvel koma til greina að þeir leysi til sín umrædda byggingu. 

Það er samdóma álit lögfræðinga í menntamálaráðuneytinu að umræddur lóðaleigusamningur sé óuppsegjanlegur þar sem ekki er kveðið á um í samningnum að ekki megi nýta lóðina í annað breytast forsendur fyrir skólahaldi á staðnum. Hins vegar er kveðið skýrt á um það, án nokkurra kvaða eða fyrirvara, að lóðaleigusamningurinn sé óuppsegjanlegur eftir að framkvæmdir séu hafnar. Að því sögðu lýsir sveitarstjórn yfir fullum vilja til að vinna að lausn málsins í fullri samvinnu við eigendur lóðarinnar enda skilningur á hagsmunum þeirra.


6. Tilhögun skólaaksturs í Ísafjaröardjúpi skólaárið 2008-2009. 
Búið er að fara yfir kostnað sveitarfélagsins við rekstur skólabifreiðar árin 2005/2006 og 2006/2007 og núvirða þann rekstrarkostnað. Taldar eru tvær leiðir til lausnar á skólaakstrinum og eru þær á þá leið að sveitarfélagið sjái um rekstur bifreiðarinnar og ráða foreldra í Djúpi til aksturs eða ganga til samninga við foreldra í Djúpi um að sjá um aksturinn gegn greiðslu en þeir leggi til ökutæki. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við foreldra í Djúpi um aksturinnskólaárið 2008-2009.


7. Erindi frá Félags- og tryggingamálaráðuneyti um "dag barnsins". 
Borist hefur bréf dags. 2. maí 2008 frá Félags- og tryggingamálaráðuneyti um "dag barnsins" sem haldinn verður 25. maí 2008. Er falast eftir því að sveitarstjórn tilnefni tengilið til að vera í sambandi við framkvæmdanefnd um hvernig halda má daginn hátíðlegan með þátttöku fjölskyldunnar. Samþykkt var samhljóða að tilnefna Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur sem tengilið.


8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 15. maí 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 15. maí 2008. Taka ber fram undir 5. lið í fundargerðinni að sótt er um stækkun lóðar til vesturs um ca. 3 metra samkvæmt teikningu og var það samþykkt samhljóða. Þá var borin upp tillaga við lið H undir liðnum önnur mál að fresta niðurrifi á vatnstanki en að flýtt verði að fjarlægja klæðningu utan um hann þar sem hún veldur mikilli slysahættu. Var tillagan samþykkt samhljóða. Að öðru leyti var fundargerðin samþykkt samhljóða.


9. Samþykkt Héraðsnefndar Strandasýslu á aðalfundi þann 28. apríl 2008. 
Borist hefur samþykkt frá Héraðsnefnd Strandasýslu frá aðalfundi sem haldinn var 28. apríl 2008 og er hún eftirfarandi: "Aðalfundur Héraðsnefndar Strandasýslu haldinn á Hólmavík 28. apríl 2008 óskar Strandabyggð og Strandamönnum öllum til hamingju með nýtt þróunarsetur á Hólmavík. Héraðsnefnd telur aðstöðuna sem þarna er sköpuð vera Strandabyggð og öðrum þeim sem að framkvæmdinni komu til mikils sóma.  Þróunarsetrið markar tímamót varðandi athvinnusköpun á svæðinu. Með tilkomu þess eru áréttaðir möguleikar á fjölbreyttari atvinnutækifærum og vörn snúið í sókn. Nú liggur leiðin bara áfram." Lagt fram til kynningar.


10. Fundargerð Skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík dags. 23. apríl 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík dags. 23. apríl 2008. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.


11. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 19. maí 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar frá 19. maí 2008. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerðin lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 19:15.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón