Sveitarstjórn - 23. júní 2009
Ár 2009 þriðjudaginn 23. júní var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 6 töluliðum, sem var eftirfarandi:
- 1. Skýrsla sveitarstjóra.
- 2. Beiðni um umsögn um umsókn um tímabundið áfengisleyfi.
- 3. Styrkbeiðni vegna Norrænu samspilsdaganna á Hólmavík.
- 4. Beiðni vegna Friðarhlaupsins á Hólmavík 9. júlí 2009.
- 5. Umsókn um rannsóknarleyfi á kalkþörungum á hafsbotni Húnaflóa.
- 6. Fundargerðir menningarmálanefndar Strandabyggðar.
Þá var gengið til dagskrár.
- 1. Skýrsla sveitarstjóra. Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá því að húsnæðið að Austurtúni 8 verði laust til umsóknar nú um mánaðarmótin en fjórir umsækjendur hafa sótt um íbúðina, þau Ásta Þórisdóttir og Gunnar B. Melsted, Hlíf Hrólfsdóttir, Gunnar Bragi Magnússon og Aðalbjörg Guðbrandsdóttir. Aðrir umsækjendur, sem hafa átt umsókn inni en ekki staðfest að þeir vilji endurnýja umsóknina, verða ekki teknir til greina. Lagt er til að Ásta Þórisdóttir og Gunnar B. Melsted verði úthlutað húsnæðinu og var það samþykkt með þremur greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá. Þá er greint frá því að samkvæmt tölvupósti frá Ómari M. Jónssyni, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, er ætlunin að samþykkja auknar greiðslur til Strandabyggðar vegna aksturs skólabarns frá Svansvík. Hafði undirrituð samband við Þórð Halldórsson og spurði hann hvort enn stæði til boða að hann fengi sömu fjárhæð greidda og á síðasta ári og sagði hann svo vera. Að endingu er greint frá því að sendur var reikningur vegna leigu á húsnæði fyrir slökkvibifreið í Broddanesi að fjárhæð 120 þús. kr. ásamt tæpum 20 þús. kr. reikningi fyrir rafmagni. Er nauðsynlegt að tekin verði ákvörðun um hvort bifreiðin eigi að vera þarna til frambúðar eða hvort leitað verði annarra leiða. Samþykkt var að flytja bifreiða úr núverandi húsnæði og taka málið til athugunar.
- 2. Beiðni um umsögn um umsókn um tímabundið áfengisleyfi. Borist hefur beiðni frá Sýslumanninum á Hólmavík dags. 11. júní 2009 þar sem farið er fram á umsögn um umsókn um tímabundið áfengisleyfi fyrir Strandacafé ehf. helgina 3. - 5. júlí n.k. Sveitarstjórn telur það ekki við hæfi að veita heimild fyrir tímabundnu áfengisleyfi þar sem Hamingjudagar er fjölskylduhátíð.
- 3. Styrkbeiðni vegna Norrænu samspilsdaganna á Hólmavík. Borist hefur erindi frá Bjarna Ómari Haraldssyni dags. 10. júní þar sem hann fer þess á leit að Strandabyggð greiði 50 þús. til nemendafélags Grunnskólans og Ozon vegna leigu á hljómtækjum og hljóðkerfi. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
- 4. Beiðni vegna Friðarhlaupsins á Hólmavík 9. júlí 2009. Borist hefur erindi frá Friðarhlaupinu á Íslandi dags. 16. júní þar sem leitað er eftir þátttöku oddvita Strandabyggðar í hlaupinu á Hólmavík þann 9. júlí n.k. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu og mun oddvitinn taka þátt í Friðarhlaupinu.
- 5. Umsókn um rannsóknarleyfi á kalkþörungum á hafsbotni Húnaflóa. Borist hefur erindi frá Orkustofnun dags. 16. júní s.l. þar sem leitað er eftir umsögn sveitarfélagsins um umsókn Björgunar ehf. og Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. um rannsóknarleyfi á kalkþörungaseti á hafsbotni í Steingrímsfirði. Sveitarstjórn Strandabyggðar sér ekkert því til fyrirstöðu að gerð verði rannsókn á kalkþörungaseti í Steingrímsfirði.
- 6. Fundargerðir menningarmálanefndar Strandabyggðar. Lögð er fram til samþykktar fundargerð menningarmálanefndar Strandabyggðar frá 11. júní s.l. Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:45.