A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 24. nóv. 2009

Ár 2009 þriðjudaginn 24. nóvember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í  5 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga varðandi Félagsheimilið á Hólmavík.
  • 3. Erindi frá Umhverfisstofnun vegna refaveiða á uppgjörstímabilinu 1. september 2009 til 31. ágúst 2010.
  • 4. Fundargerð menningarmálanefndr Strandabyggðar dags. 15. október 2009.
  • 5. Ályktanir frá aðalfundi Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík dags. 29. október 2009.

 

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. a) Greint er frá fundi með skólastjóra Grunn- og Tónskólans þar sem farið var yfir helstu tillögur til sparnaðar fyrir skólaárið 2010-2011. Eftir er að reikna út hversu mikið sparast samkvæmt tillögunum en í fljótu bragði sýnist að hægt verði að ná fram sparnaði á bilinu 5 til 6 millj. kr. væru allar tillögurnar notaðar. Að beiðni stjórnenda eru tillögurnar trúnaðarmál uns ákvörðun hefur verið tekin um hvar verður sparað.

b)  Þá er greint frá því að hafnar eru framkvæmdir við gerð varnargarðs við bryggjuna og er búið að ganga frá samningum milli verktaka og verkkaupa.  Þá er frágengin bankatrygging vegna verksins og er það Landsbankinn á Akranesi sem veitti tryggingu fyrir verkinu.  Eins og venjulega sér starfsmaður Siglingastofnunar um framkvæmd og eftirlit fyrir verkkaupa og fylgir því eftir að verkið sé vel unnið.

c)  Að endingu er sagt frá málstofu reikningsskila- og upplýsingarnefndar Félagsmálaráðuneytisins sem haldin var fimmtudaginn 19. nóvember.  Farið var í eftirfarandi verkefni á málstofunni:  a) Færslur skuldbindinga í reikningsskilum sveitarfélaga,  b) innri viðskipti og viðskipti milli A og B hluta og c) mat á niðurstöðum ársreiknings/áætlunar.  

  • 2. Erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga varðandi Félagsheimilið á Hólmavík. Borist hefur erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga dags. 11. nóvember s.l. þar sem greint er frá tillögu sem tekin var á stjórnarfundi félagsins þann 10. nóvember og samþykkt var án athugasemda en tillagan er eftirfarandi: „Vegna eignarhlutar Verkalýðsfélags Vestfirðinga í Félagsheimilinu á Hólmavík sem er 8%, þá er lagt til að sá eignarhlutur okkar verði afhentur félagasamtökum Félagsheimilis Hólmavíkur til eignar ásamt peningagjöf að verðmæti kr. 250.000,-."

Sveitarstjórn þakkar höfðinglegt boð og samþykkir samhljóða að athuga stofnun slíks félags í samvinnu við aðra eigendur heimilisins.

  • 3. Erindi frá Umhverfisstofnun vegna refaveiða á uppgjörstímabilinu 1. september 2009 til 31. ágúst 2010. Borist hefur erindi frá Umhverfisstofnun dags. 5. nóvember 2009 þar sem greint er frá því að ekki verði um neinar endurgreiðslur af hálfu ríkisins vegna refaveiða á uppgjörstímabilinu 1. september 2009 til 31. ágúst 2010. Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega fyrirætlan ríkisstjórnarinnar og krefst þess að sett verði fjármagn til þessa málaflokks enda verði ástandið fljótt skelfilegt leggist niður grenjavinnsla og vetrarveiði á refum.
  • 4. Fundargerð menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 15. október 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð menningarmálanefndar Strandabyggðar frá 15. október 2009. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 5. Ályktanir frá aðalfundi Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík dags. 29. október 2009. Borist hafa ályktanir frá aðalfundi Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík sem haldinn var 29. október 2009 um að standa vörð um öflugt skólastarf í Grunn- og tónskóla Hólmavíkur, hlífa því við frekari niðurskurði og draga ekki úr þjónustu við nemendur, að leitað verði allra leiða til að endurnýja tölvukost skólans, að lokið verði við frágangi skólalóðar og eðlilegu viðhaldi leikvallar sinnt og að gengið verði frá þakkassa á viðbyggingu skólans. Samþykkt er samhljóða að vísa ályktum Foreldrafélagsins til fjárhagsáætlunar.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:35.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón