A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 27. apríl 2010

 

Ár 2010 þriðjudaginn 27. apríl var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:  Oddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um að 12. og 13. liðurinn yrðu teknir inn á dagskrá og var það samþykkt.  Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í  13 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Erindi frá Victori Erni Victorssyni.
  • 3. Beiðni frá Sýslumanninum á Hólmavík um umsögn um umsókn um rekstrarleyfi.
  • 4. Erindi frá Sævari Benediktssyni og Elísabetu Pálsdóttur vegna uppsagnar á leigulóð í landi Strandabyggðar.
  • 5. Erindi frá Magnúsi Gústafssyni og Röfn Friðriksdóttur vegna lóðarinnar að Hafnarbraut 17.
  • 6. Fundargerð Menningarmálanefndar dags. 7. apríl 2010.
  • 7. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 15. apríl 2010.
  • 8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 14. apríl 2010.
  • 9. Fundargerð Menningarmálanefndar dags. 21. apríl 2010.
  • 10. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 16. apríl 2010.
  • 11. Erindi frá stjórn Þróunarsetursins á Hólmavík dags. 21. apríl 2010.
  • 12. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða dags. 23. apríl 2010 um tillögur starfshóps vegna tilflutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
  • 13. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða dags. 23. apríl 2010 um menningarsamning ríkis og sveitarfélaga fyrir árið 2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. a) Greint er frá því í skýrslu sveitarstjóra að borist hefur tilboð frá Þjóðfræðistofu varðandi hugsanlega bók um skólahald á Hólmavík vegna 100 ára afmælis Grunnskólans. Hljóðar tilboðið upp á 5.066.445 kr. og er þá gert ráð fyrir gagnaöflun, úrvinnslu og skrif ásamt því að leggja til alla skrifstofuaðstöðu og tækja- og tölvubúnað. Sveitarstjórn telur ekki tímabært að fara í útgáfu bókarinnar sem stendur. b) Þá er greint frá því að Bjarni Ómar hefur verið að leita eftir tilboðum í hljóðkerfi þar sem núverandi kerfi er orðið afar lélegt og ræður ekki við stærri verkefni eins og berlega kom í ljós við uppsetningu á Grease. Þá hefur sveitarfélagið þurft að leigja hljóðkerfi þegar stærri viðburðir eru s.s. eins og Hamingjudagar og kostar slík leiga ásamt manni 350 þús. kr. í það minnsta. Lagði hann fram tvö tilboð í hljóðkerfi, það ódýrara getur sinnt þeim verkefnum s.s. bæjarhátíðinni ofl. en hann telur dýrara kerfið þó enn betri kost sem geti þar að auki skapað tekjur fyrir sveitarfélagið yrði það leigt út með manni. Sveitarstjórn vill athuga málið betur. c) Þá er sagt frá því að búið er að funda með forstöðumanni Íþróttamiðstöðvar um að sett verði upp sýningin "Stefnumót á Ströndum" í íþróttasalnum. Er áætlað að opna sýninguna 17. júní og hún standi fram yfir miðjan ágúst. Bannað verður að fara inn á skóm en þeir sem erfitt eiga, vegna aldurs eða veikinda, að verða við því geta fengið skóhlífar sem verða til staðar. Þá mun Upplýsingamiðstöðin verða flutt í Íþróttamiðstöðina þetta árið og hún samrekin að einhverju leyti með miðstöðinni en með umsjónarmanni. d) Þá er sagt frá því að sveitarstjóri fór í kynningarferð um Norðurland Vestra, Dalvík og Akureyri til að fræðast um hvernig þessi sveitarfélög hafa leyst sín á milli verkefni um málefni fatlaðra en stefnt er að því að sveitarfélög taki þann málaflokk alfarið að sér næstu áramót. Hafa Akureyri annars vegar og sveitarfélög í Skagafirði og Húnavatnssýslum hins vegar verið með samning við ríkið um rekstur þessa málaflokks í meira en tíu ár og því reynsla komin á ýmsar leiðir varðandi samvinnu. Húnvetningar og Skagfirðingar hafa t.d. leyst málin sín á milli með byggðasamlagi með dreifðri þjónustu sem hefur gefið mjög góða raun og góð samstaða og samvinna á milli þeirra sveitarfélaga sem að samlaginu standa. Hins vegar er þjónustan keypt af Akureyrarbæ og finnst minni sveitarfélögum það í lagi en Dalvík t.d. sem rekur félagsþjónustu finnst þetta fyrirkomulag afar slæmt og hefur ákveðið að sækja um að komast í byggðasamlag Skagfirðinga og Húnvetninga. Eftir að hafa kynnt sér málin telur undirrituð að farsælast sé það fyrirkomulag að rekið sé byggðasamlag með dreifðri þjónustu líkt og hjá Húnvetningum og Skagfirðingum og býður það upp á þann möguleika að byggja upp félagsþjónustu og skólaskrifstofu hér á svæðinu náist samvinna við nágrannasveitarfélögin um verkefnið. e) Að endingu er greint frá fundi sveitarstjóra með Kristjáni Haraldssyni og Sölva Sólbergssyni til að ræða við þá um Hveravíkina og möguleika á hitaveitu hér á Hólmavík. Var málið rætt vítt og breytt en fram kom í máli þeirra að eftir að hafa skoðað dæmið taldi Orkubúið að ekki væri arðsamt að koma slíkri veitu á fót þar sem ljóst væri að kostnaðurinn fyrir neytandann yrði síst minni en hann nú er en stefna þeirra er að taka þátt í svona framkvæmdum sé það hagstæðara fyrir neytandann. Sagðist Kristján vera tilbúinn að skoða málið með sveitarstjórn en þá þyrfti að byrja á því að láta óháða verkfræðistofu fara yfir málið og skoða kostnað frá upphafi til enda. Myndi Orkubúið greiða þá helmings þess kostnaðar og sveitarfélagið helming. Þá taldi Kristján að sá kostnaður við að koma lögninni um Hólmavík væri mun meiri en fram kemur í skýrslunni þar sem um er að ræða klappir og grýttan jarðveg sem og fá hús við hverja götu. Þá voru málefni Nauteyrar og Þiðriksvalla rædd lauslega og stefnt á að halda fund með landeigendum með m.a. hugsanlega virkjunarmöguleika í huga. Verða mál áfram skoðuð og haft samband við Ísor til að fá viðbóta upplýsingar varðandi hugsanlega hitaveitu.
  • 2. Erindi frá Victori Erni Victorssyni. Borist hefur bréf frá Victori Erni Victorssyni dags. 6. apríl 2010 þar sem hann segir upp stöðu sinni sem skólastjóri við Grunn- og Tónskólann á Hólmavík. Þakkar hann öllum sem að skólastarfinu koma fyrir gott og ánægjulegt samstarf á starfstíma sínum. Sveitarstjórn þakkar Victori Erni Victorssyni fyrir vel unnin störf og gott samstarf á liðnum árum og óskar honum alls hins besta á nýjum starfsvettvangi.
  • 3. Beiðni frá Sýslumanninum á Hólmavík um umsögn um umsókn um rekstrarleyfi. Borist hefur beiðni frá Sýslumanninum á Hólmavík dags. 17. mars 2010 um umsögn um umsókn um rekstrarleyfi vegna reksturs gististaðar að Snartartungu. Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti umsóknina og hefur ekkert við hana að athuga.
  • 4. Erindi frá Sævari Benediktssyni og Elísabetu Pálsdóttur vegna uppsagnar á leigulóð í landi Strandabyggðar. Borist hefur erindi frá Sævarai Benediktssyni og Elísabetu Pálsdóttur dags. 8. apríl 2010 vegna uppsagnar á leigulóð í landi Strandabyggðar. Fara þau þess á leit að fá skriflega útskýringu á ástæðu uppsagnarinnar og jafnframt óska þess að uppsögnin verði dregin til baka. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu.
  • 5. Erindi frá Magnúsi Gústafssyni og Röfn Friðriksdóttur vegna lóðarinnar að Hafnarbraut 17. Borist hefur erindi frá Magnúsi Gústafssyni og Röfn Friðriksdóttur dags. 19. apríl 2010 þar sem þau fara þess á leit að sveitarfélagið kaupi eignarlóð þeirra að Hafnarbraut 17 semjist um verð. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka jákvætt í erindið og að byrjað verði að kanna verðmat lóðarinnar.
  • 6. Fundargerð Menningarmálanefndar dags. 7. apríl 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar frá 7. apríl 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 7. Fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 15. apríl 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 15. apríl 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða og aðstandendum sýningarinnar Grease óskað innilega til hamingju með sýninguna.
  • 8. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 14. apríl 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar dags. 14. apríl 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða með fyrirvara um að þriðji liður verði skoðaður nánar.
  • 9. Fundargerð Menningarmálanefndar dags. 21. apríl 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar frá 21. apríl 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 10. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 16. apríl 2010. Borist hefur fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 16. apríl 2010. Lagt fram til kynningar.
  • 11. Erindi frá stjórn Þróunarsetursins á Hólmavík dags. 21. apríl 2010. Borist hefur erindi frá stjórn Þróunarsetursins á Hólmavík frá 21. apríl 2010 þar sem lagt er til að efnt verði til sérstaks verkefnis yfir sumarmánuðina 2010 um að námsmenn og aðrir sem eru að vinna við náms- eða nýsköpunarverkefni, þróunar- eða rannsóknarverkefni, geti fengið endurgjaldslausa aðstöðu í Þróunarsetrinu. Er lagt til að Námsverið sem og lausar skrifstofur verði nýttar undir slíka starfsemi. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
  • 12. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða dags. 23. apríl 2010 um tillögur starfshóps vegna tilflutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Borist hefur erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða dags. 23. apríl 2010 um tillögur starfshóps vegna tilflutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Lagt er til af starfshópi að unnið verði að því að byggja upp byggðasamlag með dreifðri þjónustu og samþykkir sveitarstjórn samhljóða tillögu starfshópsins.
  • 13. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða dags. 23. apríl 2010 um menningarsamning ríkis og sveitarfélaga fyrir árið 2010. Lagður er fram nýr menningarsamningur milli ríkis og sveitarfélaga á Vestfjörðum fyrir árið 2010. Helstu breytingar frá fyrra samningi eru þær að samningurinn gildir einungis í eitt ár, fjárframlög ríkis og sveitarfélaga lækka um 20% milli ára og fækkað er um tvo fulltrúa í menningarráði sem telur þá fimm fulltrúa í stað sjö. Samningurinn er samþykktur samhljóða.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:45.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón