A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 2. júní 2010

Ár 2010 miðvikudaginn 2. júní var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert: Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 6 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Ársreikningur Strandabyggðar árið 2009, seinni umræða.
  • 3. Erindi frá stjórn Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.
  • 4. Beiðni frá íbúum Hafnarbrautar 18 og 20 um að Fiskislóð verði lokuð fyrir umferð.
  • 5. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 27. maí 2010.
  • 6. Erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu vegna byggðakvóta Strandabyggðar fiskveiðiárið 2009/2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. a) Borist hefur minnisblað vegna launasamninga skólastjóra og aðstoðarskólastjóra þar sem fram eru settar hugmyndir um launakröfur nýrra stjórnenda skólans. Samþykkt er að ganga til samninga við skólastjórnendur en bjóða einum launaflokk minna en farið er fram á. b) Borist hefur meðfylgjandi svar frá Óla E. Björnssyni vegna endurútgáfu á Hólmavíkurbókinni. Í samtali við undirritaða kom fram að búið er að leggja niður Ísafoldarprentsmiðju fyrir allmörgum árum og týndust þá 500 prentuð eintök sem ekki var búið að binda inn. Samþykkt er að endurútgefa bókina verði kostnaður viðráðanlegur. c) Eigendur Hafnarbrautar 17 gera gagntilboð við tilboði sveitarstjórnar vegna kaupa á eignarlóð þeirra að Hafnarbraut 17 og samþykkt samhljóða að gera gagntilboð í samræmi við umræður.
  • 2. Ársreikningur Strandabyggðar árið 2009, seinni umræða. Eftir nokkrar umræður þar sem farið var yfir helstu kennitölur lagði oddviti reikninginn til samþykktar og var hann samþykktur samhljóða.
  • 3. Erindi frá stjórn Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna. Borist hefur erindi frá stjórn Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna dags. 17. maí 2010 þar sem lagðar eru fram af stjórn safnsins nokkrar tillögur um framtíðarskipulag safnsins. Samþykkt er samhljóða að halda fyrri samþykkt sveitarstjórnar um að segja sig frá rekstri safnsins og tekur hún því ekki afstöðu til tillagna stjórnarinnar.
  • 4. Beiðni frá íbúum Hafnarbrautar 18 og 20 um að Fiskislóð verði lokuð fyrir umferð. Borist hefur erindi frá íbúum Hafnarbrautar 18 og 20 þar sem farið er þess á leit að Fiskislóð verði lokuð fyrir umferð vegna rykmengunnar. Samþykkt er samhljóða að hafna erindinu en leita frekar leiða til að rykbinda betur göturnar og þau svæði sem að þeim liggja með salti.
  • 5. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 27. maí 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 27. maí 2010. Sveitarstjórn vill láta bóka eftirfarandi: „Fyrir fundinum lá greinargerð, umhverfisskýrsla, sveitarfélagsuppdráttur og þéttbýlisuppdráttur Aðalskipulags Strandabyggðar 2010 - 2022. Einnig lá fyrir fundinum fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar frá 27. maí 2010. Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd leggur til að auglýst verði tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir 2010-2022, sbr. 18. gr. skipulagslaga nr. 73/1997. Sveitarstjórn ræddi fyrirliggjandi gögn og samþykkti að auglýsa skipulagið." Fundargerðin er samþykkt með eftirfarandi breytingum: Að lið 5 um umsókn um lóð í landi Stóru-Grundar verði breytt og gerður verði lóðarsamningur við umsækjanda, að lið b) undir liðnum önnur mál verði breytt á þann veg að samþykkja að heimila bil milli gáma í u.þ.b. 60 cm. og að lið nr. f undir liðnum önnur mál verði hafnað.
  • 6. Erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu vegna byggðakvóta Strandabyggðar fiskveiðiárið 2009/2010. Borist hefur bréf frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu dags. 28. maí 2010 vegna byggðakvóta Strandabyggðar fiskveiðiárið 2009/2010 þar sem farið er þess á leit við sveitarstjórn að hún sendi inn nýjar tillögur um úthlutunarreglur fyrir byggðakvóta fiskveiðiársins 2009/2010 þar sem skipting kvótans verði 50% jöfn skipti milli hæfra umsækjenda og 50% eftir lönduðum afla. Már Ólafsson og Jón Stefánsson véku af fundi við afgreiðslu málsins. Samþykkt var samhljóða að verða við erindi ráðuneytisins og senda inn nýja tillögu til ráðuneytisins.

 

Oddviti þakkar sveitarstjórn gott og skemmtilegt samstarf á liðnum árum og óskar nýrri sveitarstjórn velfarnaðar á næsta kjörtímabili. Tóku allir fundarmenn undir þakkirnar. Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:10.
 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón