A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1322 í Strandabyggð 14. september 2021

Sveitarstjórnarfundur nr. 1322 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. september 2021 í Hnyðju, Höfðagötu 3, og hófst kl. 16:02. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson, Ásta Þórisdóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð. Gestur fundarins var Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

1. Staða sveitarfélagsins 31. ágúst 2021
2. Ósk um leyfi frá sveitarstjórnarstörfum
3. Fyrirkomulag við framkvæmdastjórn sveitarfélagsins
4. Viðauki II við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2021
5. Erindi frá Vegagerðinni um skilavegi dags. 3. sept. 2021
6. Samningur um skólamáltíðir við Café Riis
7. Valkostagreining um sameiningu sveitarfélaga
8. Kjörskrá vegna alþingiskosninga 25. sept. 2021
9. Samstarfssamningur við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands
10. Framkvæmdir við Staðarkirkjugarð
11. Fyrirspurn frá Þorgeiri Pálssyni varðandi viðskipti Strandabyggðar við Trésmiðjuna Höfða
12. Skipun fulltrúa í vinnuhóp um endurskoðun aðalskipulags Strandabyggðar
13. Breyting á kjörstjórn Strandabyggðar
14. Umsögn Strandabyggðar vegna sölu á jörðinni Neðri-Bakka
15. Fundargerð Fræðslunefndar frá 9. september 2021
16. Fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 17. ágúst 2021
17. Boð á Fjórðungsþing Vestfirðinga 22.-23. október 2021
18. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 26. ág. 2021
19. Fundargerð 436. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, frá 20. ágúst 2021
20. Fundargerð 900. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. ágúst 2021
21. Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dags. 1. sept. 2021, um breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar
22. Styrkbeiðni frá Ungmennafélaginu Geislanum, dags. 31. ágúst 2021
23. Umhverfing, kynning á myndlistarverkefni 2022
24. Forstöðumannaskýrslur


Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og spurði um athugasemdir við fundarboðið. Ekki voru gerðar athugasemdir. Oddviti kynnti þrjú mál sem hann óskaði eftir að yrði samþykkt að tekin yrðu fyrir sem afbrigði á fundinum. Var það samþykkt.


25. Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2022-2026
26. Beiðni til sveitarfélagsins um aðstöðu fyrir búnað sjóíþróttafélagsins Rán, dags. 13. sept.
27. Gjaldskrá Slökkviliðs Strandabyggðar frá desember 2020


Þá var gengið til dagskrár:


1. Staða sveitarfélagsins 31. ágúst 2021
Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri kynnti yfirlit um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins miðað við 31. ágúst 2021, hvað varðar framkvæmdir, tekjur og gjöld. Gott samræmi er á milli stöðu og áætlunar með viðaukum. Í upphaflegri áætlun fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir tapi á samstæðunni að upphæð 63,5 milljónir. Eftir þá viðauka sem samþykktir hafa verið á árinu er gert ráð fyrir tapi að upphæð 14,9 milljónir á samstæðunni. Sveitarstjórn þakkar Salbjörgu kærlega fyrir kynninguna.


2. Ósk um leyfi frá sveitarstjórnarstörfum
Borist hefur beiðni frá Eiríki Valdimarssyni, dags. 13. sept. 2021, um leyfi frá sveitarstjórnarstörfum í sveitarstjórn Strandabyggðar út kjörtímabilið af persónulegum ástæðum. Samþykkt samhljóða.


3. Fyrirkomulag við framkvæmdastjórn sveitarfélagsins
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir samhljóða að ekki verði ráðinn sveitarstjóri til starfa hjá Strandabyggð út kjörtímabilið. Áfram verður það fyrirkomulag haft að oddviti fer með hlutverk framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og sveitarstjórn vinnur að verkefnum í góðri samvinnu við skrifstofu sveitarfélagsins og annað starfsfólk Strandabyggðar.


4. Viðauki II við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2021
Svohljóðandi viðauki (nr. II) við fjárhagsáætlun Strandabyggðar lagður fram til samþykktar.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir viðauka vegna lækkunar útgjalda við skrifstofu sveitarfélagsins, vegna breytinga á starfsmannahaldi. Lækkun útgjalda vegna launa sveitarstjóra miðað við áætlun nemur 4.421.986.- Á móti kemur hækkun annars launakostnaðar að upphæð 1.421.986.- þannig að niðurstaðan er lækkun áætlunar um 3 milljónir á árinu 2021, úr 35 milljónum í 32 milljónir.

Viðaukinn samþykktur samhljóða.


5. Erindi frá Vegagerðinni um skilavegi dags. 3. sept. 2021
Lagt fram erindi frá Vegagerðinni um áframhaldandi viðræður um skilavegi á Hólmavík. Oddvita falið að óska eftir fundi með Vegagerðinni um málið og ganga frá samkomulagi.


6. Samningur um skólamáltíðir við Café Riis
Lögð fram drög að samningi um skólamáltíðir við Café Riis fyrir skólaárið 2021-2022. Samþykkt samhljóða. Ásta Þórisdóttir óskar eftir að bókað verði að það séu vonbrigði að ekki sé hægt að standa við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar að bjóða upp á grænkerafæði í skólum sveitarfélagsins.

Oddvita falið að ganga frá samningnum og undirrita hann.


7. Valkostagreining um sameiningu sveitarfélaga
Sveitarstjórn vill upplýsa íbúa um að RR-ráðgjöf hefur síðustu mánuði unnið að valkostagreiningu um sameiningu sveitarfélaga fyrir Strandabyggð. Vinnan er greidd af ráðuneyti sveitarstjórnarmála.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að halda íbúafund þar sem niðurstöður eru kynntar, þann 5. október næstkomandi kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Um er að ræða opinn fund sem einnig verður aðgengilegur til þátttöku í streymi, fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Fundurinn verði auglýstur hið fyrsta á vef sveitarfélagsins.


8. Kjörskrá vegna alþingiskosninga 25. sept. 2021
Kjörskrá vegna alþingiskosninga 25. sept. 2021 lögð fram til samþykkis hjá sveitarstjórn. Ekki voru gerðar breytingar á kjörskrárstofni. Kjörskrá mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma kl. 10-14, frá og með 15. september. Kjörstaður verður í Hnyðju, Höfðagötu 3, á Hólmavík.


9. Samstarfssamningur við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands
Sveitarstjórn fagnar samstarfssamningnum við Stofnun rannsóknasetra og felur oddvita að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.


10. Framkvæmdir við Staðarkirkjugarð
Gögn hafa ekki borist og málinu því frestað.


11. Fyrirspurn frá Þorgeiri Pálssyni varðandi viðskipti Strandabyggðar við Trésmiðjuna Höfða
Tekin var fyrir fyrirspurn frá Þorgeiri Pálssyni varðandi viðskipti Strandabyggðar við Trésmiðjuna Höfða síðastliðin 20 ár. Fyrirspurn Þorgeirs er svohljóðandi:


„Eftirfarandi spurningar eru settar fram þar sem svör sveitarstjórnar við spurningum mínum sem lagðar voru fyrir sveitarstjórnarfund þann 10. ágúst s.l. voru óskýr og ekki tæmandi, að mínu mati:


Vegna viðskipta við Trésmiðjuna Höfða:
1. Hver er árleg heildarupphæð sem Strandabyggð hefur greitt Trésmiðjunni Höfða fyrir hvers kyns verkefni, þjónustu, eða aðra hugsanlega samninga, sl. 20 ár. Mikilvægt er að upphæð hvers árs komi fram.


Vegna Grunnskóla:
1. Hver var heildarupphæð viðgerða við Grunnskólann?
2. Hver eru þau verkefni sem Trésmiðjan Höfði fékk eftir útboð
3. Hvaða ár
4. Hver var upphæð hvers þeirra
5. Hverjir aðrir buðu í umrædd verkefni
6. Hver var upphæð þeirra tilboða hvers fyrir sig?
7. Er endurbótaáætlun sem gerð var varðandi viðgerðir á grunnskólanum á árunum ca 2013-2021, aðgengileg?


Vegna Leikskóla:
1. Hver var heildarupphæð þeirrar vinnu sem Trésmiðjan Höfði fékk vegna vinnu við stækkun leikskólans Lækjarbrekku?
2. Hverjir aðrir buðu í verkið?
3. Hverjar voru upphæðir þeirra tilboða hvers fyrir sig?

Vinsamlegast staðfestið móttöku þessa pósts, takk. Ég óska eftir formlegu svari sveitarstjórnar.“


Svar sveitarstjórnar við þessum viðbótarfyrirspurnum er svohljóðandi:

 

„Sveitarstjórn telur að spurningum sem beint var til hennar á síðasta fundi hafi verið svarað bæði skýrt og greinilega og svörin hafi verið í fullu samræmi við þær spurningar sem bornar voru fram. Samkvæmt samantekt skrifstofustjóra Strandabyggðar er um eftirfarandi upphæðir að ræða:


Vegna viðskipta við Trésmiðjuna Höfða:

Á fundi sveitarstjórnar 10. ágúst 2021 kom fram að heildarupphæð greiðslna á tímabilinu sem spurt var um sé samtals 175.062.792.-


Upphæðin skiptist þannig niður á ár:
2005: 320.110.-, 2006: 930.878.-, 2007: 636.049.-, 2008: 3.967.249.-,
2009: 3.364.384.-, 2010: 10.832.850.-, 2011: 10.035.095.-, 2012: 9.196.739.-,
2103: 0.-, 2014: 589.695.-, 2015: 8.742.915.-, 2016: 47.465.028.-,
2017: 46.491.099.-, 2018: 12.556.692.-, 2019: 17.962.220.-, 2020: 1.989.789.-

Vegna grunnskóla:
1. Heildarupphæð viðgerða- og viðhaldsverkefna við Grunnskólann á Hólmavík á tímabilinu er kr. 20.323.604.-

2.-6. Eins og fram kom í svari sveitarstjórnar við fyrri fyrirspurn Þorgeirs á fundi 10. ágúst síðastliðinn hafa viðgerða- og viðhaldverkefni við Grunnskólann á Hólmavík ekki verið boðin út. Sveitarstjórn skilur fyrirspurnina þannig að þessir liðir eigi við um útboðsverkefni.

7. Endurbótaáætlun sem gerð var varðandi viðgerðir á Grunnskólanum er vinnuskjal sem er aðgengilegt sveitarstjórn og sveitarstjóra hverju sinni. Mikil og uppsöfnuð þörf hefur verið varðandi viðhald húsnæðis skólans síðustu árin og er enn.


Vegna leikskóla:
1. Hér er spurt sérstaklega um greiðslur vegna vinnu, en þar sem um útboð var að ræða er vinnuliðurinn ekki greindur sérstaklega í bókhaldi sveitarfélagsins, en í tilboðinu er tilgreind upphæð í bæði vinnu og efni við hvern verkþátt. Að auki er ekki í bókhaldi sveitarfélagsins sundurgreining á vinnu og efni undirverktaka sem verktaki greiðir fyrir, s.s. málara, dúkara, rafvirkja o.s.frv. Heildarupphæð greiðslna til Trésmiðjunnar Höfða vegna fyrri hluta við stækkun leikskólans árið 2016 var kr. 26.226.709.- Heildarupphæð greiðslna til Trésmiðjunnar Höfða við síðari áfanga 2017 var kr. 41.411.939.-

2. Ekki buðu aðrir í verkefnið árið 2016, en í síðari áfanga buðu Trésmiðjan Höfði og Skrauthús ehf.

3. Tilboð Trésmiðjunnar Höfða frá 2016 var að upphæð kr. 27.587.010.- Tilboð Trésmiðjunnar Höfða í síðari hluta verksins 2017 var að upphæð kr. 45.291.088.- Skrauthús ehf buðu kr. 45.917.994.-


Sveitarstjórn vill nota tækifærið og taka fram að það er stefna sveitarstjórnar Strandabyggðar að leitast við að efla atvinnulíf í sveitarfélaginu og skipta við fyrirtæki í heimabyggð, eftir því sem kostur er og aðstæður leyfa hverju sinni.“


Oddvita er falið að senda Þorgeiri svar við erindinu.


12. Skipun fulltrúa í vinnuhóp um endurskoðun aðalskipulags Strandabyggðar
Sveitarstjórn skipar Jón Gísla Jónsson og Pétur Matthíasson í vinnuhóp um endurskoðun aðalskipulags Strandabyggðar. Einnig sitja Þórður Már Sigfússon skipulagsfulltrúi og Ásta Þórisdóttir í hópnum fyrir hönd sveitarfélagsins.


13. Breyting á kjörstjórn Strandabyggðar
Sveitarstjórn skipar Bryndísi Sveinsdóttur sem aðalmann í kjörstjórn Strandabyggðar. Ásamt henni eru Jóhann Björn Arngrímsson formaður og Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir aðalmenn í kjörstjórn.


14. Umsögn Strandabyggðar vegna sölu á jörðinni Neðri-Bakka
Sveitarstjórn vill taka fram að um er að ræða sölu á tveimur lóðum úr landi Neðri-Bakka, en ekki á jörðinni í heild sinni. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við söluna.


15. Fundargerð Fræðslunefndar frá 9. september 2021
Tekin er fyrir fundargerð Fræðslunefndar frá 9. sept. 2021. Sveitarstjórn samþykkir sérstaklega lið 1. Rætt um nauðsynlegar framkvæmdir við leikskólalóðina. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.


16. Fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 17. ágúst 2021
Lögð fram fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 17. ágúst 2021. Fundargerðin samþykkt.


17. Boð á Fjórðungsþing Vestfirðinga 22.-23. október 2021
Lagt fram til kynningar boð á Fjórðungsþing Vestfirðinga 22.-23. október næstkomandi. Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að skrá þátttöku sem fyrst.


18. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 26. ágúst 2021
Lögð fram til kynningar.


19. Fundargerð 436. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, frá 20. ágúst 2021
Lögð fram til kynningar.


20. Fundargerð 900. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. ágúst 2021
Lögð fram til kynningar.


21. Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dags. 1. sept. 2021, um breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar
Tekið er fyrir erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðueyti til allra sveitarfélaga um breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar.

Sveitarstjórn samþykkir að yfirfara og gera breytingar á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, til að víkka heimildir sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna til að taka þátt með rafrænum hætti í fundum á vegum sveitarfélagsins, í samræmi við leiðbeiningar ráðuneytisins.


22. Styrkbeiðni frá Ungmennafélaginu Geislanum, dags. 31. ágúst 2021
Lagt fram bréf frá Ungmennafélaginu Geislanum dags. 31. ágúst 2021, þar sem óskað er eftir stuðningi í formi merkinga á nýja búninga félagsins. Samþykkt að styðja verkefnið um umbeðnar 55 þúsund krónur.


23. Umhverfing, kynning á myndlistarverkefni 2022
Lögð fram kynning á myndlistarverkefninu Umhverfing sem fram fer á Vestfjörðum á næsta ári. Sveitarstjórn fagnar framtakinu og telur það áhugavert og spennandi. Sveitarstjórn tekur vel í að leggja til húsnæði sveitarfélagsins sem sýningarstaði, eftir því sem hentar og mögulegt er.


24. Forstöðumannaskýrslur
Lagðar fram til kynningar forstöðumannaskýrslur starfsmanna sveitarfélagsins. Sveitarstjórn þakkar fyrir innsendar skýrslur.


25. Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2022-2026
Lagt fram til kynningar.


26. Beiðni til sveitarfélagsins um aðstöðu fyrir búnað sjóíþróttafélagsins Ránar, dags. 13. sept.
Lögð fram beiðni um aðstöðu fyrir geymslu á búnaði sjóíþróttafélagsins. Sveitarstjórn mun kanna möguleika á að verða við beiðninni, í samvinnu við stjórn félagsins.


27. Gjaldskrá Slökkviliðs Strandabyggðar frá desember 2020
Lögð fram til samþykktar gjaldskrá Slökkviliðs Strandabyggðar. Gjaldskráin samþykkt samhljóða og verður send til birtingar í B-deild stjórnartíðinda.


Fundargerðin yfirfarin og samþykkt. Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 18:11.

 

Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón