Sveitarstjórnarfundur 1338 í Strandabyggð, 8. nóvember 2022
Sveitarstjórnarfundur nr. 1338 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 8. nóvember kl. 16:00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2023 og þriggja áætlun 2024-2026
2. Fasteignagjöld, álagningarhlutfall og afslættir aldraðra
3. Útsvarshlutfall 2023
4. Gjaldskrár Strandabyggðar 2023
5. Viðauki V
6. Lántaka Strandabyggðar fyrir afborgunum ársins
7. Opið bréf frá Hafdísi Sturlaugsdóttur varðandi samfélagssáttmála um styrkveitingar
8. Samfélagssáttmáli um styrkveitingar
9. Siðareglur sveitarstjórnar Strandabyggðar
10. Samningur við Sýslið v. samnings um upplýsingamiðstöð
11. Stofnframlag í byggingu raðhúss
12. Flutningur dreifnáms, minnisblað sveitarstjóra
13. Hugmyndasamkeppni um nýtingu Tanksins, minnisblað sveitarstjóra
14. Umsókn um greiðslu námskostnaðar v. skólagöngu barns utan lögheimilis
15. Sýslumaður Suðurlands umsögn v. sölu á bjór hjá Galdri brugghús
16. Fine Foods umsókn um leyfi til lagnar þaralínu í Steingrímsfjörð
17. Fræðslunefnd fundur 7. nóvember
18. Fundargerð starfshóps um aukið samstarf í velferðarþjónustu frá 26. október 2022, ásamt kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna á Vestfjörðum
19. Forstöðumannaskýrslur
20. Vinnuskýrsla sveitarstjóra
21. Ályktanir frá Hafnasambandsþingi 27.-28. oktbóber 2022
22. Ályktun um loftgæði á Íslandi 2022-2033
23. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 914 frá 12. október 2022
24. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 446 frá 26. október 2022
Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og engin athugasemd gerð við boðun fundarins.
Þorgeir lagði til að tekið væri fyrir afbrigði á fundinum sem er erindi frá Náttúrustofu varðandi framlög ríkisins. Samþykkt að málið verði að lið nr. 25. Einnig leggur Þorgeir til að tekið verði fyrir afbrigði sem erindi frá Umhverfisstofnun um tilnefningu fulltrúa í Vatnasvæðanefnd sem verður númer 26. á fundinum. Samþykkt samhljóða.
Þá var gengið til dagskrár:
1. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2023 og þriggja áætlun 2024-2026.
Forsendur fjárhagsáætlunar voru ræddar og mikilvægt að sveitarstjórn framfylgi hlutverki sínu m.t.t. sveitarstjórnarlaga og samþykkta Strandabyggðar varðandi meðferð fjármuna. Fjárhagsáætlun vísað áfram til seinni umræðu. Samþykkt samhljóða.
2. Fasteignagjöld, álagningarhlutfall og afslættir aldraðra.
Lagt er til að álagningarprósenta A-liðar fasteignaskatts verði áfram 0,625%, B-liðar verði 1,32% og álagningarprósenta á C-lið verði 1,65%. Lagt er til að viðmiðunarupphæðir um afslátt fyrir eldri borgara verði hækkaðar um 2,5% líkt og á síðasta ári. Samþykkt samhljóða.
3. Útsvarshlutfall 2023.
Lagt er til að útsvarsprósenta ársins 2023 verði 14,95%. Samþykkt samhljóða.
4. Gjaldskrár Strandabyggðar 2023.
Lagt er til að hækkun gjaldskráa sem hækka samkvæmt hlutfalli verði hækkaðar um a.m.k 10% og verði þær lagðar fram á næsta fundi sveitarstjórnar til samþykktar sem og gjaldskrár sem bundnar eru vísitölu. Samþykkt samhljóða.
5. Viðauki V.
Lagður fram svohljóðandi viðauki við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2022 á fundi sveitarstjórnar þann 8. nóvember 2022.
Rekstur:
a) Kostnaður við félagsþjónustu ársins 2022 lækkar vegna innsendra kreditreikninga v. 2021. Lækkun úr 27.189.411 í 25.600.000 eða um 1.610.189.
b) Kostnaður við innleiðingu á farsældarlögum á árinu 2022. Reikna má með kr. 1.610.189 sem færist frá félagsþjónustu.
c) Hækkun kostnaðar vegna snjómoksturs. Áætluð hækkun ársins 1.500.000, tekið af eigin fé.
d) Hækkun kostnaðar vegna lögfræðimála. Áætluð hækkun ársins eru kr. 3.000.000.
e) Hækkun vaxta og verðbóta í eignasjóði vegna verðbólgu kr. 16.500.000, tekið af eigin fé.
Framkvæmdir:
a) Kostnaður vegna kaupa á kranabíl fyrir Eignasjóð kr. 8.500.000.
b) Lækkun kostnaðar v. framkvæmda við grunnskóla. Kostnaður lækkar úr 19.500.000 í
11.000.000 eða um 8.500.000, færist á kaup á kranabíl.
c) Vegrið á Borgabraut við lóð leikskóla. Hækkun kostnaðar vegna framkvæmda v. lagningar vegriðs. Reikna má með kostnaði allt að kr. 2.400.000 sem færist frá götum í eignasjóði, en ekki var farið í framkvæmdir við lagningu slitlags á götum í sumar, eins og til stóð. Færist milli verkefna, ekki deilda.
Hér er verið að færa til fjármagn út frá skynsemissjónarmiði og stöðu sveitarfélagsins. Einnig er verið að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum án þess að auka skuldir. Vegrið á Borgabraut, kemur fyrir jól að sögn verktaka. Þarna er brugðist hratt við og í góðu samráði við Vegagerðina og vonandi með því komist í veg fyrir vissa hættu fyrir ofan leikskólalóð.
Matthías Lýðsson óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins hafa ekki heimild til að ráðast í meiriháttar fjárfestingu, mannaráðningar eða aukinn opnunartíma, sem geta haft í för með sér verulegan kostnaðarauka, umfram það fjármagn sem ætlað er í venjubundinn rekstur. Kaup á bifreið upp á 8.5 milljónir án fjárheimilda er eitt af slíkum dæmum. Slík er óheimilt án samþykkis sveitarstjórnar, því það er sveitarstjórn sem ber ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins.“
Matthías tekur fram að þetta hafi verið nauðsynlegar aðgerðir en vill ítreka að ekki hafi verið farið eftir reglum og að því þurfi betur að gæta í framtíðinni. Oddviti tekur fram að forstöðumaður ráðfærði sig við oddvita og skrifstofu.
Viðauki V er samþykktur samhljóða.
6. Lántaka Strandabyggðar fyrir afborgunum ársins.
Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins: Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá
Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 45.000.000,- , með lokagjalddaga þann 20. mars 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til endurfjármögnunar afborgunar eldri lána sveitarfélagsins hjá Lánasjóðnum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni sveitarstjóra Strandabyggðar, kt. 100463-5989, veitt fullt og
ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð
sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
Lántakan er samþykkt samhljóða.
7. Opið bréf frá Hafdísi Sturlaugsdóttur varðandi samfélagssáttmála um styrkveitingar.
Matthías Lýðsson vék af fundinum. Lagt fram til kynningar. Hafdísi er þakkað fyrir bréfið, sem er eina efnislega innleggið hvað drög að samfélagssáttmálanum varðar. Tekið var tillit til sumra ábendinga hennar og leiðrétt í samfélagssáttmálanum.
Matthías Lýðsson kemur aftur inn á fundinn.
8. Samfélagssáttmáli um styrkveitingar.
„Oddviti leggur fram eftirfarandi: Það er mikilvægt að forsendur styrkveitinga séu öllum ljósar og því er þessi samfélagssáttmáli settur fram. Hann var ræddur í sveitarstjórn í ágúst, tekið tillit til athugasemda A-lista og íbúa og lagður þannig fram. Strandabyggð er einfaldlega í þeirri stöðu núna að það næst ekki að klára lögbundin verkefni, sinna margra ára innviðaskuld eða huga að uppbyggingu til framtíðar, nema að litlu leyti. Við slíkar aðstæður er enn brýnna en áður að hugleiða forgangsröðun þegar kemur að því að ráðstafa tekjum sveitarfélagsins.
Tillaga: T listinn leggur til að aðeins óbeinir styrkir verði veittir á árinu 2023 á sama hátt og áður, með því að veita afnot af eignum sveitarfélagsins. Engir beinir styrkir verði veittir, a.m.k ekki meðan fjárhagsstaða sveitarfélagsins leyfi það ekki.“
Tillagan lögð fram til samþykktar og samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en A-listi situr hjá.
Hlíf Hrólfsdóttir óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Ég undirrituð tel að ekki sé hægt að samþykkja samfélagssáttmála, þar sem kynning og möguleikar samfélagsins til þess að taka þátt í gerð hans, hafi ekki verið í samræmi við það sem lagt var upp með. Í tölvupósti sem ég sendi þann 29.10 síðastliðinn á aðra meðlimi sveitarstjórnar sagði ég að ég teldi að það væri ekki rétt að þessari vinnu staðið, og að vinna þyrfti betur að þessu máli. Í svari sem ég fékk sama dag, var bent á: þessi kynning á málinu er í fullu samræmi við það sem sveitarstjórn ræddi á sínum tíma og það er áhyggjuefni ef ekki er hægt að treysta því að A listinn standi á bak við sína eigin vinnu og umræðu, í stað þess að hlaupa til á síðari stigum, þegar baklandið kvartar.
Á fundi 1335 þann 9.ágúst 2022 var eftirfarandi bókað: “Þorgeir Pálsson leggur fram eftirfarandi tillögu: Lagt er til að sveitarstjórn geri og samþykki svokallaðan samfélagssáttmála, sem hefði þann tilgang að efla skilning og þekkingu á eðli styrkveitinga til að skapa aukna sátt um ráðstöfun þess fjármagns sem þá fara í styrkveitingar. Lögð eru fram drög að samfélagssáttmála. Einnig er lagt til að íbúum verði gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við drögin, fram að næsta sveitarstjórnarfundi. Drög að samfélagssáttmála var lagt fram og kynnt, sveitarstjóra falið að fylgja málinu áfram og leggja fram drögin og búa til farveg fyrir aðkomu íbúa að sáttmálanum. Samþykkt samhljóða.”
Ég tel að þessu hafi ekki verið fylgt og jafnframt vil ég benda fólki á að hlusta á fund 1335 frá 9. ágúst 2022, að þar kemur skýrt fram áhersla frá A-lista um að samþykki væri háð því að drögin yrðu vel kynnt fyrir íbúum og að þeim gert vel kleyft að koma með ábendingar og athugasemdir og koma þannig að vinnu sáttmálans. Það tel ég að hafi ekki verið uppfyllt.”
A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun: „Sveitarstjórn Strandabyggðar þakkar innilega öllum þeim fjölmörgu íbúum sem með virkri þátttöku í menningar-, íþrótta- og félagslífi hafa lagt sitt af mörkum til að auðga og bæta mannlíf á Ströndum. Ekki síst hafið þið, ágæta fólk, lagt mikið af mörkum til þess að efla jákvæða ímynd samfélagsins inná við og útá við.“
Bókunin er samþykkt samhljóða.
Oddviti þakkar framlagðar bókanir og umræðu og leggur til að Samfélagssáttmála um styrkveitingar verði frestað.
9. Siðareglur sveitarstjórnar Strandabyggðar.
Lagðar fram að nýju og nú búið að endurgera orðalag í 15. grein, í ljósi starfsmannastefnu Strandabyggðar.
A-listi leggur til viðauka við siðareglurnar: “Undir 15 gr. Um siðferði hegðun og framkomu. Í þriðju málsgrein á eftir fyrstu setningu komi (í samræmi við 41 grein stjórnsýslulaga):
„Undir þagnarskyldu falla ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda“.
Breytingartillaga: Tillaga um að setningin „6. Starfsþrónu og fræðsl“ í lok 15. greinar falli út.
Lagt er til að siðareglurnar verði samþykktar með viðauka A-lista og breytingartillögu. Samþykkt samhljóða.
10. Samningur við Sýslið v. samnings um upplýsingamiðstöð.
Oddviti leggur fram greinargerð: Sveitarstjórn hefur uppi áform um að efla heimasíður sveitarfélagsins, meðal annars á þann hátt að geta veitt meiri upplýsingar, t.d. til ferðamanna. Eins má segja að virk miðlun upplýsinga sé nú þegar í gangi á tjaldsvæði og í íþróttamiðstöð, sem og hjá öðrum þjónustuaðilum þar sem ferðamenn stoppa. Það er því vandséð, við núverandi aðstæður, að verjandi sé að endurnýja samninginn við Sýslið hvað upplýsingamiðstöð varðar. Hins vegar er vert að hrósa Sýslinu fyrir margar góðar, fræðandi og hvetjandi greinar um samfélagið á Ströndum.
Tillaga: T-listinn leggur til að samningnum við Sýslið verði sagt upp frá og með 1.12.2022 í samræmi við ákvæði um breytingar/riftun í samningnum“.
Rætt var um samninginn og er samþykkt að segja upp samningnum með þremur atkvæðum T-lista á móti tveimur atkvæðum A-lista.
11. Stofnframlag í byggingu raðhúss. Verkefnið er mikilvægt og brýnt að koma því í farveg.
Fyrirhuguð lóð er þar sem nú er „Lillaróló“ og verður þeim leikvelli fundinn veglegur staður í staðinn. Sveitarstjóra og byggingarfulltrúa falið að fylgja málinu eftir. Athugasemd var gerð vegna villandi fundargagna. Samþykkt samhljóða.
12. Flutningur dreifnáms, minnisblað sveitarstjóra.
„Oddviti lagði fram eftirfarandi: Lengi hefur verið rætt um flutning á dreifnáminu í annað húsnæði og þá einkum horft til Þróunarseturs. Þar eru í dag þrjú herbergi sem hægt er að nýta undir dreifnámið. Sveitarstjóri og umsjónarmaður dreifnáms könnuðu aðstæður og ræddu við umsjónarmann Þróunarseturs. Skoðaðir voru aðrir kostir líka. Niðurstaða þessa er kynnt í minnisblaði sveitarstjóra.
Tillaga: T-listinn leggur til að dreifnámið verði flutt í Þróunarsetrið í janúar 2023. Rétt er að taka fram, að fullt samráð hefur verið haft við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki og Sparisjóð Strandamanna. Með flutningi dreifnáms sparast 1.2 milljónir á árs grundvelli í húsaleigu.“
Sveitarstjóra er falið að fylgja málinu eftir. Samþykkt samhljóða.
13. Hugmyndasamkeppni um nýtingu Tanksins, minnisblað sveitarstjóra.
Vísað er í minnisblað sveitarstjóra. Hugmyndin hefur verið rædd á fyrri sveitarstjórnarfundi og er því lagt til að sveitarstjóra verði falið að setja auglýsingu í viðeigandi miðla og kalla eftir tillögum um nýtingu á Tankinum. Samþykkt að útfæra endanlega auglýsingu sem mun gilda út febrúar 2023 og sveitarstjóra falið að koma henni á framfæri.
Samþykkt samhljóða.
14. Umsókn um greiðslu námskostnaðar v. skólagöngu barns utan lögheimilis.
A-listinn leggur til að umsóknin verði samþykkt út þetta skólaár. Jón Sigmundsson gerir grein fyrir atkvæði sínu og er sammála tillögunni. Sveitarstjórn samþykkir greiðslu námskostnaðar út þetta skólaár.
15. Sýslumaður Suðurlands umsögn v. sölu á bjór hjá Galdri brugghúsi.
Lagt er til eftirfarandi: „Sveitarfélagið staðfestir veitingu leyfis til sölu á áfengi á framleiðslustað allt að 12% af hreinum vínanda, með þeim fyrirvara að skilmálar sýslumanns standist. Sveitarstjóra, byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra er falið að ganga úr skugga um að svo sé, innan þeirra tímamarka sem gefin eru af sýslumanni.“ Samþykkt samhljóða.
16. Fine Foods umsókn um leyfi til lagnar þaralínu í Steingrímsfjörð.
Sveitarstjórn telur þetta jákvætt erindi sem felur í sér áhugaverða nýsköpun. Erindið er samþykkt samhljóða.
17. Fræðslunefnd fundur 7. nóvember 2022.
Formaður rekur efni fundarins. Oddviti bætir við að fyrir fundinum lágu tvö minnisblöð frá oddvita varðandi skólamötuneyti og skólaakstur. Varðandi skólamötuneyti sé nauðsynlegt að fylgja lýðheilsumarkmiðum og varðandi skólakstur þurfi að meta þörfina allt árið um kring. A-listi kallar eftir minnisblöðum sem vantaði í fundargögn. Fundargerðin samþykkt samhljóða.
18. Fundargerð starfshóps um aukið samstarf í velferðarþjónustu frá 26. október 2022, ásamt kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna á Vestfjörðum.
Hlíf Hrólfsdóttir fulltrúi Strandabyggðar í starfshópnum gerir grein fyrir stöðu mála. Sveitarstjórn staðfestir fyrra samþykki á kostnaðarhlutdeild Strandabyggðar. Samþykkt samhljóða.
19. Forstöðumannaskýrslur.
Sveitarstjórn þakkar fyrir innsendar skýrslur.
20. Vinnuskýrsla sveitarstjóra.
Óskað var upplýsinga um stöðu mála varðandi hugsanlega hótelbyggingu. Sveitarstjóri upplýsti að viljayfirlýsing hafi verið undirrituð varðandi aðkomu sveitarfélagsins varðandi áframhaldandi undirbúningsvinnu.
21. Ályktanir frá Hafnasambandsþingi 27.-28. oktbóber 2022.
Lagt fram til kynningar.
22. Ályktun um loftgæði á Íslandi 2022-2033.
Lagt fram til kynningar.
23. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 914 frá 12. október 2022.
Lögð fram til kynningar.
24. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 446 frá 26. október 2022.
Lögð fram til kynningar.
25. Erindi frá Náttúrustofu varðandi framlög ríkisins.
Í bréfi frá framkvæmdastjóra Náttúrustofu Vestfjarða segir: „Meðfylgjandi er bréf sem samtök náttúrustofa sendu rétt í þessu á alþingismenn. Erindið er ákall til þingmanna um að tryggja að viðbótarfjárveiting sem veitt var til náttúrustofa árið 2021 og 2022 verði ekki felld niður líkt og áformað er í fjárlögum til ársins 2023. Starfsemi náttúrustofa er mikilvægur þáttur í því að auka fjölbreytni starfa og skapar tækifæri fyrir háskólamenntaða einstaklinga að starfa að mikilvægum rannsóknum á lífríki og náttúru í sínu nærsamfélagi. Fari svo sem fram horfir, verður framlag til náttúrustofa það lægsta frá upphafi. Stuðningur sveitarstjórnarfólks við erindið er afar brýnn og því óskum við eftir því að þið vekið athygli á málinu í ykkar samtölum við þingmenn og aðra sem að málum koma þegar þið eigið þess kost.“ Hér er því kallað eftir stuðningi sveitarstjórnar.
Lagt er til að sveitarstjórn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:
„Náttúrustofur um allt land gegna mikilvægu hlutverki er varðar vöktun lands og auðlinda, ráðgjöf og upplýsingamiðlun til sveitarfélaga, atvinnulífs og einstaklinga. Mikilvægt er að stjórnvöld efli þessa starfsemi, sérstaklega þar sem stuðningur náttúrustofa almennt við atvinnulíf er mikilvægur liður í atvinnuuppbyggingu. Sveitarstjórn Strandabyggðar styður því hvatningu samtaka náttúrustofa til alþingis um að auka framlög til hverrar náttúrustofu um kr. 6.000.000.- á fjárlögum ársins 2023. Einnig kallar sveitarstjórn eftir afstöðu stjórnar Náttúrustofu Vestfjarða hvað varðar stöðugildi Náttúrustofu í Strandabyggð, sem nú er ekkert.“
Samþykkt samhljóða.
26. Erindi frá Umhverfisstofnun varðandi tilnefningu fulltrúa í Vatnasvæðanefnd.
Samþykkt að staðfesta Þröst Áskelson sem varamann og Matthías Lýðsson sem fulltrúa Umhverfis- og skipulagsnefndar en oddvitum listanna falið að staðfesta tilnefningu aðalmanns fyrir tilskilinn tíma.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.12
Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Matthías Sævar Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir