A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1367, 13. ágúst 2024

Sveitarstjórnarfundur 1367 í Strandabyggð

Fundur nr. 1367 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 13. ágúst kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Þröstur Áskelsson varamaður, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Staða uppbyggingar í grunnskóla, yfirlit
2. Viðauki II
3. Breytingar á samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar
4. Samþykkt stjórnar Framkvæmdaráðs um Earth Check – taka afstöðu.
5. Kollafjarðarrétt, tilboð í réttarsmíði
6. Fjallskilaseðill 2024
7. Verksamningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar
8. Björgunarsveitin Dagrenning, styrkumsókn v. húsbyggingar
9. Þakkarbréf frá stjórn HSS
10. Svar Innviðaráðuneytis vegna beiðni um fjárhagslegan stuðning – til kynningar
11. Ný þjóðhagsspá Hagstofu og forsendur
12. Breyting af skipan fulltrúa T-lista í sveitarstjórn
13. Erindi frá Hlíf Hrólfsdóttur og Sigríði Jónsdóttur til sveitarstjórnar – vegna starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa
14. Vinnuskýrsla sveitarstjóra – júlí
15. Forstöðumannaskýrslur
16. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið: Tilboð til sveitarfélaga um styrk til að ljúka lagningu ljósleiðara til allra lögheimila utan markaðssvæða í þéttbýli
17. Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis fundargerð nr. 148 frá 18. Júlí


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun.

Engin athugasemd er gerð við fundarboðið.

A-listi leggur fram þá tillögu að sveitarstjórn þakki þeim frumkvöðlum sem stóðu að hátíðinni Sameinumst á Ströndum fyrir vel heppnað og ánægjulegt framtak. T-listi styður tillöguna heilshugar.

Þá var gengið til umræðu.

1. Staða uppbyggingar í grunnskóla, yfirlit

Oddviti fór yfir stöðu mála í uppbyggingu grunnskólans. Framkvæmdir eru á lokastigi og ljóst að skólahald mun hefjast í grunnskólanum þann 22. ágúst n.k. Þó má alltaf gera ráð fyrir að einhver smáverk séu eftir og þá verður t.d. áfram unnið að uppsetningu á loftræstikerfi, en það á ekki að trufla skólahald. Það ríkir samstaða meðal iðnaðarmanna um að klára allt á tilsettum tíma og það er gott og gleðilegt að finna þá samstöðu.

Sveitarstjórn fagnar því að þessum áfanga sé lokið og að við sjáum nú fram á að hægt sé að hefja kennslu í skólahúsnæðinu á ný. Ljóst er að bæta þarf tækjakost við smíðakennslu. Keypt hafa verið ný húsgögn fyrir nemendur og kennara en einhverju þarf við að bæta.

Matthías tekur til máls og segir að heilmikil vinna hafi verið í gangi og verði áfram næstu daga. A-listi tekur fram ánægju sína með framkvæmdirnar.

Oddviti tekur fram að ljóst sé að uppbygging skólans sé mikil upprisa og því beri að fagna. Lagt er upp með að opið hús verði við skólasetningu til að nemendur,foreldrar og íbúar geti litið við.

2. Viðauki II

Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið. Salbjörg rakti eðli viðaukans.

Lagður er fram svohljóðandi viðauki II við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins
2024 á fundi sveitarstjórnar þann 13. ágúst 2024.

Rekstur:

a. Breytingar á tekjum Jöfnunarsjóðs skv. útreikningi í maí 2024. Lækkun á framlagi v.
fasteignaskatts úr 73.070.200 í 59.862.239, lækkun á grunnskólaframlagi úr kr.
62.113.300 í 51.903.806, lækkun á útgjaldaframlagi úr 140.183.216 í 138.332.639,
lækkun framlags vegna samþættingar í farsæld barna úr 1.142.000 í 850.086.

Samtals lækkun um 25.559.906 milljónir króna.

b. Framlag vegna skólagöngukostnaðar nemenda í Tónlistarskóla Akureyrar á
haustönn 2024 kr. 2.050.000, styrkur á móti frá Jöfnunarsjóði hljóðar upp á kr.
1.090.000 og kostnaður sem fellur á sveitarfélagið því kr. 960.000.

Samtals hækkun rekstarkostnaðar kr. 960.000 sem er tekið af eigin fé.
Samtals lækkun tekna kr. 25.559.906

Samtals áhrif á rekstur í A-hluta er lækkun um kr. 26.520.000 sem þýðir að tap verður á rekstri sveitarfélagsins á árinu eða kr. 1.491.000

Framkvæmdir:

Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík.
Lagt er til að framkvæmdakostnaður 2024 hækki úr 125.000.000 í kr. 190.000.000 og
að heildarframkvæmdakostnaður áranna 2023-2024 verði 306.000.000

Greitt með eigin fé og lántöku

Oddviti vildi bæta við, að varðandi kostnað við grunnskólann, að allar áætlanir þar um hefðu í raun verið háðar mikilli óvissu. Þegar litið er til upphaflegrar áætlunar, má sjá að gert var ráð fyrir kostnaði frá 2024-2027 upp á kr. 165 milljónir. Árið 2023 voru eignfærslur kr. 116 milljónir vegna grunnskólans. Samtals eru þetta 281 milljón, sem er ekki langt frá raunkostnaði nú. Ljóst er að kostnaður hefur því orðið meiri á styttri tíma en til stóð, þó heildarkostnaður sé enn um eða við upphaflegan ramma. Ástæða þessa er m.a sú að nokkrum mikilvægum framkvæmdum var flýtt og nýjir verkþættir bættust við. Má þar nefna að ákveðið var að klára uppsetningu loftræstikerfis á þessu ári, sprinkler kerfi var bætt við og eins var ákveðið að fjárfesta í varmadælukerfi. Síðan er ljóst að margir verkþættir tóku lengri tíma en gert var ráð fyrir, og kemur þar til bið eftir íhlutum, meira flækjustig en gert var ráð fyrir ofl. Allt er þetta mikilvægt lærdómsferli fyrir sveitarfélagið og kemur okkur til góða þegar ráðist verður í framkvæmdir við eldri hluta grunnskólans. Mikilvægt er þó að samanburður á eðli framkvæmda sé raunhæfur.

Oddviti sagðist myndi fara nánar yfir kostnað með verkefnastjóra VERKÍS og taka saman heildaryfirlit yfir þessa framkvæmd í lokin.

Matthías tekur til máls og segir að óhjákvæmilegt sé að allt kosti. Gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun Eflu að viðgerð á skólahúsnæðinu öllu færi í 255 milljónir. Gæta þarf þess að eyða ekki umfram þær fjárheimildir sem sveitarstjórn hefur samþykkt.

Þorgeir tekur til máls og vill taka fram að hann sé sammála Matthíasi með að eyða ekki umfram fjárheimildir. Eðli verkefnisins sé slíkt að erfitt sé að vakta daglegan kostnað verktaka. Varðandi áætlun Eflu þá snérist sú áætlun um að koma í veg fyrir frekari rakaskemmdir húsnæðis og einskorðuðust endurbætur að mestu við það. Sveitarstjórn Strandabyggðar fór þá leið að bæta td. við varmadælukyndingu, sprinkler kerfi og loftræstingu. Ljóst sé að í verkefnum framtíðarinnar sé heppilegra að ráða byggingarstjóra sem er á staðnum, starfsmenn sveitarfélagsins hafa engu að síður staðið sig vel í því hlutverki. Margt sé hægt að læra af þessum framkvæmdum.

Matthías tekur undir með Þorgeiri og segir að við getum dregið þann lærdóm af þessari framkvæmd að nauðsynlegt sé að byggingarstjóri sé á staðnum og stjórni verki allan tímann.

Oddviti leggur til að viðaukinn sé samþykktur. Viðaukinn er samþykktur samhljóða.


3. Breytingar á samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar

Oddviti sagði frá tildrögum þessa verkefnis, en ábending hafði borist í gegnum stjórnsýsluúttekt KPMG, að samþykktir um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar væru mun eldri en ný fyrirmynd innviðaráðuneytisins frá 2021. Búið er að samræma ábendingar ráðuneytisins og samþykktir sveitarfélagsins og þarf sveitarstjórn nú að ákveða þær breytingar sem teknar verða inn í samþykktir sveitarfélagsins.

Oddviti leggur til að drögunum verði vísað til vinnufundar sveitarstjórnar og að báðir listar leggi fram sínar tillögur að breytingum.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða og oddvita er falið að finna fundartíma.


4. Samþykkt stjórnar Framkvæmdaráðs um Earth Check – taka afstöðu.

Oddviti gefur orðið laust.

Sveitarstjórn samþykkir afstöðu framkvæmdaráðs um afgreiðslu verkefnisins á Fjórðungsþingi haustið 2024.

Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að kynna afgreiðslu sveitarstjórnar.


5. Kollafjarðarrétt, tilboð í réttarsmíði


Oddviti rakti tilurð þessa máls og sagði frá því að verkefnið hafi verið auglýst tvisvar og í bæði skiptin hafi borist tilboð sem var langt umfram kostnaðarramma, sem var auglýstur 4,5 milljónir. Nú hafi hins vegar borist fyrirspurn frá áhugasömum aðila sem vill reisa réttina og eru viðræður í gangi við hann.


Oddviti gefur orðið laust.


Matthías tekur til máls og leggur fram eftirfarandi bókun A-lista:

„Allt of seint var farið af stað með að auglýsa þessa framkvæmd. Ljóst var í desember að til stóð að smíða rétt og nota hefði átt tíma í undirbúning og að leita tilboða áður en annatími verklegra framkvæmda var kominn. Á fjárhagsáætlun var áætlað allt of lítið fé til réttarsmíðinnar þ.e. minna en í Staðarrétt sem var byggð fyrir 2 árum og síðan hefur verðlag hækkað mikið. Aðstæður á svæðinu við Kollafjarðarrétt eru líka aðrar og líkur á að jarðvegsskipti þurfi að vera veruleg.“

Oddviti tekur til máls og segir Matthías hafa haft næg tækifæri til að koma með athugasemdir. Jafnframt tekur hann fram að sveitarfélagið muni ekki byggja rétt sem taki þúsundir fjár í einu. Að öðru leiti er hann sammála Matthíasi um að finna leið til að koma til móts við hækkandi byggingakostnað og að hrinda byggingu réttarinnar í framkvæmd.


Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að halda áfram viðræðum við viðkomandi aðila, gera úttekt á landinu með það fyrir augum að ná saman um endanlegan kostnaðarramma. Sveitarstjóra falið að kynna niðurstöðurnar fyrir sveitarstjórn áður en til ákvörðunar kemur.


Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.


6. Fjallskilaseðill 2024

Oddviti greindi frá því, að endanleg útgáfa af fjallskilaseðlinum væru nú komin til bænda og á heimasíðu sveitarfélagsins.

Orðið gefið laust.

Matthías gerir nokkrar athugasemdir og Sigríður Guðbjörg sömuleiðis.

Oddviti telur rétt að gera breytingar á fyrirkomulagi á vinnu við fjallskilaseðil á þann hátt að leitarstjórar fái framvegis leitarseðilinn fyrr í hendur og geri viðeigandi breytingar fyrir birtingu hans.

Lagt fram til kynningar.


7. Verksamningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar


Frá því að samþykkt var á síðasta sveitarstjórnarfundi að endanlegur samningur yrði lagður fyrir á þessum fundi, hafa samskipti átt sér stað milli Landmótunar og Litla Kletts, sem og milli Litla Kletts og sveitarstjórnar. Var m.a. haldinn fjarfundur sveitarstjórnar og fulltrúa Litla Kletts, þar sem farið var yfir málin og framkvæmd þessa verkefnis. Má reikna með að skilningur manna hafi aukist á þeim fundi og ýmsum misskilningi eytt. Eftir skoðun á mögulegu efni í undirstöðu girðingar, er niðurstaðan að nota hleðslustein. Litli Klettur óskaði eftir endurrútreikningi Landmótunar á efnismagni og er beðið eftir því og nýrri teikningu.

Verkið hefur tafist of mikið og kemur þar til t.d. stjórnsýslukæra verktaka á Hólmavík, vandamál með efnistöku og endurhönnun vegna þess, sem og sumarleyfi starfsmanna. Nú sér vonandi fyrir endann á þessum verkhluta. Það er þó ljóst að lengra verður ekki gengið í framkvæmdum á þessu ári, þannig að seinni verkþáttur, sem er vinna við jarðsvegsskipti á lóðinni, frágangur á tartan, grasi og hönnun lóðar, ásamt uppsetningu leiktækja, bíður næsta árs.


Matthías óskar eftir að bóka, að þar sem ekki eru komin endaleg gögn verði endanlegur samningur ekki frágenginn fyrr en að gögnin eru komin, sem er þá væntanlega á næsta fundi sveitarstjórnar.


8. Björgunarsveitin Dagrenning, styrkumsókn v. húsbyggingar


Oddviti opnaði umræðuna og hrósaði björgunarsveitinni fyrir dugnað í þessu verki. Hann gaf síðan orðið laust.


Oddviti tekur fram að sveitarfélagið hafi nú þegar lagt til vinnu við lóðaframkvæmdir. Sveitarstjórn samþykkir að veita styrk á móti gatnagerðargjöldum og öðrum gjöldum sveitarfélagsins sem tengjast nýbyggingu Björgunarsveitarinnar.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða og sveitarstjóra falið að tilkynna hlutaðeigandi.


9. Þakkarbréf frá stjórn HSS

Oddviti sagði sveitarstjórn þakka fyrir bréfið og gaf orðið laust.

Matthías tekur undir orð oddvita og bendir á að með nýjum úthlutunarreglum lottótekna muni tekjur HSS skerðast verulega. Fjármagn muni ganga að mestu til nýrra svæðisfulltrúa UMFÍ á Patreksfirði og Ísafirði og því grundvallarbrestur á stöðu framkvæmdastjóra HSS.

Oddviti tekur fram að þessum tekjubresti verði mótmælt harðlega.


10. Svar Innviðaráðuneytis vegna beiðni um fjárhagslegan stuðning – til kynningar

Oddviti rakti tilurð þessa bréfs og bakgrunn þess samnings sem verið hefur milli innviðaráðuneytisins og sveitarfélagsins. Það er ljóst að stuðningur ráðuneytisins hefur reynst sveitarfélaginu mikilvægur og stutt vel við þá fjárhagslegu endurreisn og uppbyggingu sveitarfélagsins sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Nú sé hins vegar komið að endalokum, þar sem það sé mat Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og ráðuneytisins, að sveitarfélagið standi það sterkt fjárhagslega, að frekari stuðningur verði ekki réttlættur né standist forsendur ráðuneytisins. Það er auðvitað gott að vera ekki háður ráðuneytinu, en á hinn bóginn er ljóst að það þurfi lítið útaf að bera til að hagnaður eða sterk staða, breytist. Benti oddviti t.d. á niðurskurð á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins, skv. útreikningi í maí 2024. Kom þetta fram fyrr í dagskrá þessa fundar. Niðurskurður af þessu tagi hefur veruleg áhrif á sveitarfélagið.

Oddviti gaf síðan orðið laust.

Enginn kvað sér hljóðs.


11. Ný þjóðhagsspá Hagstofu og forsendur

Oddviti lagði áherslu á að sveitarstjórn hæfi vinnu við fjárhagsáætlanagerð sem fyrst og er ný þjóðhagsspá eitt þeirra gagna sem þarf að taka með í þá vinnu.


12. Breyting á skipan fulltrúa T-lista í sveitarstjórn


Oddviti rakti breytingarnar og bauð Óskar Hafstein Halldórsson velkominn í sveitarstjórn.

• Jón Sigmundsson hefur beðist lausnar frá störfum fyrir sveitarfélagið og hefur sveitarstjórn staðfest og heimilað þá beiðni, sjá fundargerð fundar nr. 1363
• Óskar Hafsteinn Halldórsson, tekur sæti Jóns sem aðalmaður T lista í sveitarstjórn
Strandabyggðar.

Þessi skipti munu hafa áhrif á nefndir, ráð og aðrar stöður sem Jón gegndi fyrir sveitarfélagið og stofnanir í stoðkerfi stjórnsýslunnar. Mun T listinn leggja til eftirmenn hans í þær stöður.

Aðrir í sveitarstjórn bjóða Óskar Hafstein Halldórsson velkominn í sveitarstjórn.


13. Erindi frá Hlíf Hrólfsdóttur og Sigríði Jónsdóttur til sveitarstjórnar – vegna starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa

Oddviti gaf Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur orðið.

Á fundi sveitarstjórnar þann 11.júní 2024 var Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur og Hlíf Hrólfsdóttur falið það verkefni að greina stöðu starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Þessi ákvörðun var byggð á fundargerð TÍM nefndar frá 4.júní 2024. Niðurstaða greiningar þeirra er að aðskilja ætti starf íþrótta- og tómstundafulltrúa og snúa til fyrra horfs. Núverandi starfi var breytt í byrjun árs 2022 og sameinaðar voru stöður tómstundafulltrúa og forstöðumanns íþróttamiðstöðvar. Ljóst er að lagabreytingar eru framundan í frístundastarfi sem hafa sömuleiðis áhrif.

Sveitarstjórn leggur til að Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur og Hlíf Hrólfsdóttur verði falið að halda áfram vinnu við breytingu á þessum störfum og leggja fram á næsta fundi sveitarstjórnar tillögur að starfslýsingum og kostnaðarmat.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

14. Vinnuskýrsla sveitarstjóra – júlí


Oddviti gaf orðið laust


Matthías tekur til máls og er með nokkrar spurningar. Varðandi minnispunkt um erindisbréf þá gerir hann ekki athugasemdir né telur þörf á að breyta erindisbréfi Umhverfis- og skipulagsnefndar. Matthías spyr um heimasíðugerð, hvernig það mál standi. Hann spyr um bíla sem heilbrigðiseftirlitið límdi á og einnig hver sé staðan í endurbótum á sundlauginni og hvað sé að frétta af Strandanefndinni og af væntanlegri hótelbyggingu.


Oddviti svarar varðandi heimasíðuna að nú hafi komið inn tillaga að útliti heimasíðu, starfmenn skrifstofu hafi sent inn tillögur og athugasemdir. Vegna bíla og álíminga þá er ekki hægt að fjarlægja bíla þar sem þeir hefðu þá verið geymdir á svæði Sorpsamlagsins, þar er hvorki pláss né lokuð girðing, það verður tilkynnt til Heilbrigðiseftirlitsins. Varðandi endurbætur í Íþróttamiðstöð þá eru framkvæmdir í gangi og verður gengið frá flísalögn á pottum á næstu tveimur vikum. Varðandi Strandanefndina þá hafa tillögur verið sendar til forsætisráðherra og innviðaráðherra og verða kynntar á næsta fundi sveitarstjórnar. Vegna hótelbyggingar þá þarf Strandabyggð að fara í þá vinnu að deiliskipuleggja svæðið til móts við deiliskipulag hótelbyggjenda.


Matthías þakkar fyrir veitt svör.


15. Forstöðumannaskýrslur


Oddviti gaf orðið laust. Enginn tók til máls


16. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið: Tilboð til sveitarfélaga um styrk til að ljúka lagningu ljósleiðara til allra lögheimila utan markaðssvæða í þéttbýli

Oddviti rakti tilurð þessa máls, en hvatti síðan til að tilboði ráðuneytisins yrði tekið. Upphæðin sem ráðuneytið býður hljóðar upp á, kr 80.000.- á hvert hús.

Sveitarstjórn samþykkir að taka þessu tilboði og felur sveitarstjóra að staðfesta til ráðuneytisins fyrir 16. ágúst og að auglýsa verkefnið á heimasíðu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


17. Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis fundargerð nr. 148 frá 18. Júlí


Oddviti rakti tilurð þessa máls og benti á að sum sveitarfélög hefðu bókað um málið. Sagði oddviti það sína skoðun, að það sé umhugsunarvert þegar opinber stofnun, í þessu tilviki Umhverfisstofnun, gengur inn á verksvið annars stjórnvalds, sem hefur vel skilgreint hlutverk, í þessu tilviki heilbrigðisnefnd Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Telur oddviti það óheppilega þróun.

Orðið síðan gefið laust.

Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til frekari bókana.


Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 19:00

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón