Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1371, 10.12.2024
Sveitarstjórnarfundur 1371 í Strandabyggð
Fundur nr. 1371 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 10. desember 2024 kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Grettir Örn Ásmundsson, Júlíana Ágústsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
- Kosning varaoddvita
- Kosning í fastanefndir, atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd, tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd og fræðslunefnd
- Fjárhagsáætlun 2025 og til þriggja ára 2026-2028, seinni umræða ásamt greinargerð áætlunar
- Gjaldskrár 2025
- Heimild til yfirdráttar
- Samþykkt um kjör og fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum Strandabyggðar
- Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð, fyrri umræða
- Samþykkt um stjórn- og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar, fyrri umræða
- Fundaáætlun sveitarstjórnar Strandabyggðar 2025 til afgreiðslu
- Álit Innviðaráðuneytisins um stjórnsýslu Strandabyggðar, 18.11.24
- Erindi frá Jóni Jónssyni, 4.12.24
- Svæðisáætlun Vestfjarða um úrgang 2024-2035 til afgreiðslu
- Sterkar Strandir, fundargerð frá 21.11.2024 og ákvörðun um afdrif verkefnisins
- Umhverfis- og skipulagsnefnd, fundargerð frá 5.12.2024
- Tillaga Umhverfis- og skipulagsnefndar um að kynna deiliskipulagstillögu til afgreiðslu
- Erindisbréf Ungmennaráðs til afgreiðslu
- Erindisbréf Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar til afgreiðslu
- Tillaga Strandabandalagsins, Innviðir - Brandskjól
- Fjórðungssamband Vestfjarða, skipan áheyrnarfulltrúa
- Vinnuskýrsla sveitarstjóra
- Náttúrustofa Vestfjarða fjárhagsáætlun 2025, ásamt þriggja ára áætlun
- Þjóðskjalasafn Íslands, tilmælabréf þjóðskjalavarðar vegna varðveislu rafrænna gagna
- Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, fundargerð nr. 77 frá stjórnarfundi, fundargerð aðalfundar frá 9.10.24 ásamt skýrslu EFLU um raforkuverð á Íslandi frá árinu 2024
- Hafnasamband Íslands, fundargerð 467. fundar, 11.11.24
- Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir nr. 955., 956., 957. og 958, 15.11.24, 20.11.24 og 22.11.24
- Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 9. fundar, 11.11.24
Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Um leið bar hann fram þakkir til starfsmanna á skrifstofu vegna utanumhalds við áætlun og annars fundarefnis sem og veitinga fundarins.
Matthías gerir ekki athugasemd við fundarboðið sem slíkt, en gerir athugasemd við að greinargerð vegna fjárhagsáætlunar sem barst ekki fyrr en kl. 13.45 í dag. Matthías telur því ekki hægt að samþykkja fjárhagsáætlun vegna þessa.
Oddviti útskýrði málið og sagði að drög hefðu borist í nóvember en endanleg útgáfa var ekki send út fyrr en í dag vegna misskilnings.
Matthías lagði til að kosið yrði um hvort fjárhagsáætlun yrði tekin fyrir á fundinum og kusu nefndarmenn T-lista með tillögunni gegn atkvæði Matthíasar en Hlíf sat hjá.
Oddviti óskaði eftir að sveitarstjórn samþykkti afbrigði við fundinn, sem er yfirlýsing frá Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, Óskari Hafsteini Halldórssyni og Jóhanni Lárusi Jónssyni.
Sveitarstjórn samþykkir afbrigðið samhljóða og verður það liður númer 27 á fundinum.
Sömuleiðis óskaði oddviti eftir samþykki afbrigðis sem yrði þá númer 28 á fundinum og fjallar um leyfi til stofnunar lögbýlis í Selflóa á Broddanesi. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
Þá var gengið til umræðu.
1. Kosning varaoddvita
Oddviti leggur til að Grettir Örn Ásmundsson verði kjörinn varaoddviti og spyr hvort aðrar tillögur séu fram bornar. Ekki eru bornar fram aðrar tillögur.
Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en A-listafólk situr hjá.
2. Kosning í fastanefndir, atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd, tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd og fræðslunefnd
Oddviti leggur til að í Atvinnu-, dreifbýlis og hafnarnefnd, taki sæti Grettir Örn Ásmundsson og verði formaður nefndarinnar, í Tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd, taki sæti Júlíana Ágústsdóttir og verði formaður nefndarinnar og að Þórdís Karlsdóttir taki sæti sem varamaður í fræðslunefnd.
Hlíf Hrólfsdóttir bendir á að hún sitji ekki í neinni af fastanefndum sveitarfélagsins.
Allir fundarmenn eru sammála því en þarna er verið að fylla sæti T-lista fólks og svona verði þetta að vera í bili.
Oddviti óskar eftir samþykki fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt með þremur atkvæðum T lista en A-listi situr hjá.
3. Fjárhagsáætlun 2025 og til þriggja ára 2026-2028, seinni umræða ásamt greinargerð áætlunar.
Oddviti reifaði málið og bað síðan skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur að segja frá hugsanlegum breytingum og að tíunda helstu áherslur áætlunarinnar og niðurstöðutölur hennar.
Niðurstöðutölur áætlunar eru þær að rekstarafkoma A hluta er áætluð jákvæð um kr. 28.731.000. Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð kr. 28.384.000. Gert er ráð fyrir lántöku kr. 150.000.000 og framkvæmdir ársins eru áætlaðar kr. 127.140.000.
Matthías Sævar Lýðsson óskaði eftir að leggja fram bókun:
„Í þeirri áætlun sem hér er til umræðu kemur skýrt fram að fjáhagsstaða Strandabyggðar er erfið. Mikill kostnaður var við endurbætur á Grunnskólanum og að stærstum hluta fjármagnaður með lántökum. Það má deila um hvernig staðið var að þeim endurbótum, en verður ekki gert hér. Gert er þá gert er. Á árinu 2025 mun Strandabyggð einungis geta staðið að framkvæmdum sem eru í bráðnauðsynlegar og hafa þegar verið komnar í gang.
Þó svo að ég hafi tekið þátt í gerð þessarrar fjárhagsáætlunar og verið vel upplýstur af hálfu skrifstofu Strandabyggðar er sumt sem kemur einkennilega fyrir sjónir. Svo dæmi sem tekið er ekki gert ráð fyrir hækkun á útgjöldum til fræðslumála þrátt fyrir að kjarasamningar kennara séu lausir og gert ráð fyrir að samið verði um afturvirkar hækkanir til handa þeim starfsmönnum.
Í þeirri þriggja ára áætlun sem hér er lögð fram er óraunhæft að álykta að sveitarfélagið verði gjaldfært að loknu því tímabili vegna þess að sífellt meiri lántökur sem eru áætlaðar á tímabilinu og ekki er fyrirséður tekjuauki. Til að verja hagsmuni íbúa Strandabyggðar til framtíðar er nauðsynlegt á næsta ári að gera gagngera endurskoðun á rekstri sveitarfélagsins. Fyrsta skrefið í þeirri endurskoðun ætti að vera að segja upp Sveitarstjóra Strandabyggðar enda er hann dýrasti starfsmaður sveitarfélagsins og það hefur sýnt sig í hans veikindaleyfi að ekki er þörf á að ráða starfsmann í hans stað.
Framlögð fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun er á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar.“
Oddviti tók til máls og fór yfir stöðuna í sveitarfélaginu, tekjumöguleika og annað.
Matthías benti á að útsvarsprósenta sveitarfélagsins hafi ekki komið fram í fundargerð síðasta fundar eins og vera ætti.
Oddviti taldi auðsótt mál að bregðast við því. Útsvarsprósentan var að sjálfsögðu rædd og samþykkt af sveitarstjórn en ekki skráð í fundargerð.
Sveitarstjórn samþykkir að útsvarshlutfall árið 2025 verði jafnt lögbundnu hámarki sbr. Lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 eins og þau eru á hverjum tíma.
Við gerð samþykktar þessarar er gert ráð fyrir að hámarkshlutfallið verði 14,97% frá 1. janúar 2025.
Oddviti lagði þá til að sveitarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir 2025 og árin 2026-2028. Samþykkt með fjórum atkvæðum en Matthías S. Lýðsson situr hjá.
Samantekt, rekstrar- og efnahagsyfirlit og stjóðsstreymi 2025
2025-2028 - Málaflokkayfirlit
2025-2028 - Greinagerð með fjárhagsáætlun
2025-2028 - Yfirlit samstæða A og B hluti
2025-2028 - Mælaborð
Oddviti kemur inn á málefni utan dagskrár sem er að bjóða Júlíönu Ágústsdóttur velkomna á fyrsta fund sveitarstjórnar. Aðrir sveitarstjórnarmenn taka undir það.
4. Gjaldskrár 2025
Lagðar eru fram til samþykktar eftirfarandi gjaldskrár vegna útleigu eigna, Fræðslustofnana, Íþróttamiðstöðvar og tjaldsvæðis, Slökkviliðs Strandabyggðar, Sorphirðu og sorpeyðingar a og b, gáma- og geymslusvæðis, gæludýraleyfa, áhaldahúss, Hólmavíkurhafnar, Vatnsveitu og Fráveitu. Verulegar breytingar eru á gjaldskrá sorphirðu og hér eru lagðar fram a og b gjaldskrá. Gjaldskrá a inniheldur sorpgjöld án innheimtu vegna dýraleifa en b er miðuð við gjaldtöku vegna dýraleifa.
Hækkun er 4% á grunngjaldi útleigu eigna umfram vísitölu til að mæta kostnaði.
Oddviti tiltók að almenn gjaldskrárhækkun væri 3,9% sem væri í takt við verðbólguspá Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Undanfarin ár hefði Strandabyggð í raun lagt til frekar hóflegar gjaldskrárhækkanir miðað við mörg önnur sveitarfélög og svo væri einnig nú.
Matthías Lýðsson leggur til að gjaldskrá um sorphirðu verði frestað þar til samþykkt um Sorp- og meðhöndlun úrgangs verði samþykkt. Lagt fram til samþykktar og sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
Oddviti lagði til að aðrar gjaldskrár yrðu samþykktar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.
5. Heimild til yfirdráttar
Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið sem útskýrði málið.
Oddviti lagði til að sveitarstjórn staðfesti áður samþykkta yfirdráttarbeiðni. Samþykkt samhljóða.
6. Samþykkt um kjör og fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum Strandabyggðar
Oddviti reifaði málið og að sagði að þessa samþykkti ætti ávallt að endurskoða samhliða fjárhagsáætlanagerð. Litlu væri við þetta að bæta en oddviti gaf engu að síður orðið laust.
Hlíf tók fram að við yfirferð á samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar hefði komið fram að yfirfara ætti reglurnar um leið og fjárhagsáætlun.
Matthías óskar eftir að gera orðalagsbreytingu á gr. 20. “Samþykkt í sveitarstjórn Strandabyggðar 10. desember 2024 og falla þá úr gildi eldri reglur um kaup og kjör fulltrúa í stjórnum ráðum og nefndum sveitarfélagsins.”
Oddviti lagði til að Samþykkt um kaup og kjör fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum Strandabyggðar verði samþykkt og óskaði eftir handauppréttingu. Samþykkt samhljóða með fyrirvara um áður nefnda orðalagsbreytingu.
7. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð, fyrri umræða
Oddviti undirstrikaði mikilvægi þessarar vinnu og lagði til að sveitarstjórn vísaði endanlegri afgreiðslu til seinni umræðu að undangengnu samþykki ráðuneytis.
Matthías Lýðsson óskar eftir að bera fram þakkir til skrifstofu fyrir vinnu við samþykktirnar tvær sem lagðar eru fram á fundi þessum.
Sveitarstjórn samþykkir afgreiðsluna samhljóða.
8. Samþykkt um stjórn- og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar, fyrri umræða
Oddviti rakti tilurð þessa máls og þá vinnu sem liggur að baki þessari nýju samþykkt.
Oddviti lagði til að endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar væri vísað til vinnufundar sveitarstjórnar, til yfirlestar og mats viðeigandi aðila fyrir seinni umræðu.
Samþykkt samhljóða.
9. Fundaáætlun sveitarstjórnar Strandabyggðar 2025 til afgreiðslu
Oddviti þakkaði þetta góða yfirlit og bað skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur að útskýra betur tilurð þessarar áætlunar.
Salbjörg útskýrði að þessi áætlun væri hluti af samþykktum um stjórn- og fundarsköp sveitarstjórnar.
Oddviti lagði til að fundaáætlunin yrði samþykkt og kallaði eftir handauppréttingu.
Samþykkt samhljóða.
10. Álit Innviðaráðuneytisins um stjórnsýslu Strandabyggðar, 18.11.24
Oddviti rakti tilurð þessa máls. Oddviti spyr hvort einhver við borðið hafi leitað til Innviðaráðuneytis og óskað eftir því með óformlegum hætti að ráðuneytið grípi til aðgerða gagnvart sveitarfélaginu af þessum sökum til að tryggja starfhæfi sveitarstjórnar.
Enginn viðstaddur sveitarstjórnarmaður játar því og Matthías tekur fram að öll samskipti hans við ráðuneytið hafi verið formleg.
Í álitinu kemur fram að sveitarstjórnarmenn bera því afar ríkar skyldur til að tryggja starfhæfi sveitarstjórnar. Ráðuneytið hvetur því alla kjörna fulltrúa til að huga að lögbundnum skyldum sínum og leita allra leiða til að forða því að ágreiningur og samskiptavandi sem kann að vera innan sveitarstjórnar, komi í veg fyrir málefnalega umræðu um hagsmuni sveitarfélagsins.
Álit Innviðaráðuneytisins er annars lagt fram til kynningar og verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Álit Innviðaráðuneytis I
Álit Innviðaráðuneytið II
11. Erindi frá Jóni Jónssyni, 4.12.24
Oddviti óskar eftir því að fá að víkja sæti undir þessum lið vegna vanhæfis, en kallar eftir kosningu sveitarstjórnar þar um, eins og lög gera ráð fyrir.
Samþykkt samhljóða.
Oddviti felur varaoddvita stjórn fundarins og víkur af fundi. Inn á fundinn kemur Þórdís Karlsdóttir.
Varaoddviti býður Þórdísi velkoma á sinn fyrsta fund sveitarstjórnar.
Varaoddviti leggur fram tillögu meirihluta um að erindi þessu í heild verði vísað til lögfræðings sveitarfélagsins sem og lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga til skoðunar. Varaoddvita verði jafnframt falið að fylgja málinu eftir.
Matthías tók til máls og óskaði eftir að hver og einn sveitarstjórnarmaður svaraði þessari spurningu fyrir sig.
Matthías benti á að á fundi 8. október hafi komið fram í máli sveitarstjórnarmanna T-lista þ.e Óskars Halldórssonar, Sigríðar G. Jónsdóttur og Grettis Ásmundssonar að þau hefðu tekið fram þá skoðun sína að Þorgeir Pálsson ætti að biðjast afsökunar. Þetta væri til á upptöku. Grettir tók undir að þetta væri rétt.
Tillaga varaoddvita er lögð fram og borin undir atkvæði. Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista, A-listi kýs gegn tillögunni.
Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
“Ég tel að framganga oddvita Strandabyggðar, Þorgeirs Pálssonar hafi brotið í bága við bæði Siðareglur kjörinna fulltrúa í Strandabyggð og ákvæði í Starfsmannastefnu Strandabyggðar. Einnig tel ég að framganga starfsmanns Strandabyggðar, Hrafnhildar Skúladóttur hafi brotið í bága við ákvæði í Starfsmannastefnu Strandabyggðar.“
Hlíf Hrólfsdóttir tekur undir bókun Matthíasar og bendir sérstaklega á 15. gr. Siðareglna kjörinna fulltrúa í Strandabyggð.
Grettir þakkaði Þórdísi fyrir þáttöku hennar í fundinum.
Þórdís Karlsdóttir víkur af fundi og Þorgeir Pálsson oddviti tekur sæti sitt að nýju.
12. Svæðisáætlun Vestfjarða um úrgang 2024-2035 til afgreiðslu
Oddviti reifaði tilurð þessa máls og gaf orðið laust. Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti svæðisáætlunina og kallaði eftir handaupprettingu því til samþykkis.
Hlíf Hrólfsdóttir tók fram að samkvæmt skýrslunni þá værum við að greiða meira með sorphirðu í Strandabyggð en hjá öðrum sveitarfélögum á svæðinu.
Áætlunin lögð fram og samþykkt samhljóða.
13. Sterkar Strandir, fundargerð frá 21.11.2024 og ákvörðun um afdrif verkefnisins
Oddviti reifaði stöðuna og sagði frá tillögu Strandabyggðar í Strandanefndinni um að nýtt, sameiginlegt verkefni þar sem sveitarfélögin Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur, yrðu þátttakendur til næstu fimm ára. Þessi tillaga heitir Strandauður og er ein af tillögum Strandanefndarinnar. Því miður ríkir mikil óvissa um afdrif þessarar vinnu Strandanefndarinnar og þá hefur Kaldrananeshreppi verið synjað um inngöngu í Brothættar byggðir, að því er virðist. Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum sú synjum er, en augljóslega flækir það stöðuna. Vísaði oddviti þarna einnig í bókun oddvita Kaldrananeshrepps á Fjórðungsþingi í Bjarnarfiði, í október sl.
Hlíf tók til máls og fór yfir samskipti við Verkefnisstjóra Sterkra Stranda en þar kom fram að setja þurfi verkefnið í ákveðinn farveg út árið 2025.
Lagt er til að oddviti taki við verkefninu Sterkar Strandir til úrvinnslu og eftirfylgni. Lagt er til að Þorgeir Pálsson verði skipaður sem fulltrúi sveitarfélagsins í Sterkum Ströndum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.
14. Umhverfis- og skipulagsnefnd, fundargerð frá 5.12.2024
Oddviti gaf formanni nefndarinnar, Matthíasi Sævari Lýðssyni orðið.
Matthías tók til máls og útskýrði efni fundarins og tók fram að tillaga nefndarinnar er lögð fram í næsta lið fundarins. Fundargerð lögð fram til kynningar.
15. Tillaga Umhverfis- og skipulagsnefndar um að kynna deiliskipulagstillögu til afgreiðslu
Oddviti gaf formanni nefndarinnar, Matthíasi Sævari Lýðssyni orðið. Matthías tók til máls og fór yfir framkvæmdina. Gögn eru vönduð,vel unnin og umsagnir góðar.
Umhverfis og skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi Kvíslatunguvirkjunar verði kynnt í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagstillagan verði auglýst samtímis tillögu að endurskoðun Aðalskipulags Strandabyggðar 2021-2033.
Samþykkt samhljóða.
16. Erindisbréf Ungmennaráðs til afgreiðslu
Oddviti gaf Hlíf Hrólfsdóttur orðið og óskaði eftir því að hún færi yfir erindisbréfið.
Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti erindisbréfið með fyrirvara um leiðréttingu á orðalagi skv. umræðu fundarins og kallaði eftir handauppréttingu því til samþykktar.
Samþykkt samhljóða.
17. Erindisbréf Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar til afgreiðslu
Oddviti sagði að búið væri að yfirfara eldra erindisbréf.
Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti erindisbréfið með þeim fyrirvara að dagsetningu yrði breytt. Kallaði hann því næst eftir handaupprettingu því til samþykktar.
Samþykkt samhljóða.
18. Tillaga Strandabandalagsins, Innviðir – Brandskjól
Oddviti rakti efni tillögunnar. Oddviti lagði til að tillagan yrði samþykkt og kallaði eftir handauppréttingu sveitarstjórnar því til samþykkis.
Hlíf tekur til máls og spyr hvort athugasemdir sem berist í vinnu við deiliskipulag muni hafa tefjandi áhrif á vinnuna og hvort að við séum of snemma í því að kalla eftir vinnu verkfræðistofu.
Matthías tók til máls og taldi þetta vera í réttum farvegi.
Grettir fagnaði erindinu.
Samþykkt samhljóða.
19. Fjórðungssamband Vestfjarða, skipan áheyrnarfulltrúa
Oddviti rakti bréf Fjórðungssambandsins vegna þessa og lagði til að Matthías Sævar Lýðsson verði áfram tilnefndur sem áheyrnarfulltrúi Strandabyggðar í stjórn Fjórðungssambandsins. Kallaði oddviti eftir handauppréttingu því til samþykktar.
Hlíf tók til máls og spurði um hvort þetta ætti að vera sami aðilinn en oddviti taldi svo ekki vera.
Samþykkt samhljóða.
20. Vinnuskýrsla sveitarstjóra
Oddviti gaf orðið laust.
Matthías tók til máls og minnti á áður boðaðan fund með ráðgjafa um endurbyggingu grunnskóla. Oddviti tók fram að sá fundur hafi ekki verið haldinn. Matthías lagði til að sá fundur yrði haldinn sem fyrst.
Matthías spurði um veikindaleyfi oddvita og sveitarstjóra. Oddviti tók fram að hann vinni efni eftir fundinn og haldi síðan áfram í veikindaleyfi, sem sveitarstjóri er hann í veikindaleyfi.
Matthías tók einnig fram að hann saknaði þess að sjá ekki forstöðumannaskýrslur sérstaklega áhaldahúss.
21. Náttúrustofa Vestfjarða fjárhagsáætlun 2025, ásamt þriggja ára áætlun
Oddviti bað Matthías Sævar Lýðsson, fulltrúa Strandabyggðar í stjórn Náttúrustofu, að segja frá þessari vinnu.
Matthías játaði að hann hafi ekki tekið þátt í stjórnarstörfum þar sem ekki hafi verið áhugi fyrir því að stöðugildi væri áfram hér á þessu svæði. Jafnframt að það vantaði í áætlun hlut Strandabyggðar í kostnaði.
Að öðru leiti er áætlun lögð fram til kynningar.
22. Þjóðskjalasafn Íslands, tilmælabréf þjóðskjalavarðar vegna varðveislu rafrænna gagna
Oddviti bað skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur, að segja frá málinu. Salbjörg útskýrði tilmælin sem fjalla um að afhendingarskyldir aðilar eigi að hætta útprentun á pappír á gögnum sem eiga uppruna sinn á rafrænu formi og geri ráðstafanir til að mæta kröfum um skil og varðveislu rafrænna gagna.
23. Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, fundargerð nr. 77 frá stjórnarfundi, fundargerð aðalfundar frá 9.10.24 ásamt skýrslu EFLU um raforkuverð á Íslandi frá árinu 2024
Oddviti gaf orðið laust
Matthías óskar eftir að leggja fram bókun fyrir hönd A-lista:
„Sveitarstjórnarmenn A-lista þakka stjórn samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum fyrir þeirra störf og tekur undir að það „er nauðsyn á nýrri löggjöf til að tryggja orkuöryggi almennings og verja þann hóp fyrir hækkunum. Hluti af orkuþörf almennings eru stofnanir sveitarfélaganna, grunnstoðir á borð við skóla, leikskóla, sundlaugar og aðrar opinberar stofnanir. Málið varðar allan almenning, ekki aðeins köldusvæðin.“
A-listinn leggur fram svohljóðandi tillögu:
Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á stjórn Orkubús Vestfjarða að leggja fram fjármagnaða áætlun um áframhald jarðhitaleitar á Gálmaströnd. Það skiptir verulegu máli fyrir íbúa Strandabyggðar hvort vænta megi áframhalds hvort heldur sem um er að ræða til atvinnuuppbyggingar og/eða aukinna lífgæða fyrir íbúa svæðisins.
Ennfremur leggja Sveitarstjórnarmenn A-lista til að áfram verði unnið að því að lækka orkukostnað Strandabyggðar meðal annars með beislun og nýtingu birtuorku.
T-listi tekur undir þakkir til stjórnar samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum. Jafnframt tekur T-listi heilshugar undir þessa tilögu og skorar á stjórn Orkubús Vestfjarða um að setja fjármagn í jarðhitaleit á Gálmaströnd, óháð skýrslu Strandanefndarinnar því kostnaður við áframhaldandi jarðhitaleit er lítill í stóra samhenginu.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.
24. Hafnasamband Íslands, fundargerð 467. fundar, 11.11.24
Oddviti gaf orðið laust. Enginn tók til máls. Fundargerð lögð fram til kynningar.
25. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir nr. 955., 956., 957. og 958, 15.11.24, 20.11.24 og 22.11.24
Oddviti gaf orðið laust. Enginn tók til máls. Fundargerð lögð fram til kynningar.
26. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 9. fundar, 11.11.24
Oddviti gaf orðið laust. Matthías tók til máls og útskýrir umræður fundarins.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Oddviti sagði það jákvætt að komið væri á samkomulag þessara aðila og að menn gerðu sér þar með grein fyrir eðli og alvarleika þessa máls. Taldi hann málinu þar með lokið.
Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:
„Sveitarstjórnarmenn A-lista fagna því að samkomulag hafi náðst milli fyrrverandi sveitarstjórnarmanna og Jóhanns Lárusar Jónssonar.
Í bókun Óskars Hafsteins Halldórssonar og Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur frá sveitarstjórnarfundi 8. október stendur: „Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa“. Nú hefur komið fram að enginn af fulltrúum A-lista eða fjölskyldum þeirra hafa hótað þessum fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúum T-lista eða öðrum á þeim lista. Það er með ólíkindum að kjörnir fulltrúar hafi fullyrt slíkt á sveitarstjórnarfundi, sem nú kemur fram að er ósatt.“
Matthías er ósáttur við að A-listi liggi undir ásökunum um hvernig þau kæmu fram við fjölskyldumeðlimi T-lista. Að fullyrðingar þeirra sem settar voru fram á fundi sveitarstjórnar 8. október sl. voru rangar.
Oddviti leggur fram eftirfarandi bókun:
„Það er ómögulegt fyrir þau okkar sem hér eru að setja okkur í spor þeirra sveitarstjórnarmanna sem fengu hótanir, sem ollu því að þau óskuðu eftir lausn frá störfum. Það er sömuleiðis ómögulegt fyrir okkur að meta og skilgreina hvað felst í orðinu bakland og það dugar flestum að fylgjast með orðum og skrifum á samfélagsmiðlum til að vita um hvað málið snýst. En ég skil vel áhyggjur A-lista fólks því við í T-lista þekkjum vel hvað er að sitja undir rangri sök. Ég hvet A-lista fólk til að gera grein fyrir sinni stöðu hvað þetta mál varðar og koma þar með í veg fyrir frekari mistúlkun.“
Lagt fram til kynningar.
28. Leyfi til stofnunar lögbýlis á Selflóa 2.
Oddviti biður Gretti Örn Ásmundsson að útskýra erindið. Ísak Lárusson hefur óskað eftir umsögn sveitarstjórnar um stofnun nýs lögbýlis á Selflóa 2 en þar er ætlunin að vera með skógrækt.
Matthías tók til máls og tekur fram að þarna hafi öll gögn komið fram og hann sjái enga meinbugi á samþykki erindisins.
Oddviti leggur fram tillögu um að sveitarstjórn heimili stofnun nýs lögbýlis í landi Selflóa 2 í landi Broddaness.
Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 19:15